Spursmál Heiða Kristín, Jón Gunnarsson og Snorri Másson ræddu málin.
Spursmál Heiða Kristín, Jón Gunnarsson og Snorri Másson ræddu málin. — Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
Framboð Katrínar Jakobsdóttur til embættis forseta Íslands breytir pólitísku landslagi á Íslandi. Það er samdóma álit þeirra Jóns Gunnarssonar alþingismanns, Heiðu Kristínar Helgadóttur framkvæmdastjóra og Snorra Mássonar ritstjóra

Stefán Einar Stefánsson

ses@mbl.is

Framboð Katrínar Jakobsdóttur til embættis forseta Íslands breytir pólitísku landslagi á Íslandi. Það er samdóma álit þeirra Jóns Gunnarssonar alþingismanns, Heiðu Kristínar Helgadóttur framkvæmdastjóra og Snorra Mássonar ritstjóra. Þau eru gestir nýjasta þáttar Spursmála.

Bendir Snorri á að með framboðinu birtist ný hlið á Katrínu. Hún sé ekki manneskja sem hafi fyrir tilviljun gegnt þeim embættum sem hún hafi gegnt hingað til. Hún sé í raun „kaldlyndur stjórnmálamaður“. Heiða Kristín, sem er í kosningastjórn Jóns Gnarr, sem lýsti yfir framboði fyrr í þessari viku, segir að framboð Katrínar hafi legið í loftinu um allnokkurt skeið en að það hafi ekki haft áhrif á ákvörðun Jóns. Hann hafi ýmislegt til að bera sem geri hann að álitlegri frambjóðanda en Katrínu og næstu vikur muni leiða það í ljós.

Jón hefur síðastliðin sjö ár verið í hópi þeirra þingmanna sem myndað hafa meirihluta um ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur. Hann ítrekar að margt hafi áunnist á þessum tíma. Nú séu hins vegar uppi mjög sérstakir tímar í stjórnmálum þar sem rjúfa þurfi kyrrstöðu í orku- og innflytjendamálum, svo dæmi séu nefnd. Koma þurfi í ljós hvort hægt verði að vinna að framgangi þeirra mála með VG innanborðs. Segist hann vantrúaður á það og einn kosturinn í stöðunni nú sé að boða til þingkosninga síðar í sumar, að undangengnum forsetakosningunum 1. júní næstkomandi.

Meðal þess sem hefur áhrif á stjórnarsamstarfið er boðuð vantrauststillaga á hendur Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra en hún er snúin til baka eftir stutt veikindaleyfi. Þegar gengið er á Jón segist hann ekki sjá fyrir sér að geta stutt ráðherra sem gengið hafi í berhögg við landslög og stjórnarskrá. Hann muni því að öllu óbreyttu ekki verja hana vantrausti.

Það stefnir allt í spennandi forsetakosningar þótt viðmælendur Spursmála séu ekki á einu máli um hversu flokkspólitísk baráttan verði, þrátt fyrir framboð Katrínar Jakobsdóttur.

Höf.: Stefán Einar Stefánsson