— Apple TV+
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig komstu framhjá öryggisgæslunni?“ spyr ábúðarfullur karl, þungur á brún. „Ég kom inn að aftan,“ svarar konan, sem situr á móti honum, býsna brött. „Það eru engar bakdyr að Palm Royal,“ fullyrðir þá karlinn

Hvernig komstu framhjá öryggisgæslunni?“ spyr ábúðarfullur karl, þungur á brún.

„Ég kom inn að aftan,“ svarar konan, sem situr á móti honum, býsna brött.

„Það eru engar bakdyr að Palm Royal,“ fullyrðir þá karlinn.

„Ég sagðist aldrei hafa notað dyr,“ svarar konan.

Þetta stutta samtal segir allt sem segja þarf um einbeittan vilja Maxine Dellacorte-Simmons, sem þrátt fyrir tilkomumikið nafnið fæddist illu heilli ekki með silfurskeið í munni, til að koma sér með góðu eða illu inn í svalasta klúbb ríka fólksins á Palm Springs árið 1969, Palm Royale. Og mögulega svalasta klúbb í heimi.

Grundvallarspurningin er þessi: „Hversu miklu af sjálfri þér ertu reiðubúin að fórna til að komast yfir eitthvað sem aðrir hafa?“

Maxine hefur ekki verið á svæðinu nema í tvær vikur en hefur eigi að síður strax áttað sig á því að Palm Royale sé eini rétti staðurinn fyrir hana. Hún er með taktþétt plan og reynir strax að vingast við Evelyn Rollins sem er einskonar félagslegur hliðvörður inn í þennan eftirsótta heim. En hvað er a’tarna? „Maxine,“ segir hún með mátulegri fyrirlitningu, „ég kann ekki við þig!“

Úps.

En það er alltaf leið. Er það ekki? Allir eiga sín leyndarmál.

Myndaflokkurinn Palm Royale hóf göngu sína á streymisveitunni Apple TV+ á dögunum og eru fimm þættir af tíu þegar aðgengilegir. Hinir fimm mjatlast inn fram í maí. Handritið er eftir Abe Sylvia en byggt er á skáldsögunni Mr. & Mrs. American Pie eftir Juliet McDaniel frá 2018. Mikið er lagt upp úr því að fanga anda ársins 1969, með búningum, umgjörð og öðru sem setti svip sinn á þessa tíma þegar svo margt var að breytast og hefðir og nýjungar vógu ákaft salt.

Kristen Wiig leikur hina úrræðagóðu og metnaðargjörnu Maxine en með önnur helstu hlutverk fara Laura Dern, Allison Janney, Leslie Bibb, Josh Lucas og söngvarinn og hjartaknúsarinn Ricky Martin. Þá eru Bruce Dern og Carol Burnett í smærri hlutverkum. Haft hefur verið eftir þeirri síðarnefndu að hún hafi lítið þurft að hafa fyrir þremur fyrstu þáttunum; þá er persóna hennar nefnilega í dái.

Wiig og Dern koma einnig að framleiðslu þáttanna og Dern upplýsir í samtali við CNN að engin önnur leikkona en Wiig hafi komið til álita í aðalhlutverkið. „Hún er fullkomin Maxine. Það var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum,“ segir hún.

Wiig þurfti heldur ekki að hugsa sig um tvisvar eftir að henni var boðið hlutverkið. „Frá því að fá símtalið frá Lauru Dern yfir í það að lesa handritið og hitta alla sem að þessu stóðu þá hugsaði ég bara já, já, já,“ segir hún við CNN. „Ég hef ekki í annan tíma leikið persónu á borð við Maxine og satt best að segja var þetta mjög sterk tilfinning. Maður veit bara í svona tilvikum hvort svarið er já eða nei. Og þetta var feitt já.“

Josh Lucas, sem leikur eiginmann Wiig, kveðst í samtali við CNN hafa haft mikið yndi af því að gera Palm Royale. Fyrir það fyrsta hafi það verið draumi líkast að vinna með Wiig sem hann hefur mikið dálæti á. Þá hafi verið spennandi að renna sér aftur til ársins 1969. Umgjörðin hafi gert þessa veröld, eins gervileg og hún var, mjög raunverulega. „Þetta er mögnuð blanda af heiminum sem ofurríka fólkið í Palm Beach lifði og hrærðist í seint í sexunni og öllum þeim sögulegu viðburðum sem voru að eiga sér stað á sama tíma,“ segir Lucas.

Ricky Martin leikur starfsmann á strandklúbbi ríka fólksins sem til að byrja með er mjög skeptískur á Maxine og fyrirætlanir hennar. Hann segir það að vinna með Wiig hafa haft djúpstæð áhrif á sig. „Það var æðislegt að rölta inn í sminkherbergið á hverjum degi og fara yfir texta með henni,“ segir hann við CNN. „Það gaf tóninn fyrir daginn í heild. Ég er mjög þakklátur fyrir örlæti hennar. Jafnvel á augnablikum þegar ég var stressaður þá var hún til staðar og nærvera hennar var svo notaleg. Fyrir það verð ég henni ævinlega þakklátur.“

Byggt á Everglades

Hér er vitaskuld um skáldskap að ræða en Palm Royale mun eigi að síður vera lauslega byggður á hinum fræga Everglades-klúbbi á Palm Beach sem starfræktur hefur verið í meira en heila öld. Framkvæmdir hófust 1918 og Everglades átti upphaflega að vera spítali fyrir særða hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni en þar sem stríðinu lauk fáeinum mánuðum síðar var húsnæðinu breytt í einkaklúbb fyrir ríka og fræga fólkið á svæðinu.

Inntökuskilyrði voru ströng og klúbbnum hefur löngum verið legið á hálsi fyrir að mismuna fólki, ekki síst gyðingum og þeldökkum. Frægt var þegar leikaranum Sammy Davis Jr. var snúið á hæl í gættinni og snemma í sexunni sagði Joseph Kennedy, faðir þáverandi forseta, upp aðild sinni að klúbbnum til að víkja sér undan gagnrýni vegna þess að hann heyrði til klúbbi sem mismunaði téðum hópum.

Þá greindi samkvæmisljónið C.Z. Guest frá því að hún og eiginmaður hennar hefðu verið sett í tímabundið bann eftir að þau komu einu sinni með gyðinga með sér sem gesti, athafnakonuna Estée Lauder og bónda hennar.

Hljómi nafnið, C.Z. Guest, kunnuglega þá var hún ein af Álftunum hans Trumans Capotes sem fjallað er um í myndaflokknum Feud sem nálgast má í Sjónvarpi Símans Premium.

Það er sem maðurinn sagði, þú hnýtur alltaf tvisvar um fólk í þessu lífi.

Af norskum ættum

Kristen Wiig fæddist árið 1973 í Canandaigua, New York. Faðir hennar er af norskum uppruna og þaðan er eftirnafnið, Wiig, komið. Wiig heillaðist ung af spuna og gamanleik og vann með hópum á borð við The Groundlings. Hún lék í ýmsum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á fyrsta áratugi aldarinnar en mesta athygli vakti framganga hennar í skemmtiþættinum Saturday Night Live en Wiig átti fasta aðild að honum frá 2005 til 2012.

Árið 2011 sló hún svo endanlega í gegn á heimsvísu í gamanmyndinni goðsagnakenndu Bridesmaids en hún skrifaði einnig handritið ásamt öðrum. Síðan hefur verið í mörg horn að líta. Palm Royale er fyrsta sjónvarpshlutverk Wiig í þrjú ár.

Eiginmaður hennar er leikarinn Avi Rothman og eiga þau tvö börn.