Heiðraður Dick Ringler hlaut fálkaorðuna fyrir störf sín árið 2004. Hér er hann ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni þáverandi forseta á Bessastöðum.
Heiðraður Dick Ringler hlaut fálkaorðuna fyrir störf sín árið 2004. Hér er hann ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni þáverandi forseta á Bessastöðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég frétti fyrst af Bandaríkjamanninum Dick Ringler (1934–2024) frá sameiginlegum vinum okkar, Jóni Atla Árnasyni lækni og Salvöru Jónsdóttur skipulagsfræðingi. Þau höfðu sest að í Madison í Wisconsin og kynnst þar þessum ljómandi skemmtilega bókmenntaprófessor

Af bókmenntum

Sveinn Yngvi

Egilsson

Ég frétti fyrst af Bandaríkjamanninum Dick Ringler (1934–2024) frá sameiginlegum vinum okkar, Jóni Atla Árnasyni lækni og Salvöru Jónsdóttur skipulagsfræðingi. Þau höfðu sest að í Madison í Wisconsin og kynnst þar þessum ljómandi skemmtilega bókmenntaprófessor. Þetta var um miðjan tíunda áratuginn og það fylgdi sögunni að hann væri að fást við Jónas Hallgrímsson. Ekki leið á löngu áður en við Dick vorum farnir að skrifast á um listaskáldið góða. Í ljós kom að hann var að þýða kvæði Jónasar eitt af öðru og vildi fá álit mitt á ýmsu sem snerti þau. Þýðingunum fjölgaði og smám saman varð til heilmikið handrit sem hann sendi mér til Íslands. Ég las það yfir og sendi honum ítarlegar athugasemdir með hvatningu og lofsamlegum ummælum um þýðingarnar og þá vönduðu vinnu sem hann hefði lagt í verkið.

Dick birti svo þýðingarnar ásamt fróðlegri umfjöllun á heimasíðu á netinu sem var opnuð árið 1997 (Jónas Hallgrímsson: Selected Poetry and Prose). Síðan kom út glæsileg bók árið 2002 með völdum þýðingum og umfjöllun, Bard of Iceland: Jónas Hallgrímsson, Poet and Scientist, á vegum University of Wisconsin Press. Bókinni var vel tekið og hún var endurútgefin af Máli og menningu árið 2010. Þýddir eru sex tugir kvæða og stakra vísna, allt hið merkasta sem varðveitt er eftir Jónas í bundnu máli, auk nokkurra valdra kafla í lausu máli, smásagna og fræðsluefnis. Hverjum texta fylgja rækilegar skýringar.

Form kvæðanna órjúfanlegur þáttur í list Jónasar

Í tímaritinu Ritmennt 1998 („Að yrkja úr íslensku: Glímt við að þýða Jónas Hallgrímsson“, bls. 42-64) gerir Dick grein fyrir stefnu sinni við þýðingarnar og leggur aðaláherslu á þrjú atriði: nákvæmni, margbrotið form og eðlilega framsetningu. Fyrsta atriðið varðar tryggðina við merkingu frumtextans eins og þýðandinn skilur hann. Annað atriðið varðar endurgerð formsins á kvæðunum sem Dick vill koma til skila með því að nota ljóðstafasetningu á ensku auk ríms þar sem það á við. Um þetta má deila enda leggur það aukna byrði á þýðandann sem þarf þá ekki aðeins að koma merkingu frumtextans yfir á ensku heldur líka að þýða formið á þennan hátt. Rök Dicks eru að formið sé órjúfanlegur þáttur í list Jónasar og það er aðdáunarvert hve vel hann nær að láta stuðla og höfuðstafi hljóma í þýðingunum. Þriðja atriðið sem hann leggur mikla áherslu á er að þýða tungutak og skáldamál Jónasar á ensku og koma til skila ferskleika og látleysi frumtextans. Greinilegt er að Dick hefur lagt mikla vinnu í þetta og yfirleitt hefur það skilað þeim árangri að kvæði Jónasar hljóma eðlilega í ensku þýðingunum. Það er ekki svo lítið afrek í sjálfu sér.

Þýðingarstarfið var þáttur í stærri rannsókn Dicks á ævi og verkum Jónasar. Þýðingunum fylgdu ítarlegar skýringar og ýmsar ritgerðir sem sýna hve vel hann setti sig inn í allt það sem máli skipti. Hann velti við hverjum steini og tók sjálfstæða afstöðu til fræðiskrifa um skáldið. Dick ferðaðist um landið og gerði sér far um að setja sig vel inn í alla staðhætti sem komu við sögu í verkum Jónasar. Þetta var verkefni sem hann sinnti af sömu ástríðu og öðru sem hreif hann hverju sinni, hvort sem það var lútuleikur sem hann lagði stund á í áratug eða friðarhreyfing háskólakennara sem hann helgaði annan áratug á sinni löngu og litríku ævi.

Hann var einn hvatamanna og fulltrúi Wisconsinháskóla í Madison í samstarfsverkefninu Icelandic Online, vefnámskeiðum í íslensku fyrir byrjendur á háskólastigi sem íslenskuskor heimspekideildar Háskóla Íslands og Stofnun Sigurðar Nordals áttu frumkvæðið að. Árið 2004 var Dick Ringler kjörinn heiðursdoktor við heimspekideild Háskóla Íslands og sama ár var hann sæmdur fálkaorðunni fyrir fræðistörf.

Kom Jónasi á kortið

Við Jón Karl Helgason prófessor sáum ásamt Dick um málstofu um Jónas á ráðstefnu Society for the Advancement of Scandinavian Study (SASS) í Davenport í Iowa 2007. Dick var þar í essinu sínu og gaman var að ferðast með honum um þjóðvegi Miðríkjanna og fara yfir Mississippifljótið. Upp úr þeirri ráðstefnu varð til rannsóknarverkefni sem við Jón Karl skipulögðum ásamt tveimur bókmenntafræðingum frá Slóveníu, þeim Marko Juvan og Marijan Dovic. Verkefnið fólst í fræðilegum samanburði á Jónasi Hallgrímssyni og France Prešeren, þjóðskáldi Slóvena. Þetta verkefni hefði ekki verið framkvæmanlegt án þýðinga Dicks á Jónasi sem gerðu samstarfsmönnum okkar, sem hvorugur skildi íslensku, kleift að setja sig inn í skáldskap hans. Jón Karl og Marijan gerðu svo framhaldsrannsóknir og gáfu út bækur á ensku með samanburði á þjóðskáldum evrópskra smáríkja (National Poets, Cultural Saints: Canonization and Commemorative Cults of Writers in Europe, Brill, 2017; Great Immortality: Studies on European Cultural Sainthood, Brill, 2019).

Jónas Hallgrímsson er orðinn þekkt nafn í alþjóðlegum samanburðarfræðum og það er ekki síst að þakka þýðingum Dicks. Hann kom Jónasi á kortið í hinum enskumælandi heimi og það var mikil gæfa að til þess vandasama starfs skyldi veljast svo smekkvís og orðhagur þýðandi. Nú er hann allur en meðal þess sem eftir stendur er þetta merka framlag hans til skilnings og útbreiðslu íslenskra bókmennta á erlendri grund.

Höfundur er prófessor í íslenskum bókmenntum á Hugvísindasviði HÍ.