Gaman Fróði (t.v.) og Ísak fræða karlmenn á fyrsta kvöldi hherramannaskólans um ýmislegt tengt spariklæðum.
Gaman Fróði (t.v.) og Ísak fræða karlmenn á fyrsta kvöldi hherramannaskólans um ýmislegt tengt spariklæðum. — Ljósmyndir/Ágúst Máni Ágústsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við leggjum mikla áherslu á að fræða viðskiptavini okkar um hvernig á að klæða sig, því margir þekkja ekki grunnreglurnar, nema kannski að hneppa aldrei neðstu tölunni á jakkanum. Djúp saga er á bak við fyrirbærið jakkaföt, fjölbreytt snið og efni…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við leggjum mikla áherslu á að fræða viðskiptavini okkar um hvernig á að klæða sig, því margir þekkja ekki grunnreglurnar, nema kannski að hneppa aldrei neðstu tölunni á jakkanum. Djúp saga er á bak við fyrirbærið jakkaföt, fjölbreytt snið og efni og alls konar reglur um hvernig hlutirnir eiga að vera. Það er gaman fyrir menn að kunna sem flest í kringum spariklæðnað, svo við ákváðum að bjóða körlum upp á slíka kennslu,“ segir Ísak Einar Ágústsson um ástæðu þess að hann og Fróði Kjartan Rúnarsson fóru nýlega af stað með herramannaskóla á vegum fyrirtækis síns sem heitir Jökull & Co., en það sérhæfir sig í sérsaumuðum formlegum klæðnaði herramanna.

„Við höfum verið að pósta stuttum myndböndum til að kenna ýmislegt, til dæmis hvernig á að binda ólíka bindishnúta, vita hvað skyrtuermar eigi að ná langt fram fyrir jakkann og fleira, en hugmynd okkar að herramannaskólanum kom til af því að karlaklúbbur pantaði okkur til sín. Þeir vildu fá kynningu á fyrirtækinu okkar og öllu sem tengist jakkafötum, svo við Fróði mættum til þeirra með gínu sem klædd var í skyrtu, vesti og jakka og við fórum yfir mismunandi föt og alls konar reglur sem gott er að fylgja þegar menn klæðast jakkafötum. Það var svo gaman á þessu kvöldi og karlarnir svo ánægðir að við Fróði ákváðum að bjóða upp á herramannaskóla. Frumraun okkar með skólann var á föstudaginn langa, en hann snýst í raun um eina kvöldstund þar sem lítill hópur karla kemur hingað til okkar, en við höfum aðeins pláss fyrir sex karla í einu. Við fórum yfir hin ýmsu atriði sérsaums og höfðum þetta létt og þægilegt, spiluðum notalega tónlist og buðum upp á bjór og eðalviskí.“

Þeir geta nýtt viskuna

Ísak segir að þessi frumraun hafi gengið betur en þeir bjuggust við, svo þeir pússuðu prógrammið til, tóku út það sem þeim fannst ekki virka og bættu öðru við.

„Karlar sem koma á svona kvöld hjá okkur fá líka gjafabréf með sömu upphæð og þeir borga fyrir kvöldið, sem þeir geta þá notað til að greiða inn á sérsaumuð jakkaföt, ef þeir kæra sig um að fá sér slík hjá okkur. Þá geta þeir nýtt viskuna sem þeir fengu í herramannaskólanum til að velja sér jakkaföt eins og þeir vilja hafa þau. Við viljum endilega að menn komi með spurningar í herramannaskólanum sem nýtast þeim, að þeir fái að vita það sem þá vantar að vita. Sumir á þessu fyrsta kvöldi höfðu til dæmis aldrei séð tvíhneppt jakkaföt, og við fórum þá vel yfir út á hvað þau ganga. Ákveðnir boðungar fylgja til dæmis tvíhnepptum jakkafötum og ákveðin breidd er á þeim. Einn féll alveg fyrir þeim og ætlar að fá sér slík,“ segir Ísak og bætir við að þeir Fróði hafi líka farið yfir hvernig keðjuendar á vasaúrum þurfa að vera til að hægt sé að nota þau með jakkafatavesti.

„Frá því við stofnuðum fyrirtækið höfum við komist að því að karlar vita ótrúlega lítið um þetta allt saman, en þeir vilja gjarnan vita hvernig bindi eigi að nota við ólík föt og hvernig skyrtu við hvernig jakka og svo framvegis. Það ætti að vera grunnkunnátta hjá hverjum manni að kunna að binda bindishnút, en sú kunnátta virðist vera mikið að hverfa, sennilega vegna þess að margir eru hættir að nota bindi, vegna þess að þeim finnst skyrtur sem hnepptar eru upp í háls vera of þröngar. Ef skyrta er sérsaumuð eftir máli, þá passar hún fullkomlega og þá er ekkert óþægilegt að hneppa upp í háls og setja á sig bindi.“

Voru saman í dönskutímum

Ísak segir að þeir Fróði dýrki að sjá menn klæða sig upp og að þeir njóti starfsins fram í fingurgóma. Fyrirtæki þeirra, Jökull & co., er ungt, verður tveggja ára næsta haust.

„Ég varð mikill áhugamaður um vönduð sérsaumuð jakkaföt þegar ég eignaðist mín fyrstu slíku og áttaði mig á hvað þau gerðu mikið fyrir mig, þau létu mér líða vel. Ég upplifði líka að fólk brást öðruvísi við mér þegar ég var fínn í tauinu, með bindi og ermahnappa. Ég þræddi nytjamarkaði og leitaði að vönduðum jakkafötum, gúgglaði endalaust og las allt sem ég komst yfir um muninn á góðum fötum og síður góðum. Af hverju eitt efni er fínna en annað, hvaða snið henta hvaða vaxtarlagi, hvað fellur eru, boðungur, brot og fleira. Ég fór í allar herrafataverslanir og í einni slíkri rakst ég óvænt á Fróða, sem var þá að vinna þar, en við höfðum kynnst þegar við vorum saman í dönskutímum í framhaldsskóla. Við höfðum ekki hist í nokkur ár, tókum tal saman og komumst að því að við deildum þessari ástríðu og áhugamáli, vönduðum formlegum klæðnaði fyrir karlmenn. Ég bauð honum skömmu seinna á fund þar sem ég viðraði hugmynd mína um að fá hann til samstarfs við mig í þetta fyrirtæki sem ég hafði hug á að stofna. Hann tók vel í það og við höfum verið á fullu síðan. Fróði er opinn og á auðvelt með að tala við fólk, svo hann sér um að pósta myndböndum á TikTok, þar sem hann fer yfir ýmsa hluti sem tengjast jakkafötum.“

Býr að því að vera smiður

Ísak er lærður smiður og vann sem slíkur í smíðafyrirtæki sem hann á með Jóel Kristjánssyni vini sínum.

„Í mínu lífi eru tvær ástríður, smíðin og jakkafötin, en jakkafötin eru í fyrsta sæti og mér finnst frábært að vinna við það sem ég hef mestan áhuga á. Við Jóel stofnuðum saman Jökul & co., við notuðum pening úr smíðafyrirtækinu okkar til að starta því, koma okkur upp húsnæði og aðstöðu og setja pening í markaðssetningu og fleira. Jóel á enn sinn hlut í fyrirtækinu, en hann starfar alfarið sem smiður og ég starfa alfarið hér hjá Jökli & co. Fróði keypti helmingshlut í fyrirtækinu og við tveir skiptum með okkur viðskiptavinunum,“ segir Ísak og bætir við að hann búi vel að því að vera lærður smiður.

„Það kom sér vel þegar við ákváðum að gera notalegt hér hjá okkur, ég skipti um parket, smíðaði nýjar gluggakistur, málaði og við keyptum karlmannlegan sófa og stól. Við Fróði erum íhaldssamir og mikið fyrir klassík og við viljum að mönnum líði sem best og hafi það huggulegt þegar þeir koma hingað til að láta taka af sér mál og velja efni, hvort sem þeir vilja láta sauma á sig léttan sumarjakka eða formleg smókingföt.“

Gamlir sjóarar komu til okkar

Ísak segir að karlar á öllum aldrei séu í hópi viðskiptavina þeirra sem vilja láta sérsauma á sig formlegan klæðnað.

„Fyrstu kúnnarnir voru vinir okkar og þá voru hæg heimatökin að nýta þá sem módel í myndatökur fyrir heimasíðuna okkar. Þetta voru ungir herramenn sem voru kannski að fá sér föt í tilefni af útskrift, ýmist úr framhaldsskóla eða háskóla. Hið óvænta gerðist að við fengum þó nokkuð af gömlum sjóurum til okkar, sem vildu dressa sig upp, sem var einstaklega ánægjulegt fyrir okkur, því við viljum hafa viðskiptavini okkar sem fjölbreyttasta. Þessir sjóarar komu úr ólíkum áttum, þeir þekktust ekki innbyrðis, sem gerði þetta enn skemmtilegra.“

En hvernig kom nafnið á fyrirtækinu til?

„Ég vildi að ég gæti sagt að afi minn hefði heitið Jökull, en það er ekki svo. Ég var með nafnalista á tveimur stórum blöðum þegar ég var að ákveða nafnið og til greina komu Eldgos, Hraun, Klaki og fleira sem ég gat tengt við Ísland. Niðurstaðan var Jökull, af því það er bæði náttúrufyrirbæri og karlmannsnafn. Pælingin var að hafa íslenskan bókstaf í nafninu, þar kemur ö-ið, og mig langaði líka að hafa sterkt hljóð, ká og tvö ell. Þar fyrir utan geymir jökull í sér orðið ull, en við saumum jú jakkaföt úr ull.“

Ísak segir að hann og Fróði séu með ýmislegt á prjónunum þegar þeir horfi til framtíðar með fyrirtækið sitt, en það verði tilkynnt síðar.

„Það nýjasta hjá okkur fyrir utan herramannaskólann er að við vorum að bæta við okkur skóm og beltum.“

Nánar á jokullogco.is,

Facebook og TikTok: Jökull & co.

Instagram: jokullogco