Richard N. Ringler, Dick, fæddist í Milwaukee, Wisconsin 21. janúar 1934. Hann lést 22. febrúar 2024.

Hann var sonur hjónanna H. Pauls Ringlers, blaðamanns við Milwaukee State Journal, og Friedu (Newman) Ringler.

Hann giftist Karin Louise Ericson sálfræðingi í desember 1959 og eiga þau tvö börn, Thor Stephen rithöfund sem býr í Madison og Thomasine Louise listakonu sem kennir við Háskólann í Iowa. Thor er kvæntur April Sopkin listakennara. Börn þeirra eru tvö, sonurinn Fritz og dóttirin Archana. Thomasine á einn son, Lauris Ringler.

Dick Ringler lauk meistaraprófi frá University of Wisconsin-Madison árið 1956 í enskum bókmenntum og doktorsprófi (Ph.D) í enskum miðaldafræðum frá Harvardháskóla árið 1961. Hann hóf kennslu við Wisconsinháskóla og var skipaður prófessor í enskum og norrænum fræðum 1961 og gegndi embætti deildarforseta á árunum 1968-71, 1980-83 og 1999-2000. Dick dvaldi einatt í rannsóknaleyfum og sem gestafyrirlesari við háskóla í Evrópu m.a. í London, í Giessen í Þýskalandi og háskólann í Durham, Englandi. Hann var eftirsóttur fyrirlesari um ýmis málefni, allt frá enskum og norrænum fræðum til zen-búddisma og málefna stríðs og friðar. Hann annaðist þáttagerð fyrir háskólaútvarp Wisconsinháskóla og Wisconsin Public Radio á árunum 1995-2002. Hann tók virkan þátt í samtökum kennara við Wisconsinháskóla sem létu sig varða almannaheill og félagslega ábyrgð menntamanna í bandarísku þjóðfélagi.

Dick Ringler dvaldi með ungri fjölskyldu sinni veturinn 1963-1964 á Hólum í Hjaltadal til að læra og tileinka sér íslensku og fá með því innsýn í íslenskar bókmenntir. Það var að ráði Halldórs Halldórssonar, málfræðings og prófessors. Hann dvaldi aftur á Íslandi veturinn 1965-1966 við Háskóla Íslands til að efla fræðilega þekkingu sína á íslenskum bókmenntum.

Eftir Dick Ringler liggur fjöldi fræðigreina og rita sem mörg hver snerta íslensk fræði að fornu og nýju og tengsl milli fornenska sagnakvæðisins Bjólfskviðu og íslenskra fornbókmennta. Árið 2007 kom út eftir hann þýðing á Bjólfskviðu á nútímaensku.

Árið 2002 birtust þýðingar Dicks Ringlers með ítarlegum skýringum á kvæðum Jónasar Hallgrímssonar á ensku í bókinni BARD of ICELAND Poet and Scientist hjá Wisconsin University Press. Fyrir þetta einstæða verk hlaut hann árið 2004 heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands og einnig riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu.

Bálför hefur farið fram en minningarathöfn verður haldin í dag, 6. apríl 2024, í St. Benedict's Convent on Lake Mendota, Wisconsin í Bandaríkjunum, klukkan 19 að íslenskum tíma. Streymt verður frá athöfninni á slóðinni: http://mbl.is/go/cz2ak

Í dag fer fram minningarathöfn um Richard (Dick) N. Ringler, fv. prófessor í fornenskum og norrænum fræðum við Wisconsinháskóla í Madison, Íslandsvin og þýðanda Jónasar Hallgrímssonar á ensku. Hann lést 22. febrúar sl., þá nýlega níræður.

Við Áslaug kynntumst Dick og fjölskyldu hans þegar við dvöldum við Wisconsinháskóla á 7. áratug síðustu aldar. Við minnumst hans sem góðs félaga, afburðamanns að þekkingu; einstaks viðmælanda og þolinmóðs hlustanda; umburðarlynds og góðs greinanda í umræðum um hvaða efni sem var. Fyrir utan fræðileg viðfangsefni á sviði fornbókmennta náði áhugasvið hans yfir tónlist, málefni átaka á dögum kalda stríðsins og baráttu fyrir málefnum friðar og stöðu lýðræðis í Bandaríkjunum. Framlag hans á þessum og fleiri sviðum leiddi til fjölda viðurkenninga. Sérstakt fyrir Íslendinga er þó framlag hans til útbreiðslu íslenskrar menningar með þýðingum hans á öllum helstu ljóðum Jónasar Hallgrímssonar og útgáfu þeirra með ítarlegum skýringum í bók undir heitinu BARD of ICELAND – Jónas Hallgrímsson, Poet and Scientist hjá Wisconsin Press árið 2002. Fyrir það hlaut hann bæði heiðursnafnbót við Háskóla Íslands og riddarakross fálkaorðunnar.

Við Áslaug hittum Dick og konu hans Karin fyrst við komuna til Wisconsinháskóla haustið 1964 á samkomu fyrir Norðurlandabúa og starfsmenn og nemendur norrænudeildarinnar. Þau voru þá nýkomin til baka eftir ársdvöl á Íslandi til að læra málið. Tókst fljótt vinskapur milli okkar og tíð samskipti, m.a. í ferðum til Washington Island, nýlendu Íslendinga frá Eyrarbakka norður í Michigan-vatni, þar sem fjölskylda Karinar átti sumarhús. Þar var oft fjölmennt og glatt á hjalla meðal Íslendinga og bandarískra norrænunema við Wisconsinháskóla.

Eftir heimkomu okkar og með vaxandi áhuga Dicks á arfleifð Jónasar Hallgrímssonar og tíðari heimsóknum til Íslands fjölgaði vinum þeirra hér á landi. Til varð vinafélag hóps fyrrverandi nemenda við Wisconsinháskóla frá ýmsum tímum. Það leiddi m.a. til heimsóknar Páls Skúlasonar þáv. háskólarektors og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þáv. borgarstjóra til Wisconsinháskóla og Madisonborgar þar sem efnt var til formlegra tengsla milli skólanna og samstarfs um háskólatengd borgarmálefni. Við það tækifæri voru heimsóttar söguslóðir áhrifamikils brautryðjanda í náttúruvernd, skógfræðingsins Aldos Leopolds, sem skrifaði bókina A Sand County Almanac, sem kom út árið 1949 og olli vakningu um mikilvægi náttúruverndar í samskiptum manns og náttúru. Sú bók varð mér snemma hvatning til þess að láta náttúruvernd til mín taka. Þá áttu Áslaug kona mín og Dick samstarf við greiningu á bakgrunni og merkingarlegum boðskap ljóðs Jónasar Hallgrímssonar Nú andar suðrið … í ljósi þjóðernisvakningar þess tíma. Grein um þetta birtist Skírni árið 1998 undir heitinu Með rauðan skúf.

Við minnumst nú fjölda samverustunda með þakklæti og hugsum til Karinar sem kveður maka sinn í dag með börnum sínum og barnabörnum, vinum og fyrrverandi samstarfsmönnum úti í Madison.

Vilhjálmur Lúðvíksson.

„I am what's called grasæta“ – það er enginn hversdagslegur heimsmaður sem kynnir sig með því að sletta á íslensku! Sá sem hér átti í hlut var heldur enginn venjulegur heimsmaður hvernig sem á það er litið. Fjölmenntaður í þess orðs bestu merkingu.

Við vorum svo heppin að kynnast Dick Ringler fljótlega eftir að við fluttum til Madison árið 1990 en hann lét sér annt um Íslendinga og við nutum gestrisni þeirra Ringler-hjóna bæði á heimilinu í Shorewood Hills og í húsi fjölskyldunnar á Washington Island. Dick var einstaklega skemmtilegur maður, hafði gaman af að segja og hlusta á góðar sögur, hló oft og innilega og sletti kjarnyrtri íslensku. „Well, he is a froðusnakkur“ var lýsing hans á bandarískum stjórnmálamanni.

Íslenskukunnátta Dicks á sér þó mun merkari minnisvarða; þýðingar hans á ljóðum listaskáldsins góða. Elja Dicks við það verk, djúpur skilningur á skáldskapnum og einstaklega vönduð vinnubrögð skila sér í ritinu „Bard of Iceland“. Það var gaman að umgangast Dick á „Jónasar-árum“ hans. Síminn hringir seint um kvöld: „SalvöRR,“ og spurt er án inngangs: „how would you explain fundanna skært í ljós burt leið?“ Þegar bæði Jónas og Dick leita á mann í einu verður fátt um svör en eftir vangaveltur okkar hjóna böggluðum við einhverju út úr okkur sem á ekkert skylt við endanlega úrvalsþýðingu Dicks.

Við vorum líka svo heppin að geta hýst Dick þegar við bjuggum á Íslandi, en þau hjón ferðuðust nær árlega til Íslands, slík var tryggðin við land og þjóð. Eitt sinn vorum við Dick samferða í Skagafirði og heimsóttum Vesturfarasetrið. Aldraður gestur vék sér að Dick og spurði: „Ert þú Vestur-Íslendingur?“ Af inngróinni kurteisi svaraði Dick á sinni óaðfinnanlegu íslensku, „Nei því miður, ég er Bandaríkjamaður.“ „Nú, já,“ svaraði sá gamli áhugalaust, eins og ekkert væri sjálfsagðara en bandarískir ferðamenn svöruðu svo skilmerkilega á íslensku.

Auk kennslu og þýðingarstarfa var Dick heiðurskonsúll Íslands í Madison og sinnti því á meðan heilsan leyfði. Sem betur fer náðist að veita honum viðurkenningu fyrir hans störf í þágu íslensku þjóðarinnar. Allt það kunni hann að meta en með sínu háttvísa lítillæti.

Dick var mikill tónlistarunnandi og var fróður um endurreisnar- og barrokktónlist. Hann kenndi um árabil námskeið um Bach í endurmenntunardeild Madisonháskóla. Við nutum þess að vera nemendur hans í síðasta sinn sem hann flutti þá ógleymanlegu fyrirlestra með viðeigandi tóndæmum og útskýringum.

Margir segja bæði það besta og það versta finnast í Bandaríkjunum. Dick var sannarlega dæmi um hið besta. Ofurgreindur einstaklingur, fjölfróður, fordómalaus og forvitinn, hógvær, einlæglega tilbúinn til að hlusta, læra og miðla, vinur lífs og lands, aðgerðasinni og kennari í friðarmálefnum. Dick er og verður verðug fyrirmynd okkar sem bárum gæfu til að kynnast honum.

Við sendum Karin, Thor, Tamsie og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur. Verk hans lifa um ókomna tíð og minning um mætan mann meðal okkar sem vorum svo heppin að kynnast honum.

Salvör og Jón Atli.

Dick Ringler var einstakur ljúflingur, jákvæður, forvitinn og gefandi. Við kynntumst Dick þegar við fórum til náms til Bandaríkjanna með okkar ungu fjölskyldu 1988. Börn okkar eiga öll sterkar minningar um Dick, sem í huga þeirra minnir á þjóðsagnapersónu, skemmtilegur, góðhjartaður, öðruvísi en allir aðrir. Dick var prófessor í ensku og skandinavískum fræðum við Wisconsinháskóla í Madison. Eftir að heim var komið tengdust samverustundir m.a. stofnun Hollvinafélags Wisconsinháskóla og Madisonborgar og vinnu hans við Icelandic Online, sem Wisconsinháskóli og Háskóli Íslands unnu saman að. Þar hófst verkefnið um íslenskukennslu á netinu sem hefur síðan vaxið og dafnað.

Dick var mikill aðdáandi Jónasar Hallgrímssonar sem hann taldi jafnoka Wordsworth og hinn enskumælandi heimur þyrfti að kynnast. Bók hans Bard of Iceland, sem gefin var út af University of Wisconsin Press, með þýðingum hans á höfundarverki Jónasar, er stórvirki og gersemi. Bókin varð ófáanleg og þess vegna vildum við koma í kring endurútgáfu. Niðurstaðan var að Forlagið gaf bókina út með aðstoð Silju Aðalsteinsdóttur. Við Arnór buðum honum til Íslands af þessu tilefni og héldum honum útgáfuhóf í Hannesarholti vorið 2010, þar sem hann kom ásamt Karin eiginkonu sinni. Þarna heyrði hann í fyrsta sinn þýðingar sínar sungnar, þegar Þórunn Björnsdóttir stýrði hópi barna úr Kársnesskóla syngja m.a. „Iceland far silvered isle“ við undirleik Víkings Ólafssonar. Mér þóttu það tíðindi þegar hann sagði mér að í raun hefði það verið Hannes Hafstein, minn maður í Hannesarholti, sem kom Jónasi á framfæri við þjóð sína sem þjóðskáldi. Hannes hafði verið fenginn til þess að safna saman höfundarverki Jónasar, sem námsmaður við Hafnarháskóla 1883. Hannes benti á Hraundranga yfir heimili Jónasar, sem minnismerki náttúrunnar um sinn uppáhaldsson. Mér fannst ég óvænt komin í klíku með Dick Ringler, Jónasi Hallgrímssyni og Hannesi Hafstein og hefur líkað það vel síðan.

Það var fengur í því fyrir íslenskan háskólanema í Madison að eiga hann að, sem vissi allt um íslenska menningu. Hann varð fjórði maðurinn í doktorsnefnd minni á menntavísindasviði í Madison 2003 og bjargaði mér frá því að eltast við spurningar í rannsóknarvinnunni sem við vissum bæði að áttu ekki við á Íslandi.

Í tilefni af áttræðisafmæli Dicks Ringlers, í janúar 2014, héldum við honum til heiðurs samsöng í Hannesarholti þar sem Jónasarlögin í þýðingum hans voru sungin, jafnan fyrsta erindið á íslensku áður en enskar þýðingar hans fengu að hljóma. Nú viljum við endurtaka leikinn í minningu hans og bjóða til söngstundar laugardaginn 27. apríl kl. 17. Allir eru velkomnir í Hannesarholt til að taka undir í söngnum þar sem textar birtast á tjaldi. Streymt verður frá söngstundinni beint á fésbókarsíðu Hannesarholts.

Með virðingu og þakklæti fyrir samfylgdina sendi ég Karin, Tamsie, Thor og fjölskyldum þeirra hjartans samúðarkveðjur okkar vegna fráfalls Dicks Ringlers, sem gaf Íslandi svo mikið og öllum sem honum kynntust.

Ragnheiður Jóna
Jónsdóttir.