Úlfar Snæfjörð Ágústsson fæddist á Hlíðarenda á Ísafirði 3. júlí 1940. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 22. mars 2024.

Foreldrar Úlfars voru Guðmundína Bjarnadóttir, f. 16. maí 1911, d. 6. desember 1988, og Guðmundur Guðni Guðmundsson, f. 22. maí 1912, d. 3. september 2008. Úlfar var ættleiddur af Ágústi Guðmundi Jörundssyni, f. 6. nóvember 1906, d. 19. maí 1964. Systur Úlfars voru Sigríður Ágústsdóttir, f. 19. desember 1934, d. 26. desember 2016, og Anna Jóna Ágústsdóttir, f. 22. apríl 1943, d. 8. júlí 2019. Samfeðra átti Úlfar einn bróður, Þórarin Bjarka Guðmundsson, f. 18. ágúst 1942.

Eiginkona Úlfars var Jósefína Guðrún Gísladóttir, f. 24. janúar 1940, d. 22. janúar 2018. Þau gengu í hjónaband 13. febrúar 1960. Foreldrar Jósefínu voru Gísli Elís Einarsson, f. 22. júlí 1911, d. 26. september 1967, og Margrét Þórarinsdóttir, f. 25. júní 1916, d. 29. apríl 1988. Systkini hennar voru Jóna Gréta Kinsley, f. 19. maí 1944, d. 2. janúar 2024, og Þórarinn Þorbergur Gíslason, f. 9. maí 1947, d. 3. október 2010.

Börn Ínu og Úlfars eru: 1) Gautur Ágúst, f. 2. nóvember 1961, d. 10. desember 1978. 2) Gísli Elís, f. 4. mars 1969, eiginkona Ingibjörg Sólveig Guðmundsdóttir, f. 24. maí 1971, börn þeirra eru Ína Guðrún, f. 17. júlí 2000, Jóhanna Ósk, f. 17. júlí 2000, Gautur Óli, f. 15. janúar 2004, og Anna Margrét, f. 13. september 2012. 3) Úlfur Þór, f. 3. október 1974, eiginkona Anna Sigríður Ólafsdóttir, f. 19. apríl 1975, börn þeirra eru Fróði Örn, f. 5. maí 2007, og Hugi Hrafn, f. 8. janúar 2014. 4) Axel Guðni, f. 16. mars 1978, eiginkona Thelma Hinriksdóttir, f. 25. október 1976, börn þeirra eru Ingibjörg, f. 23. september 2001, Úlfar Snær, f. 14. september 2009, og Agnar Hörður, f. 28. júní 2016.

Útförin fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 6. apríl 2024, klukkan 14.

Í mesta fárviðri sem gekk yfir Vestfirði þennan veturinn fékkstu hvíldina.

Vegir lokaðir, snjóflóðahætta, eins og veðrið morguninn sem þú skutlaðir mömmu á fæðingardeildina í aftakaveðrinu sem gekk yfir Vestfirði í lok janúar og febrúar 1968 þegar bátar fórust í Djúpinu.

Pabbi var farinn í vinnu og ekki venja að feður væru viðstaddir fæðingu barna sinna. Þið Ína bjugguð í sama húsi og foreldrar mínir, áttuð bíl sem komst í gegnum skaflana og þú komst okkur á fæðingardeildina í tæka tíð fyrir fæðingu mína. Það var enn einn þráður í okkar þéttofna fléttufjölskyldumynstri sem hefur varað frá því áður en ég fæddist.

Flétta sem er svo sterkt ofin í gegnum gleði og sorg; áföll, missi og ánægjustundir fjölskyldunnar. Fléttan úr gula stóra húsinu í Aðalstrætinu þar sem Ína þín og Siggi pabbi minn ólust upp saman. Í íbúðum hlið við hlið, eins og systkini í stórum barnahópi fjögurra fjölskyldna sem þar bjuggu.

Þið Ína voruð heimsborgarar, strákarnir ykkar í pössun hjá okkur sem lagði grunn að dýrmætum tengslum og oft var fjör þegar Rósa ömmusystir kom líka vestur að passa.

Mamma var ein af fyrstu starfsmönnum ykkar í Hamraborg sem var opnuð þegar ég var sjö mánaða og er hún þakklát fyrir það traust. Ég stóð svo vaktina þar sem unglingur sem var mjög lærdómsríkt.

Það var mikið áfall þegar Gautur lést 17 ára gamall í bílslysi á Hnífsdalsveginum tveimur vikum fyrir jól. Höggið var þungt, áfallið mikið, sorgin lamandi og reyndi mikið á stuðning foreldra minna. Þau jólin voru öðruvísi, við höfðum öll jól fram að því farið í jóladagskaffið til ykkar í Sólgötuna. Þennan jóladag var autt sæti við borðið og sorgin yfirþyrmandi.

Enn eitt áfallið skall á okkur 20 árum eftir að Gautur dó. Tólf dögum fyrir jól varð pabbi bráðkvaddur. Mamma var heima með honum og hringdi yfir til ykkar og sagði að Siggi væri að deyja. Þú komst hlaupandi yfir en pabbi hafði þá kvatt. Þú horfðir á þinn kæra vin kveðja hinstu kveðju. Ég veit að þinn missir var mikill. Þið Ína hélduð svo fallega utan um mömmu á stærstu sorgarstund lífs hennar. Eins og hún hafði verið til staðar fyrir ykkur nánast upp á dag 20 árum áður.

Það var hlutskipti ykkar Ínu að fylgja mömmu til mín um miðja nótt og segja mér að pabbi minn væri dáinn 52 ára gamall. Eftir það voruð þið alltaf til staðar fyrir okkur og ómetanlegt að fá ykkur í Hjallakotið og hjálpa okkur að klæða bústaðinn að innan eftir að pabbi dó.

Ég er þakklát fyrir að hafa komið vestur og hitt þig, setið hjá þér og kvatt þig skömmu áður en þú lést. Þegar sólin náði að senda geisla sína í Sólgötuna.

Englarnir okkar á himnum munu taka vel á móti þér eins og þau gerðu þegar Ína frænka kynnti þig til leiks í gula húsinu í Aðalstrætinu.

Við mamma og fjölskyldur okkar erum full þakklætis fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur og samverustundirnar. Í gleði sem sorg, sem hefur kennt mér svo mikið.

Blessuð sé minningin um mætan mann, klettinn í ólgusjó lífsins.

Dýpstu samúðarkveðjur til Gísla, Úlfs, Axels og fjölskyldna.

Þín

Sigrún Sig.

Úlli var stórbrotinn karakter og þau Ína athafnafólk af bestu gerð. Allt eðal og fyrsta flokks, vinarþelið sem umgjörðin öll í mat og drykk. Ekkert virtist þeim óviðkomandi gætu þau lagt fólki lið. Þess fengum við Freysteinn að njóta þegar lífið tók nýja stefnu og Úlli fór með okkur fyrstu ferðina á Hornstrandir 1993 sem lagði grunn að góðri vináttu og fleiri dýrmætum samverustundum í Fljótavík og Þernuvík.
Freysteinn festi á blað í dagbók sinni minningabrot um þessa fyrstu ferð:
„Rétt vestan við Hornvík er Blakkibás, klettaskápur með fossi innan í. Ekki er hægt að sigla inn í skápinn, nema sjór liggi. Svo var nú. Úlli mjakaði bátnum inn um skáphurðina og að veggnum, svo tæpt að stefnið var hársbreidd frá stálinu. Þarna horfðum við upp í gegnum sólglitrandi fossinn, sem féll fram af blásvörtu berginu og grét sig í sjó niður fast við bátinn. Á svona stað og stundu verð ég svo gagntekinn af tilverunni, að það er fjarri mér að vilja rjúfa griðin og hverfa frá. Það hvítnaði við sandinn, þegar við komum inn á Fljótavíkina. Úlli lét mig sitja öðrum megin í tuðrunni, sjálfur sat hann mótvægis og Gústa. Segir ekkert af sjóferð okkar nema heiðbláan himin og tignarlegan Kögurinn. Úlli gaut skipstjórnarlegum augum til sandsins og í því ég ætlaði að hafa orð á því, hversu ábúðarmikill hann væri, gekk alda undir tuðruna, lyfti henni og hélt því áfram. Þetta var eins og að horfa á heiminn í hægagangi. Ég sá andlit Úlla og Gústu hækka upp Kögurhlíðina og til himins, en sjálfur seig ég á bakinu undir sjó. Þannig skolaði okkur á land. Ég sá að Úlli gat bjargað sjálfum sér svo ég kallaði til hans að hjálpa Gústu. Ég var nefnilega með bjórkassa undir mér og vildi ekki týna honum, nema annað brýnna þyrfti björgunar við. Þegar þau voru komin á þurrt, kraflaði ég mig til lands í fjörunni í Fljótavík sjóblautur með vit og vasa full af sandi – en ölið óskemmt. Ég fann til um leið og ég sá Hælavíkurbjarg fyrst. Á leiðinni þangað gistum við hjá Hrafnhildi og Jósef. Siglinguna þangað frá Ísafirði og svo aftur hingað norður fann ég vaxandi spennu innan í mér. Mér fundust fjöllin tala til mín. Hafið lá eins og blásléttur pönkarahaus með strípur, þar sem röstin gekk frá landinu. En það skipti öngvu, hversu fast ég horfði til hafs. Bjargið dró mig stöðugt til sín. Og þegar klettarnir undir Núpnum komu í ljós, þá vissi ég, að ég var kominn heim.“
Þeir lögðust því á eitt vinir okkar Úlli og Jósef til að verða við hinstu ósk Freysteins um að sigla úr höfn og sameinast hafinu. Þeir græjuðu allt sem græja þurfti til þess og við Göltinn las Úlli honum ljóð og við vorum hljóð.
Nú siglir Úlli, okkar kæri vinur, úr höfn og heim til Ínu sinnar.
Hjartans þökk fyrir allt og allt og allt.

Ástvinum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Jóna Ágústa
Ragnheiðardóttir.

Þessi mæti maður hann Úlfar er nú horfinn til austursins eilífa á fund sinnar mætu Ínu en hún féll frá fyrir nokkrum árum. Eftir sitjum við hin og tökum á móti verkefnum í lífinu og reynum að gera gott úr öllu og segjum gjarnan lífið er núna. Ína og Úlfar sem voru kennd við Hamraborg voru samheldin hjón sem gjarnan tókust á við alls konar verkefni, einkum á Ísafirði. Einhver myndi segja að þau hafi unnið saman sem nokkurs konar teymi og lögðu þannig kosti sína saman sem þau væru eitt.

Við hjónin áttum þess kost að njóta elju þeirra þegar kom að skipulagningu og þátttöku ættarmóta í fjölskyldunni okkar en við kölluðum hana gjarnan Ögurvíkurættina. Við stóðum fyrir ættarmótum í Reykjanesskóla þar sem þau hjónin Ína og Úlfar tók virkan þátt í öllum undirbúningi svo eftir var tekið.

Ína og Úlfar voru höfðingjar heim að sækja. Í tilefni af 60 ára afmæli þeirra héldu þau enga venjulega veislu sem stóð yfir í nokkra daga og fólst í ferðalagi yfir á Hornstrandir. Og það var auðvitað eins og áður stórbragur á öllu. Í ferðinni var boðið upp á heimsókn að Dröngum þar sem öllum hópnum var boðið upp á selkjöt að hætti heimamanna. Þessi ferð hefur orðið okkur hjónum ævarandi minning um ferðalag sem Ína og Úlfar og fjölskylda skipulögðu.

Ég man eftir því að mamma mín hún Hemma talaði um garðveislur sem þau hjónin stóðu fyrir á sínu heimili og voru umtalaðar á Ísafirði. Svona má víst lengi telja. Þegar maður horfir í baksýnisspegilinn koma fram minningar um stórhug þeirra hjóna sem nær alltaf snerist um hag Vestfirðinga og einkum og sér í lagi heimabæ þeirra Ísafjörð. Þau byggðu upp í samvinnu við syni sína Hamraborg sem nú er í höndum þeirra Gísla og Úlfs undir miklum myndarbrag.

Nú seinustu árin hefur Úlfar notið umhyggju sona sinna og maka en hann tókst á við heilabilun þar til yfir lauk sáttur lífdaga. Úlfar var góður karl sem alltaf var gaman að spjalla við því hann gat miðlað svo mörgu og aldrei kom maður að tómum kofunum. Nú hefur minn maður vafalítið tekið til óspilltra málanna þar fyrir handan með henni Ínu sinni. Takk fyrir allt, Úlfar.

Sigurþór Charles og
Málfríður Sjöfn.

Úlfar Ágústsson var einn af máttarstólpum Ísafjarðar. Í baksýnisspeglinum er Ísafjörður æsku minnar dálítið eins og Korsbæk í dönsku dramaþáttunum Matador. Þegar bærinn fagnaði 100 ára kaupstaðarafmæli árið 1966 var ég fjögurra ára og bærinn var farinn að láta á sjá. Hann var þó enn áþreifanlega rótgróinn verslunarbær með djúp pólitísk og menningarleg ítök í íslensku þjóðlífi.

Fyrstu minningar mínar af Úlfari eru þegar pabbi og mamma fóru dagana fyrir jól að kaupa inn. Pabbi studdi athafnaskáldið Úlfar og keypti jólakjötið alltaf hjá Úlfari. Jólin voru komin þegar nokkurra ára snáði fylgdi pabba í jólailminn í Hamraborg þar sem Úlfar stóð sjálfur fyrir innan kjötborðið og dásamaði úrvalið. Og auðvitað hafði hann rétt fyrir sér. Hamborgarhryggurinn frá honum sveik aldrei.

Lengi vel hélt ég reyndar að hamborgarhryggur héti Hamraborgarhryggur af því að hann kom frá Úlfari í Hamraborg.

Þegar fór að teygjast úr mér kynntist ég Úlfari persónulega þegar hann réð mig í vinnu við að dreifa dagblöðum landsins í mínu hverfi í efri bænum. Hann var umboðsmaður Morgunblaðsins en dreifði glaður öllum skoðunum og var til í rökræður við ungan mann sem var byrjaður að hafa skoðanir á mönnum og málefnum. Og bar virðingu fyrir skoðunum unga mannsins.

Þegar komið var í efri bekki grunnskóla kynntist ég Gauti elsta syni þeirra Úlfars og Ínu sem var árinu eldri en ég. Hann var duglegur að hjálpa foreldrum sínum í verslunarrekstrinum og var nánast öllum stundum utan skóla í Hamraborg.

Gautur var ákaflega skemmtilegur og fallegur drengur og hláturmildur. Þegar við strákarnir vinir hans komum í heimsókn til hans tók maður strax eftir hversu nánir vinir og félagar foreldrar hans voru honum og bræðrum hans. Það var ekkert undir sólinni sem þau Úlfar og Ína gátu ekki rætt við okkur strákana og þau höfðu gaman af uppátækjum okkar.

Það var því mikil sorg þegar Gautur féll frá í blóma lífsins í bílslysi nýorðinn sautján ára gamall. Sorgin var mér ekki ókunnug þar sem ég hafði orðið vitni að því fimm ára í heimsókn með móður minni og systrum hennar til Akureyrar þegar Valdimar frændi minn varð fyrir bíl og dó. Þremur árum áður en Gautur dó í slysi á Hnífsdalsveginum hafði góð vinkona mín Ásrún Benediktsdóttir látist þegar keyrt var á hana á sama vegi.

Þegar Gautur dó bjó ég á Kópaskeri með foreldrum mínum og við Ína skiptumst á bréfum og deildum minningum okkar. Seinna eftir að ég var aftur kominn vestur staðfestum við Úlfar og Ína vináttu okkar og það var alla tíð kært með okkur.

Úlfar var glaðvær ástríðumaður með skoðanir sem unni fólkinu sínu og bænum sínum. Sannur Vestfirðingur. Okkur Vestfirðingum bregður ekki við eldheitar ræður og skoðanir og skiljum ekki hvernig fólki úr öðrum landshlutum er brugðið við tungutak okkar og ástríðu. En vinátta okkar nær þvert á skoðanir og kynslóðir.

Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu Úlfars og fjölmargra vina hans.

Heimir Már.

Þau komu gangandi yfir Austurvöll, öll prúðbúin. Garðurinn stóð í blóma, það var hlýtt úti og rigningarúði og Ína hélt á regnhlíf. Hún var í gulri dragt, með perlueyrnalokka og svarta hárið fallega greitt. Úlfar og synirnir klæddir í jakkaföt með silkibindi. Þau höfðu leigt sal í Faktorshúsinu í Hæsta fyrir aðalfund í fjölskyldufyrirtækinu Hamraborg. Það var ekkert slegið af kröfum um formfestu og virðingu þótt þarna væri bara fjölskyldan. Reksturinn var alla tíð tekinn föstum tökum eins og vel sést á þessu lífsseiga fyrirtæki í miðbæ Ísafjarðar sem synirnir stýra í dag.

Ég kynntist Úlfari og Ínu þegar ég fór að vinna hjá þeim í búðinni nýfermd. Hamraborg var þá kjörbúð en breyttist smátt og smátt í sjoppu og tók að lokum á sig þá mynd sem hún hefur í dag. Gautur elsti sonur þeirra vann þar líka og við vorum ágætis félagar. Þótt hann væri yngri þá ríkti jafnræði á milli okkar. Ef honum varð orðavant í samræðum þá átti hann það til að hjóla létt í mig. Þá stríddi ég honum á því að karlmenn beittu alltaf líkamskröftum þegar konur bæru þá yfirliði með orðum. Hann var hæfileikaríkur og kvikur strákur og mikil sorg þegar hann fórst ungur í bílslysi. Foreldrarnir voru sterkir og einbeittu sér að yngri sonunum þremur.

Það var góður skóli að vinna hjá Ínu og Úlfari, agi á starfsfólkinu og allt til fyrirmyndar. Vel raðað í hillur, allt tandurhreint og mikið lagt upp úr góðri framkomu við viðskiptavinina. Ég tók eftir því að Ína bar flest undir Úlfar, hann var verslunarstjórinn og karlmaðurinn. En það fór heldur ekkert á milli mála að Úlfar kunni vel að meta Ínu.

Það barst alltaf sending á aðfangadagskvöld, stór konfektkassi. Bjöllunni var hringt og þar voru þá mættir Úlfar og synir spariklæddir með jólagjöfina. Þetta var bæði hátíðlegt og lýsti mikilli virðingu og umhyggju fyrir starfsfólkinu, líka þeim sem voru bara á unglingsaldri.

Ína var smurbrauðsdama og kunni flest sem tilheyrir því að dekka borð og halda veislu með stæl. Hún var dugleg að miðla þessari kunnáttu sinni og var annt um hvert smáatriði. Hún var líka mikill listunnandi og þegar þau Úlfar byggðu sér einbýlishús þá var það hannað utan um mjög stórt málverk sem Ína hafði keypt á myndlistarsýningu. Listamaðurinn heimsótti þau reglulega m.a. til að skoða verkið enda naut það sín afskaplega vel hjá þeim. Úlfar var hugmyndaríkur og sem dæmi þá samdi hann mjög óvenjulegar auglýsingar fyrir búðina sem birtust í bæjarblöðunum. Þær vöktu eftirtekt fyrir frumlega hugsun og sérstakt orðaval. Hann var mjög spes hann Úlfar og setti svip sinn á samfélagið.

Þau hjónin voru samstiga í gegnum lífið og vel haldið utan um allt. Þau voru líka svo hrifin hvort af öðru og með þeim ríkti gagnkvæm virðing þótt ekki væru þau alltaf sammála um alla hluti. Ína lést fyrir nokkrum árum og nú er Úlfar líka horfinn á braut. Ég minnist þeirra með mikilli hlýju og þakklæti fyrir gott og lærdómsríkt uppheldi í Hamraborg og hvað þau hafa gert mikið fyrir samfélagið okkar.

Fjölskyldunni sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Elísabet Gunnarsdóttir.

Genginn er nú góður borgari Ísafjarðar, Úlfar Ágústson, sem tvímælalaust markaði sér sess sem einn af athafnamönnum bæjarins. Hann kom víða við á lífsleiðinni en fyrstu kynni mín af honum voru í skátahreyfingunni þegar hann varð sveitarforingi yfir okkur ungum skátum. Jón Páll bróðir minn, sem var vandlátur en glöggur á leiðtogaefni, treysti Úlfari fyrir því hlutverki. Það er hægt að segja að Úlfar hafi hleypt lífsanda og þrótti í okkur á góðum stundum, ekki síst þegar við komum gönguþreyttir í Tungudal í skálann okkar, Valhöll, sem var miðstöð útilífs Ísafjarðarskáta frá árinu 1929. Úlfar kunni þá að segja skemmtilegar sögur, skipuleggja útileiki og söng við aringlæður. En hann krafðist jafnframt aga og sagði að skömm væri að skátunum að geta ekki gengið í takt á sumardaginn fyrsta!

Næstu kynni mín af Úlfari voru viðskipti við verslun hans Hamraborg sem hafði mikil umsvif á Ísafirði. Ég rak þá innflutningsverslun og gerðist einn af hans helstu birgjum. Þetta var tími sem smásöluverslun átti erfitt uppdráttar og fór Hamraborg ekki varhluta af því, en ég virði það alltaf við Úlfar að hann kaus að fara samningaleiðina og láta tímann vinna með sér. Í stuttu máli sagt þá greiddi hann allar sínar skuldir og hélst því gagnkvæm vinátta okkar óbreytt.

Leiðir okkar lágu einnig saman í Lionshreyfingunni. Þar náði Úlfar langt og var treyst fyrir starfi umdæmisstjóra. En hann náði eins og í skátahreyfingunni að blása okkur góðum félagsanda í brjóst. Krankleiki sem bjó í honum leiddi til þess að hann varð að leita suður í lönd í hæsta skammdeginu, venjulega til Spánar. Þaðan sendi hann á Lionsfundi ógleymanlega pistla sem lífguðu mikið upp á fundina þegar vinur hans Jón Reynir las þá upp. Úlfar kunni þá list að segja frá skoplegum atvikum sem kitluðu hláturtaugar okkar.

Þó að ímynd hans væri jafnan hinn lipri og hjálpsami verslunarmaður og því ekki auðvelt að sjá hann fyrir sér sem sjómann, þá fór hann til sjós á yngri árum. Hann minntist stundum áranna er hann var á togaranum Sólborgu eftir lok gagnfræðaskóla. Sólborg var mikið aflaskip undir stjórn Páls Pálssonar frá Hnífsdal, hún fiskaði yfir 27.000 tonn fyrstu fimm árin. Það sýnir framtakssemi Úlfars að þegar 50 ár voru liðin frá komu skipsins safnaði hann áhöfninni saman til að minnast tímamótanna með verðugum hætti. Ég hafði gaman af að aðstoða hann við þetta og efndi til móttöku í „Ísfirðingshúsinu“ sem nú heitir „Vestrahús“ þar sem Sólborgin lagði að mestu upp afla sinn. Þar var sunginn frumsaminn „Sólborgarbragur“.

Vefurinn okkar bb.is rekur fjölmargar athafnir Úlfars sem sýnir metnað hans, dugnað, áræði og góðan hug til bæjarins okkar. Góður drengur hefur nú lokið farsælli lífsgöngu. Ég votta sonum hans og öllum ættingjum og vinum innilega samúð. Þakka honum gott starf í þágu Lions og skátahreyfingarinnar. Minning Úlfars mun lifa í hjörtum þeirra sem hann þekktu.

Ólafur Bjarni
Halldórsson.