Þrekvirki Dick Ringler fagnar sigri á toppi Skjaldbreiðar árið 1996. Hann vakti eftirtekt með sitt rauða hár og glaðvært viðmót. Dick Ringler var líka skáld gott og frábær þýðandi. Hann hafði mikið dálæti á íslenskri tungu.
Þrekvirki Dick Ringler fagnar sigri á toppi Skjaldbreiðar árið 1996. Hann vakti eftirtekt með sitt rauða hár og glaðvært viðmót. Dick Ringler var líka skáld gott og frábær þýðandi. Hann hafði mikið dálæti á íslenskri tungu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Quatrains (21 December 1844) Ah, who mourns an Icelander, all alone and dying? Earth will clasp his corpse to her and kiss it where it’s lying. Such is my lot, my lonely doom. Life would have brimmed with pleasure had I known her better whom I hunger for and treasure. May you live in mirth and cheer! May your hours bring gladness! This darkest day of all the year I dwell in exiled sadness. The sun turns north to solace men; soon it will shine above you. Would I were made new again, with one more chance to love you. Þýðing Dicks Ringler á Stökum (21. desember 1844) eftir Jónas Hallgrímsson („Enginn grætur Íslending“)

Af bókmenntum

Vésteinn

Ólason

Suddenly summer is over,

the swan is just leaving –

white as the snow, he is winging

his way to the sunlands.

Singing is echoed by silence

in sad mountain valleys.

Birds of ill-omen sit brooding

above our house gables.

Þannig hefst þýðing Dicks Ringler á ljóðinu sem Jónas Hallgrímsson orti eftir skáldbróður sinn Bjarna Thorarensen. Dick hefur nú sjálfur kvatt. Um þrítugt hafði hann lokið doktorsprófi við Harvard og fengið prófessorsstöðu í Madison. Þá tók hann, snemma á sjöunda áratug síðustu aldar, að nema íslensku. Fyrst dvaldist hann um skeið með fjölskylduna, konu og tvö ung börn, á Hólum í Hjaltadal, þeim sögufræga stað, en stundaði síðan íslenskunám við Háskóla Íslands. Hann vakti eftirtekt með sitt rauða hár og glaðvært viðmót.

Lærdómur hans í miðaldafræðum sýndi sig í grein um fyrirmynd kvæðisins „Um þá fyrri öld og þessa“ eftir Stefán Ólafsson, sem hann birti í Mími, blaði stúdenta í íslenskum fræðum 1966. Dick sýnir þar fram á að kvæðið, sem áður var talið frumort, er þýðing úr ritinu De consolatione philosophiae eftir heimspekinginn Boethius (um 500 e.Kr.). Þetta rit var frægt á miðöldum og lengur og var snemma þýtt á fornensku. Sjálfur Elfráður ríki Englakonungur er skráður fyrir þýðingunni.

Þótt aðalviðfangsefni Dicks í kennslu og rannsóknum væri á sviði fornenskunnar hélt hann tryggð við íslensk fræði. Árið 1972 birtist ensk þýðing hans á Svínfellinga sögu, sem er hluti af Sturlungu.

Skáld gott og frábær þýðandi

Dick Ringler var líka skáld gott og frábær þýðandi. Árið 2007 birtist ný þýðing hans á Bjólfskviðu og þremur styttri kvæðum með efnismiklum inngangi (Beowulf. A New Translation for Oral Delivery by Dick Ringler).
Þar er hinum forna brag kvæðisins fylgt og jafnframt lagt kapp á að textinn sé vel fallinn til flutnings af munni fram. Efnið tengist íslenskum fornbókmenntum á margvíslegan hátt. Í inngangi leggur Dick fram afrakstur af langri glímu sinni við þetta kvæði og fræðin um það, sem eru geysimikil að vöxtum. Hann fjallar þar um söguefnið og rætur þess í sögnum og kvæðum Norðurlanda, frásagnarlist og brag, um hugmyndaheim, heiðinn og kristinn og að lokum það sem ráða má af kvæðinu um skáldið sjálft. Í glímu sinni við þetta forna kvæði hefur hann án efa notið þeirrar reynslu sem hann hafði aflað sér við að þýða kvæði Jónasar Hallgrímssonar.

Ást Dicks á íslensku og íslenskum skáldskap var hvati að því þrekvirki sem hann vann við að kynna kveðskap Jónasar Hallgrímssonar fyrir hinum enskumælandi og enskulesandi heimi. Dick unni skáldskap Jónasar og fannst mest til hans koma allra íslenskra skálda frá seinni tímum. Hann hafði líka glöggt auga fyrir öllu ævistarfi Jónasar, því að sjálfum var honum vernd náttúru og umhverfis mjög hugleikin, rétt eins og þjóðfélagsmál og staða Jónasar í íslenskri þjóðernisvakningu.

Dick gekk ekki að þessu verki með hálfvelgju fremur en öðru, kannaði allt til þrautar og setti sér strangar kröfur. Verkið nýtur djúprar þekkingar þýðandans á evrópskri menningu. Fjölmargar af þýðingum Dicks eru afar vel heppnaðar, sbr. dæmi í upphafi þessara orða.

Eftirminnilegur maður

Í nokkur ár fyrir og eftir aldamótin var Dick Ringler tíður gestur í Reykjavík, og þá kynntumst við vel. Hann var þá að glíma við Jónas og naut þess að eiga hér samskipti við fræðimenn og aðra vini. Minnisstæður er fyrirlestur um Bjólfskviðu sem hann flutti í Árnagarði á þeim árum. Gott var líka að sækja hann heim í Madison. Hann skipulagði dvölina þannig að hún yrði lærdómsrík og ánægjuleg fyrir gestina og þeir fengju að hitta áhugavert og skemmtilegt fólk.

Dick Ringler var mjög eftirminnilegur maður og stór í sniðum, unnandi allra lista og lærður húmanisti en jafnframt ótrauður hugsjónamaður og aðgerðasinni á sviði menningar og þjóðmála. Hann var glettinn og glaðvær, fullur áhuga á mannlífi og náttúru, örlátur á andleg gæði og efnisleg. Að breyttu breytanda eiga vel við um hann lokaorð Bjólfskviðu, þótt hann hefði sjálfur hlegið dátt að þeim samanburði, einkum síðustu línunni. Þannig er þýðing hans:

He had been, they said,

the best and wisest

of kings of this world,

kindest to his people,

most open handed,

most eager for praise.

Höfundur er fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar.

Þýðing Dicks Ringler á Stökum eftir Jónas Hallgrímsson

„Enginn grætur Íslending“

Stökur (21. desember 1844)

Enginn grætur Íslending

einan sér og dáinn,

þegar allt er komið í kring

kyssir torfa náinn.

Mér er þetta mátulegt,

mátti vel til haga,

hefði ég betur hana þekkt

sem harma ég alla daga.

Lifðu sæl við glaum og glys,

gangi þér allt í haginn;

í öngum mínum erlendis

yrki ég skemmsta daginn.

Sólin heim úr suðri snýr,

sumri lofar hlýju;

ó, að ég væri orðinn nýr

og ynni þér að nýju!

Quatrains (21 December 1844)

Ah, who mourns an Icelander,

all alone and dying?

Earth will clasp his corpse to her

and kiss it where it’s lying.

Such is my lot, my lonely doom.

Life would have brimmed with pleasure

had I known her better whom

I hunger for and treasure.

May you live in mirth and cheer!

May your hours bring gladness!

This darkest day of all the year

I dwell in exiled sadness.

The sun turns north to solace men;

soon it will shine above you.

Would I were made new again,

with one more chance to love you.