Maður ryksugar undir rúminu og hvað er a’tarna? Liggur ekki nýr frambjóðandi þar í felum. „Gjugg í borg!“

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Áður en ég settist niður til að rita þennan pistil þá varpaði ég hlutkesti; hvort á ég að tala við ykkur um fyrirhugað forsetakjör á Íslandi eða veðrið? Og kjörið kom upp, því miður, ykkar vegna. Ég biðst strax forláts á því. En svona er þetta bara. Ekki verður deilt við dómarann.

Æsist nú leikurinn, verður maður að segja. Maður bregður sér á kamarinn og nýr frambjóðandi stígur fram á meðan – í myndbandsávarpi, á Fésbók eða með sms-i. Maður burstar í sér tennurnar og tveir nýir frambjóðendur bíða eftir manni frammi, jafnvel þrír. Maður ryksugar undir rúminu og hvað er a’tarna? Liggur ekki nýr frambjóðandi þar í felum. „Gjugg í borg!“

Hvar endar þetta eiginlega? Það fer að verða fljótlegra að telja upp þá sem ekki eru í framboði.

Ég fletti blöðunum frá 1980 í vikunni, svona til að taka stemmarann þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti. Af því tilefni var leiðarahöfundur Morgunblaðsins með böggum hildar yfir fjölda frambjóðenda – sem voru hvorki fleiri né færri en fjórir. „Aldrei fyrr hafa jafn margir gefið kost á sér til þessa háa embættis,“ stóð í leiðaranum. „Úrslitin sýna, að fyllsta ástæða er til að íhuga, hvort efna beri til forkosninga, þegar svo margir gefa kost á sér. Með slíkri aðferð má búast við, að bæði kjósendum og frambjóðendum verði auðveldara að takast á við þær skyldur, sem á herðum þeirra hvíla. Nýkjörnum forseta væri léttara að takast á við verkefni sitt, ef hann hefði meirihluta þjóðarinnar á bak við sig að kosningu lokinni.“

Nánar er fjallað um kjör Vigdísar í laugardagsblaði Morgunblaðsins. En hvað ætli komi til með að standa í leiðara Moggans að loknu forsetakjöri nú?

Fyrir kemur að maður fær nóg af þessari sókndirfsku og fyrirferð forsetaframbjóðenda og þarf að komast í skjól. Þá er upplagt að draga sig í hlé og hlusta um stund á melódískt sænskt dauðarokk, eins og til dæmis Arch Enemy. Nákvæmlega þetta gerði ég á dögunum og leitaði á náðir YouTube, til að fá stöffið beint í æð læv. Alissa White-Gluz er alltaf hress, með bláa hárið sitt. Nema hvað, fyrsta laginu var rétt lokið þegar inn ruddist auglýsing. Og frá hverjum? Frambjóðanda til embættis forseta Íslands? Segi ég og skrifa. Maður er hvergi óhultur. Og hvaða frambjóðandi lítur á áhugamenn um melódískt sænsk dauðarokk sem sinn markhóp? Út úr því megið þið finna sjálf! Það er, þið sem vitið það ekki þegar.

Annars deildi ég í fyrsta skipti á ævinni rými með þremur íslenskum forsetum í vikunni, þeim er nú lifa (annað hefði verið skrýtið). Ásamt raunar fjölmörgum öðrum. Meðan ég virti þríeykið fyrir mér þarna saman þá varð mér hugsað til allra frambjóðendanna nú. Sú hugsun dugði ekki lengi.