He Rulong
He Rulong
Þegar núverandi átök brutust út þrýsti Kína á öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að samþykkja fyrstu ályktunina sem lögð var fram til lausnar deilunni.

He Rulong

Heimurinn stendur á örlagaríkum tímamótum þar sem átök og styrjaldir ógna framtíð mannkynsins. Haftastefnu og ranghugmyndum um alþjóðlegt öryggi er beint gegn sjálfbærri þróun í þágu allra þjóða og friðsælli hnattvæðingu viðskipalífsins. Flokkadrættir, ásakanir og misfærslur á afstöðu alþjóðastofnana og ríkja setja svip á svið alþjóðastjórnmála í stað samráðs og samvinnu. Vígvæðingu og vopnaskaki er hampað sem lausn á svæðisbundnum deilum en friðelskandi þjóðir eru úthrópaðar fyrir andstöðu gegn hatursáróðri og stríði.

Á undanförnum fimm mánuðum hefur heimsbyggðin orðið vitni að áður óþekktum hörmungum, blóðsúthellingunum og þjáningum óbreyttra borgara í Gasa. Stigmögnun átakanna á milli Palestínumanna og Ísraela hefur valdið vaxandi spennu við Rauðahaf og ógnar stöðugleika á svæðinu. Þetta sýnir enn og aftur að lausn á málefnum Palestínu er lykilatriði fyrir frið og farsæld í Mið-Austurlöndum. Fleiri en 31.000 óbreyttir palestínskir borgarar hafa nú þegar látist í átökunum, 72% þeirra eru konur og börn. Hundruð þúsunda óbreyttra borgara, kvenna og barna eru á vergangi og skortir matvæli, vatn og aðrar nauðþurftir. Barnshafandi konur fá enga fæðingaraðstoð, börn þeirra fæðast andvana eða deyja úr næringarskorti eftir fæðingu. Vannæring og sjúkdómar hafa steypt íbúunum í hyldýpi ótta, örvæntingar og reiði. Þessar sársaukafullu staðreyndir og örvænting íbúa Gasa gegnsýrir líf og hugsun þeirra. Palestínu-Ísraels-svæðið er fast í vítahring ofbeldis og hefnda.

Kynslóð eftir kynslóð palestínsku þjóðarinnar hafa verið hraktar á vergang til annarra landa og þeir hafa ekki getað snúið aftur til heimabyggða sinna. Þetta er lengsta tímabil óréttlætis í heiminum sem okkar kynslóð hefur orðið vitni að.

Utanríkisríkisráðherra Kína, Wang Yi, sem er félagi í stjórnmálanefnd miðstjórnar KFK, kynnti afstöðu Kínverja á fréttamannafundi á öðru þingi 14. Alþýðuþings Kína: Í fyrsta lagi styður Kína fulla aðild Palestínu að Sameinuðu þjóðunum og hvetur einstök aðildarríki öryggisráðs SÞ til að láta af andstöðu sinni við slíka aðild. Í öðru lagi er tveggja ríkja lausnin eina leiðin til að rjúfa vítahring deilna Palestínumanna og Ísraela. Alþjóðasamfélagið verður að gera tímaáætlun aðgerða til stuðnings tveggja ríkja lausninni. Í þriðja lagi ætlar Kína að halda áfram að vinna með alþjóðasamfélaginu að því að koma á friði, bjarga mannslífum og halda uppi réttlæti. Kínverjar hafa ætíð verið talsmenn sanngjarnrar og og réttlátrar lausnar á deilum Palestínumanna og Ísraela. Þegar núverandi átök brutust út þrýsti Kína á öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að samþykkja fyrstu ályktunina sem lögð var fram til lausnar deilunni. Þá hafa Kínverjar veitt margvíslega aðstoð, þar á meðal fjárhagslegan stuðning, og sent matvæli og vistir, lyf og önnur hjálpargögn til íbúa Gasa.

Íslendingar hafa haft sömu afstöðu og Kínverjar til lausnar á deilum Palestínumanna og Ísraela. Þeir hafa lagt áherslu á friðsama lausn og leiðir til til að koma almennum borgurum á Gasa til bjargar með raunhæfum aðgerðum. Íslendingar hafa lagt fram stuðning við Palestínu eftir ýmsum leiðum og utanríkisráðuneyti Íslendinga sendi m.a. sendinefnd til Egyptalands til að koma 72 dvalarleyfishöfum frá Gasa til Íslands á grundvelli fjölskyldusameiningar, 24 fullorðnum og 48 börnum. Það er enginn munur á gildi mannslífa; réttur fólks og þrá þess eftir friði og bættum lífskjörum er sú sama um allan heim, óháð kynþætti, tungu, trú, hörundslit, uppruna eða ætterni.

Þróun alþjóðamála að undanförnu sýnir enn og aftur að örlög allra þjóða og grundvallarhagsmunir eru samtvinnaðir Öruggasta leiðin til að takast á við áskoranir og leysa úr deilumálum felst í gagnkvæmri aðstoð og samvinnu í þágu hagsmuna allra íbúa jarðarinnar. Nú þegar þjóðir veraldar standa frammi fyrir margvíslegum vandamálum sem snerta alla jarðarbúa eiga þær að brjótast út úr viðjum þröngra eiginhagsmuna, sem tengjast sögu, menningu, landafræði eða þjóðfélagsháttum, og taka höndum saman um að vernda jörðina, sem er eina byggilega plánetan sem við þekkjum, og bæta búsetuskilyrði hennar í stað þess að spilla þeim.

Í síðasta mánuði stóð sendiráð Kína á Íslandi fyrir sýningu kínversku Wu-óperunnar undir yfirskriftinni „Fögnum kínverska nýárinu 2024“ í fjáröflunarskyni fyrir íbúa Grindavíkur sem búa við erfiðar aðstæður vegna jarðhræringa og eldgosa. Þegar Fannar bæjarstjóri Grindavíkur tók við upphæðinni, sem safnaðist, vitnaði hann í fornt kínversk ljóð: „Jafnvel þó að fjarlægð milli vina sé mikil, er fjarlægðin stutt milli sameiginlegra hjartna.“ Þannig vottaði hann kínverskum vinum sínum þakklæti og sýndi jafnframt skilning á hugsjóninni um samfélag sameiginlegra örlaga mannkynsins.

Kínverska þjóðin er reiðubúin að vinna með íslensku þjóðinni að uppbyggingu opnum, hreinum og fögrum heimi friðar, öryggis og velmegunar þar sem engum er úthýst.

Höfundur er sendiherra Kína á Íslandi.