— Morgunblaðið/Eggert
Hvað er Negla? Negla er píanókvartett sem tók til starfa árið 2023 með tónleikum í Tíbrá í Salnum og í Hofi á tónleikum á vegum Tónlistarfélags Akureyrar. Kvartettinn skipa: Anna Elísabet Sigurðardóttir á víólu, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir…

Hvað er Negla?

Negla er píanókvartett sem tók til starfa árið 2023 með tónleikum í Tíbrá í Salnum og í Hofi á tónleikum á vegum Tónlistarfélags Akureyrar. Kvartettinn skipa: Anna Elísabet Sigurðardóttir á víólu, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir selló, Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanó og Sólveig Steinþórsdóttir fiðlu.

Hvernig tónlist leggið þið áherslu á?

Við leggjum upp úr því að hafa dagskrána þannig að við spilum stór og þekkt klassísk verk og einnig nýrri verk sem áheyrendur þekkja kannski ekki vel eða hafa ekki heyrt áður. Við viljum kynna áheyrendum eitthvað nýtt en líka leyfa þeim að heyra þekkt stórvirki klassískrar tónlistar.

Hvaða tónlist verður flutt á tónleikunum í Norðurljósasal Hörpu?

Við flytjum píanókvartetta eftir Peteris Vasks og Johannes Brahms. Vasks er frá Lettlandi, fæddur 1946. Tónlist hans er þjóðlagakennd. Þessi píanókvartett hans er stórt verk, í sex köflum sem renna saman og mynda eina stóra heild. Brahms-kvartettinn er hárómantískur, í fjórum köflum og settur upp á mjög klassískan hátt.

Hvað er fram undan hjá kvartettinum?

Við verðum með tónleika í Hörpu í nóvember á vegum Kammermúsíkklúbbsins og spilum það prógramm líka á Akureyri. Þar ætlum við að spila verk eftir Johannes Brahms og Wolfgang Amadeus Mozart.

Þið kallið kvartettinn Neglu. Hvaðan kemur nafnið Negla?

Við komum fram á tónleikum á síðasta ári og það gekk óskaplega vel. Við töluðum mikið um það hver við aðra hvað þetta hefði gengið vel og sögðum þá: Þetta var algjör negla! Þannig að okkur fannst nafnið afskaplega flott og passa okkur vel

Píanókvartettinn Negla heldur tónleika í Norðurljósasal Hörpu sunnudaginn 7. apríl klukkan 16.00.