Ólöf Ásta Farestveit
Ólöf Ásta Farestveit
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Mikið og vaxandi álag er á starfsmönnum barnaverndarþjónustu þar sem tilkynningum um ofbeldi gegn börnum, vanrækslu og áhættuhegðun hefur fjölgað stórlega, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær. Tilkynningum sem barnaverndarþjónustum bárust í fyrra fjölgaði í öllum flokkum nema vegna kynferðisofbeldis þar sem tilkynningum fækkaði á milli ára.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Mikið og vaxandi álag er á starfsmönnum barnaverndarþjónustu þar sem tilkynningum um ofbeldi gegn börnum, vanrækslu og áhættuhegðun hefur fjölgað stórlega, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær. Tilkynningum sem barnaverndarþjónustum bárust í fyrra fjölgaði í öllum flokkum nema vegna kynferðisofbeldis þar sem tilkynningum fækkaði á milli ára.

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, bendir á að tilkynningum um kynferðisbrot hafi í raun ekki fækkað ef litið er yfir lengra tímabil. Á tímum covid-19-faraldursins varð gríðarleg fjölgun þessara mála og ef litið sé á fjölda tilkynninga þegar faraldurinn var yfirstaðinn megi sjá að í raun hafi þessum málum ekki fækkað miðað við fjölda þeirra á árinu áður en faraldurinn reið yfir.

Aukning í covid

„Á covid-tímabilinu varð gríðarleg aukning á stafrænu kynferðisofbeldi þar sem gerendurnir voru fáir en gríðarlega margir þolendur, og það hleypir tölunum upp, sérstaklega á árinu 2021. Ef við horfum hins vegar á árin fyrir covid, þá erum við enn að sjá aukningu þessara mála milli áranna 2019 og 2023. Kynferðisbrotum hefur ekki fækkað en hins vegar kom í ljós í íslensku æskulýðsrannsókninni að fleiri börn greina frá heldur en áður,“ segir hún.

Stafrænt kynferðisofbeldi gagnvart börnum hefur aukist mikið og segir Ólöf að með sífellt meiri notkun barna á samfélagsmiðlum og öðrum miðlum sé aðgengi að börnum orðið mikið í gegnum ólíka miðla. „Því fleiri miðlar sem börn eru inni á, því meiri líkur eru á að einhver nái til þeirra og þar eru engin landamæri því þetta á sér líka stað á milli landa, sem gerir að verkum að flóknara verður að vernda börnin,“ segir hún.

Sjá aukinn vopnaburð unglinga og grófara ofbeldi

Í fyrra fjölgaði tilkynningum um áhættuhegðun barna hlutfallslega mest. Fjölgaði t.a.m. tilkynningum um að barn beitti ofbeldi um 12,6% á milli ára. „Við finnum það alveg í okkar kerfi að það er mikill þungi í ofbeldismálum á milli unglinga, þar sjáum við aukinn vopnaburð og grófara ofbeldi. Má í því sambandi líka nefna að á síðasta ári voru fimm börn í gæsluvarðhaldi á því eina ári en á undanförnum tíu árum var aðeins um eitt og eitt slíkt mál að ræða,“ segir Ólöf.

Hún segir að Barna- og fjölskyldustofa sé í samvinnu við félagsmálaráðuneytið að reyna að bregðast við þessari aukningu. Farsældarlögin muni vonandi skila árangri þegar frá líður en markmið þeirra er m.a. að styrkja grunnþjónustu í nærumhverfi barna.

Ólöf bendir á að þegar hún hafi tekið þátt í umræðum um þessi mál í öðrum löndum hafi komið fram að sama þróun aukins ofbeldis á milli barna eigi sér stað í löndum allt í kringum okkur. „Þetta er ekkert einsdæmi hjá okkur,“ segir hún.

Spurð um meðferðarúrræði og þjónustu við börn segir Ólöf að Barna- og fjölskyldustofa hafi fengið viðbótarfjármagn frá ráðuneytinu tímabundið til að stytta biðlista eftir þjónustunni. „Við erum búin að fjölga plássum á Bjargey, sem er langtímameðferðarheimili fyrir stúlkur, og erum núna að innleiða framkvæmdaáætlun í barnavernd, sem á að gilda frá 2023 til 2027. Þar erum við að setja á fót nýtt meðferðarprógramm fyrir börn sem verða fyrir heimilisofbeldi,“ segir hún.

Leitað að nýju húsnæði undir meðferðarheimili

„Hins vegar erum við að lenda í því að við þurftum að loka langtímaúrræðinu á Lækjarbakka um páskana vegna myglu. Við eru því í þeirri stöðu núna að reyna að fá nýtt langtímameðferðarhúsnæði fyrir drengi og bíðum eftir því,“ segir hún.

Lækjarbakki er langtímameðferðarheimili á Rangárvöllum þar sem hægt er að vista allt að sex skjólstæðinga hverju sinni, sem hafa lokið meðferð á meðferðardeild Stuðla. Efla tók út húsnæði meðferðarheimilisins og í ljós kom að mygla er í byggingunni sem er mjög gömul og var talið nauðsynlegt að loka húsnæðinu til að tryggja öryggi starfsfólks og skjólstæðinga. Var það gert á miðvikudegi fyrir páska. „Við erum komin með bráðabirgðahúsnæði út maí og erum í samvinnu við ráðuneytið og Framkvæmdasýsluna að leita að nýju húsnæði. Væntanlega tekst það fyrir haustið,“ segir Ólöf.

Tekist hefur með bráðabirgðalausninni út maí að tryggja samfellu í meðferð fyrir þá drengi sem eru að ljúka meðferð, „en við getum ekki tekið við nýjum skjólstæðingum fyrr en við erum komin með annað húsnæði,“ segir Ólöf að endingu.