Sæþór Maríus, Addi og félagar í Sólstöfum munu koma fram á Sátunni í sumar.
Sæþór Maríus, Addi og félagar í Sólstöfum munu koma fram á Sátunni í sumar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er löngu búinn að missa tölu á öllum hátíðunum sem ég hef sótt og ég hef aldrei séð menn fljúgast á.

Fljótasta og öruggasta leiðin til að verða ríkur á Íslandi er að halda þungarokkshátíð á Snæfellsnesi. Eða nei. Eins fallega og þetta hljómar þá á það líklega við í allt öðrum heimi en þeim sem okkur var úthlutað. En samt gerir fólk þetta. Brjálað fólk, ástríðufullt fólk og málmhausar inn að beini, eins og hjónin Gísli Sigmundsson og Nansý Guðmundsdóttir og börn þeirra fjögur, sem standa í fyrsta sinn en vonandi ekki seinasta að Sátunni í Stykkishólmi dagana 6. til 8. júní. Nafnið á fyrirtækinu sem stofnað var utan um herlegheitin segir líklega allt sem segja þarf, Glapræði ehf.

Hjónin virka samrýmd og samstiga þar sem þau sitja andspænis mér í sófanum í svörtum hettupeysum merktum Sátunni. Það hendir sem kunnugt er enginn í þungarokkshátíð án þess að láta framleiða góða hettupeysu. Og sitthvað fleira af varningi.

„Það er alveg óvart sem við höldum þessa hátíð,“ segir Gísli og Nansý bætir við að þau hafi aldrei ætlað sér að gera þetta. Lilja dóttir þeirra býr í Stykkishólmi og þegar þau voru í heimsókn hjá henni fyrir um ári fór boltinn óvænt að rúlla. „Lilju langaði á Hellfest [þungarokkshátíð í Frakklandi] síðasta sumar en það var uppselt,“ segir Gísli. „Fyrir vikið fór hún að velta fyrir sér hvort við fjölskyldan ættum ekki bara að halda okkar eigin hátíð. Það væri alveg hægt.“

Nansý leist ekkert á hugmyndina og dró fingur hratt yfir hálsinn á sér til að láta sína skoðun í ljós. Gísli sá það hins vegar ekki og umræðan fór af stað. „Lilja dró upp blað og penna og við ræddum þetta lauslega þarna á laugardagskvöldi. Meira hélt ég ekki að yrði úr því. Lilja sá það með öðrum hætti og á mánudeginum labbaði hún niður á bæjarskrifstofur í Stykkishólmi og tilkynnti að hún væri að fara að halda þungarokkshátíð.“

– Og hvernig var því tekið?

„Bara ljómandi vel. Menn virtust alveg til í þetta í Hólminum,“ svarar Gísli. „Eigi ég að vera alveg hreinskilinn þá bjuggumst við ekki við því.“

Þar með hófst markviss undirbúningur og í september tilkynntu hjónin um Sátuna. „Þrátt fyrir það biðum við innst inni ennþá eftir nei-inu frá Stykkishólmi, eitthvað hlyti að koma upp á. En það gerðist ekki og í desember var orðið ljóst að hátíðin myndi fara fram. Nú er orðið of seint að bakka út úr þessu,“ segir Nansý sposk á svip.

Sátan mun fara fram í íþróttahúsinu í Hólminum og leyfi er fyrir 800 manns. Gísli og Nansý segja miðasöluna hafa farið ótrúlega vel af stað Annars sé forsala oftar en ekki róleg á viðburði á Íslandi og þau stóli ekki síður á að korter í-fólkið skili sér á endanum. „Auðvitað vonumst við til að fá sem flesta en ef það koma bara 100 manns þá verða þeir vonandi bara rosalega ánægðir,“ segir Nansý.

Eins og við viljum gera

Hjónin komu bæði að Eistnaflugi sáluga, þungarokkshátíð sem haldin var um árabil austur í Neskaupstað, og einnig Reykjavík Metalfest, þannig að þau vita um hvað málið snýst. „Þar vorum við samt bara að hjálpa vinum okkar. Nú stöndum við og föllum með þessu sjálf. Við lærðum helling af því að hjálpa öðrum en núna erum við að gera þetta á okkar forsendum og eins og við viljum gera það,“ segir Gísli og Nansý bætir við að þau hafi vandað sig eins og frekast hefur verið unnt við undirbúninginn. „Við erum líka með ótrúlegt teymi á bak við okkur, um tíu manns. Allt er þetta gert í sjálfboðavinnu á kvöldin og um helgar en er ekki ólaunaða vinnan oftar en ekki skemmtilegri en sú launaða?“

Laun eru eins og við þekkjum afstætt hugtak og ekki alltaf tengd peningum.

„Það er alla vega hægt að eiga leiðinlegra hobbí.“ segir Nansý.

Á daginn vinnur Nansý sem ráðgjafi hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar og Gísli er í „tölvutengdu brölti“ hjá flugfélaginu Air Atlanta.

Lilja er meðeigandi að Glapræði ehf. og systkini hennar þrjú, Bjargey, Bjarni og Ýmir, munu leggja gjörva hönd á plóginn á hátíðinni í sumar, selja boli, peysur og aðra minjagripi, annast gæslu, vinna í sjoppunni og svo framvegis. Allar hendur verða kvaddar á dekk. Öll hafa þau yndi af þungarokki, nema þá helst eldri sonurinn, Bjarni. „Hann hlustar nú samt á Tool og eitthvað svona,“ segir Nansý og ber blak af tónlistarsmekk sonarins.

Ég tek hatt minn ofan fyrir hjónunum; sjálfur hef ég, málmhausinn, alið upp fimm börn og aðeins eitt þeirra hefur um dagana nuddað sér utan í málm. Að vísu má taka fram að almættið fékk á endanum samviskubit yfir þessum ósköpum og sendi mér tengdason úr gæðamálmi.

Alls munu um 30 manns starfa á hátíðinni sjálfri, vinir og vandamenn, og flestir kauplaust.

Verði hagnaður af Sátunni í sumar fer féð þráðbeint í næstu hátíð. „Við höfum engan áhuga á að stinga hagnaðinum í vasann. Það væri auðvitað næs að geta lifað af þessu en það er ekki raunhæft,“ segir Gísli og Nansý bætir við: „Við gerum þetta af hugsjón.“

Vel hefur gengið að fá styrktaraðila, sérstaklega í ljósi þess að engin hátíð hefur enn verið haldin. „Við höfum notið mikils velvilja og það er ómetanlegt hversu fólk er jákvætt,“ segir Gísli.

„Þakklæti er raunar það orð sem okkur er langefst í huga,“ bætir Nansý við.

Lítið fjall og orðaleikur

– Hvernig er að vinna svona náið með öðrum fjölskyldumeðlimum?

„Ég þarf stundum að klappa Gísla á bakið og segja honum að slaka á,“ svarar Nansý hlæjandi.

„Við erum ekki alltaf sammála en þá hóum við bara í fund og leysum málin,“ segir Gísli.

Hann hefur mest um tónlistarvalið að segja. „Ég lít á mig sem „musical dictator“ en allir mega auðvitað hafa skoðanir,“ bætir hann við kíminn.

„Ef það er tónlist þá fær hann að ráða en ef málið snýst um eitthvað annað þá hef ég völdin,“ upplýsir Nansý.

„Þetta snýst ekki um það hver fær hugmyndina, heldur um að koma henni í framkvæmd, eins vel og auðið er,“ segir Gísli. „Þetta hefur líka þýtt að við erum meira með börnin okkar í kringum okkur en tvö þeirra búa úti á landi og eitt í Svíþjóð. Það eru líklega ekki margir krakkar á Íslandi sem halda þungarokkshátíð með foreldrum sínum, eða öfugt. Við hefðum alla vega ekki gert það með foreldrum okkar.“

Þau hlæja í kór.

– En af hverju Sátan?

„Það er lítið fjall rétt hjá Stykkishólmi sem heitir Sátan og okkur fannst upplagt að tengja okkur við staðinn og ná þessum orðaleik á sama tíma. Allir útlendingar tala um Satan festival,“ segir Gísli og djöflahornin skjótast sem snöggvast upp úr kollinum á honum.

Bæði hafa hjónin mikla reynslu af því að sækja þungarokkshátíðir í útlöndum og Gísli er nýkominn heim af Inferno í Noregi sem þau segjast horfa mikið til í þessu sambandi. „Við viljum gjarnan spegla okkur í þeirri frábæru hátíð,“ segir Nansý.

– Hvað þýðir það tónlistarlega?

„Sátan verður þungarokks- og harðkjarna-hátíð. Punktur. Við ætlum ekki að vera með indie- eða danstónlist, bara þungarokk. Páll Óskar kom einu sinni fram á Eistnaflugi. Það var geggjað og hann yndislegur en það er bara ekki það sem við ætlum að gera,“ svarar Gísli.

Við þetta má bæta svari Gísla þegar Eggert ljósmyndari tjáði honum, að myndatöku vegna þessa viðtals lokinni, að hann saknaði þess að sjá ekkert grínband á Sátu-lista sumarsins. „Já, einmitt, þú þarft að bíða lengi eftir því!“

Ungir sem aldnir eru velkomnir á Sátuna en Gísli og Nansý hafa gegnum árin verið dugleg að hafa sín börn með sér á þungarokkshátíðir. „Það er ekkert mál, maður setur bara heyrnarhlífar á þau ef þau eru of ung. Ekki er óalgengt að sjá þrjár kynslóðir saman á svona hátíðum,“ segir Nansý.

Sjálf eiga þau fjögur barnabörn og bíða spennt eftir að geta tekið þau með á tónleika.

Nansý segir þau líka hafa áhuga á að leggja áherslu á samtal um málmsenuna meðan á hátíðinni stendur með aðkomu erlendra bransasérfræðinga. Hvort sem það yrði pallborð eða eitthvert annað fyrirkomulag. Gísli gerir ráð fyrir að taka muni tíma að byggja þann hluta upp en þau séu öll af vilja gerð.

„Svo viljum við auðvitað fá allan bæinn með okkur,“ segir Nansý, „og gera vel við gesti og gangandi.“

Með fallegri stöðum

Þau eru sammála um að Stykkishólmur sé vel til þess fallinn að trekkja að, innlenda sem erlenda gesti, enda bærinn með þeim fallegri á landinu. „Það vantar svo sem ekki ferðamenn í Stykkishólmi og lykillinn að því að við fengum að halda Sátuna var sá að það sé gert í byrjun júní, það er á undan mestu traffíkinni; í júlí hefði þetta aldrei gengið,“ segir Nansý og Gísli bætir við að tímasetningin sé fín, í byrjun hátíðatímabilsins.

Þeim er kappsmál að fá sem flesta erlenda gesti á Sátuna enda eigi sem flestir skilið að fá að njóta íslensku málmsenunnar til hins ýtrasta. „Þessi sena er svo ótrúlega spes og falleg,“ segir Nansý.

Og ekki vantar gróskuna. Þegar Gísli settist niður og listaði upp möguleg bönd fyrir hátíðina fyllti talan hér um bil hundrað. Böndin eru þó misjafnlega virk.

Alls munu 24 bönd koma fram á hátíðinni í ár, 20 íslensk og fjögur erlend. Um er að ræða þrjá daga, átta bönd á hverjum þeirra. „Senan er það sterk að ekkert band kemur til með að spila tvö ár í röð á Sátunni,“ segir Gísli. „Framtíðin er björt, hvort sem við erum að tala um venjulegt þungarokk, harðkjarna, hart rokk, dauðarokk, svartmálm, power metal eða doom metal,“ segir Gísli og rennir yfir helstu kima stefnunnar.

Mikil breidd er líka í aldri. „Ungu krakkarnir eru mjög öflugir, sjáðu bara Vampíru sem var að vinna Músíktilraunir,“ segir Gísli en þeir verða að vísu ekki á hátíðinni í ár, „auk þess sem fullt af gömlum körlum eru að gera góða hluti. Nægir þar að nefna Ham sem verða með okkur í sumar.“

Af öðrum íslenskum böndum má nefna Sólstafi, I Adapt, Endless Dark, Angist, Auðn, Une Misère, Múr, Misþyrmingu og Gaddavír. Erlendu böndin eru Blood Red Throne og Arcturus frá Noregi, Wolfbrigade frá Svíþjóð og fjölþjóðabandið Vltimas.

Nú eru réttir tveir mánuðir í Sátuna og hjónin skella upp úr þegar spurt er um púlsinn.

„Núna erum við aðallega að hnýta lausa enda, reyna að klára hlutina og hætta að fá nýjar hugmyndir. Það er svolítið þitt,“ segir Nansý og gefur bónda sínum nett olnbogaskot.

Gísli kveðst þokkalega rólegur yfir stöðunni. „Það á fullt eftir að fara úrskeiðis, skárra væri það nú, þetta er fyrsta hátíðin sem við höldum. En við lærum bara af því. Mottóið er að allir fari glaðir heim og með bros á vör. Auðvitað stöndum við á öxlunum á Eistnaflugi en Stebbi [Stefán Magnússon] og hans fólk sýndu og sönnuðu að hægt er að halda þungarokkshátíð á Íslandi.“

Eistnaflug var fræg fyrir jákvæðan anda, bræðra- og systraþel, og mottóið var sem frægt er: Það er bannað að vera fáviti!

Nansý og Gísli segja Sátuna byggða á sama grunni. „Þetta er almennt stemningin á þungarokkshátíðum,“ segir Gísli. „Ég er löngu búinn að missa tölu á öllum hátíðunum sem ég hef sótt og ég hef aldrei séð menn fljúgast á. Þetta er ekki stór en ákaflega þéttur hópur sem sækir þessar hátíðir og menn þekkjast oftar en ekki vel.“

Nansý segir fólk öðru fremur koma til að njóta góðrar tónlistar. „Auðvitað er drukkinn bjór en það er sjaldnast til vandræða. Séu menn með eitthvert vesen þá pikkum við bara í þá og biðjum þá um að hætta því. Því er alltaf vel tekið. Einu sinni gengum við fram á mann á Hellfest, beran að ofan, sem var dáinn áfengisdauða úti á túni. Við bárum bara á hann sólarvörn og leyfðum honum að sofa áfram úr sér,“ segir Nansý brosandi. „Svona er hinn dæmigerði andi.“

Færði sig yfir götuna

Ung voru þau bæði gefin málminum og kannast mætavel við stereótýpískt viðhorf til þungarokkara fyrr á tíð. „Það kom alveg fyrir að fólk, sérstaklega eldra fólk, færði sig yfir götuna á hina gangstéttina þegar maður labbaði niður Laugaveginn með hanakamb,“ rifjar Nansý upp kímin.

„Maður var svartklæddur, síðhærður og skeggjaður en samt bara bangsi inn við beinið sem elskaði ketti,“ segir Gísli hlæjandi þegar hann minnist þessara tíma. „Maður skynjaði alveg að sumir voru smeykir við mann en það breyttist eftir að ég lét klippa mig. Maður verður varla var við neina svona fordóma lengur.“

Gísli er þekkt stærð í íslenskum málmheimum, gjarnan kenndur við hljómsveit sína, Sororicide, sem gerði garðinn frægan snemma í níunni með fersku dauðarokki sínu. Gísli lék á bassa og rumdi.

Spurður hvers vegna hann hafi dregist að málmi svarar Gísli:

„Það gerðist bara eitthvað þegar ég heyrði fyrst í Iron Maiden. Síðan færði maður sig yfir í Slayer og Morbid Angel og þannig bönd. Sororicide var virk í nokkur ár og sjálfur hef ég verið viðloðandi eitthvert brölt í þessum bransa síðan.“

Nansý segir það raunar hafa hjálpað þeim helling hversu vel tengdur Gísli sé innan senunnar. „Þegar Gísli hringir þá hlusta allir og hugsa málið. I Adapt eru til dæmis að koma saman aftur á Sátunni eftir 12 ára hlé og Angist eftir átta ár.“

– Ertu eitthvað að spila núna?

„Ekki mikið. Ég er í hljómsveit sem heitir Bastarður með mönnum úr Sólstöfum, Skálmöld og fleiri böndum og við spilum annað slagið, þegar einhver er ekki að túra í útlöndum. Við ætlum okkur að gera eitthvað meira.“

Gísli og Nansý bjuggu í Málmey í Svíþjóð frá 2014 til 2021 of drukku ákaft í sig málm á þeim tíma enda aðgengi að hátíðum og tónleikum mun betra þar en hér í fásinninu. „Þú varst stundum að fara á tónleika einu sinni til tvisvar í viku,“ segir Nansý við Gísla.

„Já og ég sakna þess talsvert mikið. Þetta hjálpar geðheilsunni,“ segir Gísli og bætir við að hann sé ágætlega tengdur inn í senuna á Norðurlöndunum fyrir vikið. Menn kynnast gjarnan á tónleikum eða hátíðum, ekki síst ef þeir eru oft að rekast hverjir á aðra.

Þau sambönd eiga ugglaust eftir að koma Sátunni vel. Er Gísli ef til vill strax byrjaður að sá fræjum?

Brosinu þarf ekki að fylgja eftir með orðum.

– Hvað erlendu bönd hafið þið áhuga á að flytja inn?

„Hvað höfum við langan tíma?“ svarar Gísli glottandi. „Það eru allskonar bönd en á þessu stigi er best að lofa engu. Við lögðum upp með þrjú erlend bönd núna en fengum ekkert þeirra en hins vegar fjögur önnur. Þannig að þetta getur tekið stöðugum breytingum. Maður byrjar á einum punkti og endar á allt öðrum. Það þarf auðvitað að vera plan en maður verður samt að geta fylgt flæðinu.“

Í lok hátíðarinnar í sumar stendur til að tilkynna um einhver bönd sem verða með að ári.

– En er ekki fokdýrt að fá bönd að utan, að ekki sé talað um stærri nöfn?

„Þar kemur Ísland inn í myndina,“ svarar Gísli. „Mörg bönd eru tilbúin að koma hingað fyrir minni pening en þau eru vön á þeim forsendum að þau geti skoðað landið og jafnvel tekið fjölskylduna með. Það eru böndin sem við þurfum að finna – sem eru til í smá vitleysu. Það fá allir borgað fyrir að spila á Sátunni en enginn mikið. Mottóið er: Það spilar enginn frítt!“

Bara snillingar í Hólminum

Sátan 2024 er vonandi bara sú fyrsta af mörgum. „Stefnan er að vera þarna á hverju ári þangað til okkur verður hent út úr bænum eða við drepumst,“ segir Gísli.

„Annars erum við ekki búin að halda neina hátíð ennþá. Menn skipta kannski um skoðun eftir það.“

Hann brosir.

Nansý hefur enga trú á því enda hafi þeim verið tekið með slíkum kostum og kynjum í Hólminum. „Við erum alveg í skýjunum með Stykkishólm. Við höfum átt í frábæru samstarfi við bæinn, lögregluna og alla aðra. Það eru allir mjög peppaðir. Það eru bara snillingar sem búa þarna.“

Og leyfið fyrir 2025 er raunar komið í hús. „Nú þurfum við bara að standa okkur.“