Kristján Ásgeir Möller húsgagnasmiður fæddist í Reykjavík 26. janúar 1948. Hann lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu Sléttunni 23. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Magnús Möller málarameistari, f. 12. júlí 1906, d. 20. ágúst 1967, og Þuríður Möller Tryggvadóttir húsmóðir, f. 30. júlí 1911, d. 11. maí 1987. Systkini hans eru Gunnlaugur Birgir Daníelsson, Steinunn Þorsteinsdóttir, Kristjana Möller og Björn Möller. Björn einn lifir systkini sín af.

Eiginkona hans er Steinunn Þ. Hjartardóttir, f. 16. október 1944. Börn þeirra eru Magnús Þór Kristjánsson, f. 9. október 1984, og Þuríður Stella Kristjánsdóttir, f. 7. maí 1987. Börn Steinunnar sem hann tók sem sínum eigin eru Ólafur Arnar Árnason, f. 1963, Sigurður Arnar Árnason, f. 1965, Rut Árnadóttir, f. 1970, og Rúnar Árnason, f. 1978. Barnabörn hans eru ellefu og barnabarnabörn sex.

Útför Kristjáns fór fram 7. mars 2024.

Elsku pabbi er þá farinn frá okkur. Hann kvaddi okkur aðfaranótt föstudagsins 23. febrúar. Pabbi var alltaf mjög elskulegur við okkur systkinin og raunar má segja það sama um alla aðra sem hann umgekkst. Hann var stoltur af fjölskyldu sinni og honum leiddist ekki að stæra sig af afrekum barna sinna, þrátt fyrir að þau hafi oft farið aðeins hjá sér við það.

Pabbi átti ýmis áhugamál, þar á meðal stangveiðar, málaralist, fréttir, íþróttir og ýmsan fróðleik. Hann fylgdi okkur eftir í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur, hvort sem það voru íþróttir eða tómstundir.

Árið 2005 veiktist pabbi alvarlega þegar hann fékk heilablóðfall. Hann var ungur að árum og þetta var okkur fjölskyldunni mikið áfall. Að vissu leyti syrgðum við pabba okkar á þeim tíma en „nýr“ pabbi tók við í kjölfar veikindanna. Hann var áfram mjög góður og stoltur en breyttist að vissu leyti. Meðal annars kom í ljós mjög mikill húmoristi sem gat jafnvel gengið aðeins fram af starfsfólkinu sem var svo yndislegt að sjá um hann.

Hann bjó í meira en áratug á Sjálfsbjargarheimilinu í Hátúni 12 og átti þar góðar stundir og eignaðist marga góða vini. Við munum alltaf eftir Sveini vini hans pabba en þeir félagar fóru allt saman og horfðu á alla fótboltaleiki sem þeir komust í.

Við viljum þakka pabba okkar sem var ávallt yndislegur við okkur og besti pabbi sem við gátum hugsað okkur.

Við viljum þakka öllum sem hafa minnst hans og sent hlý skilaboð. Sérstaklega viljum við þakka starfsfólkinu sem sinnti honum svo vel í Hátúni 12 og síðar á Sléttunni.

Magnús Þór Kristjánsson og Þuríður Stella
Kristjánsdóttir.

Ég kynntist Ásgeiri fyrir ekkert svo mörgum árum þegar ég var í sambandi með syni hans. Á þeim tíma var covid að byrja með tilheyrandi samkomutakmörkunum svo samverustundir okkar voru ekki margar eða miklar. En ég leyfi mér að fullyrða að það hafi allt verið gæðastundir.

Efst í huga mér eru skiptin þegar við borðuðum saman hádegismat á Kringlukránni á laugardögum og oftast fékk hann sér vínarsnitsel með einum Guiness-bjór. Umræðuefnið var þá yfirleitt enski boltinn, enda við tvö á öndverðum meiði þar. Ásgeir var ekki maður margra orða, en það kom bersýnilega í ljós að hann hafði mikinn húmor og hann bar virðingu fyrir skoðunum annarra. Hann t.d. dæmdi mig aldrei fyrir að halda með Liverpool en stríddi mér nú samt aðeins á því. Ég áttaði mig líka á því með tímanum að Ásgeir var með frábært minni, tók vel eftir öllu og öllum í kringum sig og stundum ræddum við ættfræði. Þar var hann með allt á hreinu.

Við deildum líka áhuga á sumum bókum og þar stóð Góði dátinn Svejk upp úr, nokkrum sinnum lásum við saman kafla úr bókinni og hlógum að greyinu honum Svejk. Við náðum líka að fara saman í nokkra bíltúra en þó engan ísbíltúr. Sá bíltúr bíður bara betri tíma.

Ég er glöð að hafa fengið að kynnast Ásgeiri og þakklát fyrir okkar stundir saman.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Fjölskyldu og aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.

Sylvía
Ólafsdóttir.