Lögga Martin Freeman sem löggan Chris.
Lögga Martin Freeman sem löggan Chris. — Ljósmynd/IMDb
Ekki er tekið út með sældinni að starfa í lögreglunni, þar sem kljást þarf við misindismenn af ýmsu tagi. Álagið er gríðarlegt, allt í steik heima fyrir, makinn í framhjáhaldi, foreldrar þínir með alzheimers, skotið á þig í vinnunni, þú laminn,…

Björn Jóhann Björnsson

Ekki er tekið út með sældinni að starfa í lögreglunni, þar sem kljást þarf við misindismenn af ýmsu tagi. Álagið er gríðarlegt, allt í steik heima fyrir, makinn í framhjáhaldi, foreldrar þínir með alzheimers, skotið á þig í vinnunni, þú laminn, hrækt framan í þig og fúkyrðaflaumnum rignir yfir frá fólki í andlegu ójafnvægi.

Til að forðast misskilning hefur Ljósvaki dagsins ekki unnið í lögreglunni heldur horft á ógrynni lögregluþátta í sjónvarpinu. Þar er þessi mynd gjarnan dregin upp af lögreglumönnum, sem reyna að leysa sakamál á meðan þeir sjálfir eru með allt niður um sig.

RÚV hefur verið að sýna tvo þætti nýverið þar sem flest ofantalið á við um helstu sögupersónur. Þetta eru The Responder, sem RÚV þýddi sem Fyrst á vettvang, og Blue Lights, Bláu ljósin í Belfast, sem eru nú sýnd á þriðjudagskvöldum.

Í fyrrnefndu þáttunum er stórleikarinn Martin Freeman í aðalhlutverki, sem m.a. lék Bilbo Baggins í Hringadróttinssögu og Dr. Watson í Sherlock Holmes-þáttum. Freeman fer á kostum sem lögreglumaðurinn Chris, álagið og angistin að drepa hann lifandi en til allrar hamingju nær hann tökum á lífinu og leysir alla hnúta. Hið óþægilega við þættina var hvað Ljósvaki fann mikla samsvörun með Chris blessuðum, og líklega rétt að fara að koma sér í frí!

Höf.: Björn Jóhann Björnsson