Forseti Vigdís Finnbogadóttir hyllt á svölum heimilis síns eftir að hafa verið kjörin forseti Íslands, sumarið 1980.
Forseti Vigdís Finnbogadóttir hyllt á svölum heimilis síns eftir að hafa verið kjörin forseti Íslands, sumarið 1980. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Sigur Vigdísar Finnbogadóttur markar tímamót, þegar litið er til þeirrar baráttu, sem háð hefur verið fyrir jafnrétti kynjanna. Í sjálfu sér á það engum að koma á óvart, að Íslendingar velji sér konu sem þjóðarleiðtoga. Íslandssagan sýnir, að hér á landi hafa konur jafnan verið metnar að verðleikum. Og þær hafa á ýmsan hátt gerst merkisberar og fyrirmynd annarra þjóða í þeirri baráttu, sem háð hefur verið undanfarin ár til styrktar stöðu kvenna í þjóðlífinu. Kjör Vigdísar er frekari staðfesting á þessu forystuhlutverki, sem vekja mun athygli víða um lönd.“

Þannig komst leiðarahöfundur Morgunblaðsins að orði í fyrsta tölublaðinu eftir að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands 29. júní 1980.

Fjallað var um kjörið í fimm dálka frétt efst á forsíðu blaðsins, þar sem úrslitin voru tíunduð:

„Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri var kjörin fjórði forseti Íslands á sunnudaginn með 43.530 atkvæðum, eða 33,6% greiddra atkvæða, og fékk hún 1.906 atkvæði umfram Guðlaug Þorvaldsson sáttasemjara ríkisins sem hlaut 41.624 atkvæði, eða 32,2%. Albert Guðmundsson alþingismaður hlaut 25.567 atkvæði eða 19.8% og Pétur J. Thorsteinsson sendiherra hlaut 18.124 atkvæði eða 14.0%. Auðir seðlar og ógildir voru 540, eða 0,4%, en af 143.078 á kjörskrá greiddu 129.385 atkvæði eða 90.4%. Í forsetakosningunum 1968 var þátttakan 91% og 1952 var hún 81,2%.“

Æsispennandi kosninganótt

Kosninganóttin var æsispennandi. Skildu þau Vigdísi og Guðlaug innan við eitt hundrað atkvæði, þegar minnst bar í milli, en þegar endanleg úrslit í Reykjavík lágu fyrir og fyrstu tölur komu úr Austurlandskjördæmi á sjötta tímanum morguninn eftir var ljóst að úrslit stefndu í sigur Vigdísar.

„Á sjötta tímanum viðurkenndu mótframbjóðendur Vigdísar sigur hennar og um og upp úr klukkan sex í fyrrinótt kom hún fram í sjónvarpi og útvarpi sem sigurvegari forsetakosninganna. Endanlegar tölur lágu svo fyrir á níunda tímanum í gærmorgun. Vigdís hlaut flest atkvæði í sex af átta kjördæmum, en Guðlaugur Þorvaldsson fékk flest atkvæði í Reykjaneskjördæmi og Norðurlandskjördæmi eystra,“ stóð í forsíðufrétt blaðsins.

Ítarlega var rætt við Vigdísi í Morgunblaðinu daginn eftir en hún hafði efnt til fundar með blaðamönnum á heimili sínu. Þar kvaðst hún telja þetta kjör feikilega mikils virði fyrir jafnréttisbaráttuna víða um veröld, því þetta væri í fyrsta skipti sem þjóð kysi sér konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum. „Til dæmis hefur verið hringt til mín frá Bandaríkjunum vegna þessa, Norðurlöndum, Frakklandi, Þýzkalandi og fleiri löndum. Ég er fyrsti kvenleikhússtjóri á Íslandi og það hefur verið ánægjulegt, en ég hef búið við það lán í mínu starfi, að það hefur aldrei verið spurt hvort ég væri karl eða kona. Það hefur aðeins verið spurt: Getur þú gert þetta?“

Vigdís sagði tilfinninguna að taka við embætti forseta Íslands byggjast á gleði, stolti og óskum um að geta gegnt þessu starfi á sama hátt og hún hefði gegnt öðrum störfum í sínu lífi. „Ég held að ég megi segja að mér hafi alltaf gengið sæmilega vel í mínum störfum í lífinu, þótt slíkt sé ávallt matsatriði.“

Rétt áður hafði Vigdís verið í löngu viðtali við Deutsche Samstag, sem var útbreiddasta vikublað Vestur-Þýskalands, og þar lagði hún til dæmis áherslu á það, þegar hún var spurð að því hvað við vildum segja heiminum, að við ættum þá verkmenningu og vinnuþol, sem skapaði okkur möguleika til þess að lifa sjálfstæðu menningarlífi og sem sjálfstæð þjóð, þótt við værum svo fámenn sem raun ber vitni.

„Benti ég þeim á, að í rauninni búum við yfir þjóðskipulagi sem eðlilegast væri að milljónir manna stæðu að. Þessi þjóð stökk út úr víkingatímanum með nýrri öld og á hálfri öld hefur verið byggð upp hér á landi tækniþróun sem stórþjóðir hafa verið að byggja upp á nær tveimur öldum, eða allt frá því að gufuvélin var fundin upp.“

Íslensk tunga barst í tal í sambandi við orðið sæmilegt og Vigdís minnti á, að það væri komið af orðinu sómi, þótt það hefði tapað merkingu í vitund og máli margra. Einnig nefndi hún sem dæmi um orð sem hefðu tapað merkingu, orðið drós sem rímar á móti hvarmaljós, og er enn fegursta kvenkenning á 19. öld í skáldskap, en hins vegar væri orðið drós nú oft notað um konu með vafasamar dyggðir.

„Ég hef mjög gaman af að hugsa um orð og leika mér að orðum,“ sagði Vigdís, „og það er einmitt íslenzk tunga sem er okkar eina vopn sem þjóðar á vettvangi þjóða heims.“

Vakti athygli erlendis

Kjörið vakti, sem fyrr segir, mikla athygli erlendis. „Íslendingar kunna að velja sér forseta, sem persónugerir hið besta meðal þjóðarinnar og íslenskrar menningar,“ sagði Berlingske Tidende í Danmörku í leiðara sínum. „Það er nokkuð tilkomumikið að karlmannaþjóðfélag sem hið íslenska skuli vera það fyrsta í heiminum, sem kýs konu í sæti þjóðhöfðingja. Þetta gefur til kynna óskir um breytingar og eflaust hefur það haft áhrif á ákvarðanir margra kjósenda, en einnig vissan um að Vigdís Finnbogadóttir væri þess verðug, manneskjulega og menningarlega séð, að taka við af Kristjáni Eldjárn.“

Jyllandsposten fannst það hins vegar vera aukaatriði að forsetinn skyldi vera kona. „Það er mun áhugaverðara,“ sagði í leiöara blaðsins, „að manneskja sem ekki er vitað hvar stendur i stjórnmálum og því augsýnilega óháð stjórnmálaflokkum, skuli hafa verið kosin oddviti íslensku þjóðarinnar.“

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins var hugsi yfir fjölda frambjóðenda sem voru hvorki fleiri né færri en fjórir „Aldrei fyrr hafa jafn margir gefið kost á sér til þessa háa embættis. Úrslitin sýna, að fyllsta ástæða er til að íhuga, hvort efna beri til forkosninga, þegar svo margir gefa kost á sér. Með slíkri aðferð má búast við, að bæði kjósendum og frambjóðendum verði auðveldara að takast á við þær skyldur, sem á herðum þeirra hvíla. Nýkjörnum forseta væri léttara að takast á við verkefni sitt, ef hann hefði meirihluta þjóðarinnar á bak við sig að kosningu lokinni.“

Að kosningum loknum stóðu allir frambjóðendurnir fjórir eftir ósárir, að dómi leiðarahöfundar Morgunblaðsins. „Einn hlaut að sigra, hinir geta vel við unað og þjóðin fær að njóta starfskrafta þeirra á mikilvægum sviðum þjóðlífsins. Sverðin hafa verið slíðruð og menn fylkja sér á bak við sigurvegarann með árnaðaróskum. Morgunblaðið óskar Vigdísi Finnbogadóttur gæfu og gengis í embætti forseta Íslands.“