Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Frumvarp til heildarlaga um lagareldi hefur verið lagt fram á Alþingi. Mikill vöxtur hefur verið í fiskeldi undanfarin tíu ár. Vextinum hefur fylgt aukin verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið og aukin velsæld í þeim samfélögum sem notið hafa góðs af veltiárum

Frumvarp til heildarlaga um lagareldi hefur verið lagt fram á Alþingi. Mikill vöxtur hefur verið í fiskeldi undanfarin tíu ár. Vextinum hefur fylgt aukin verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið og aukin velsæld í þeim samfélögum sem notið hafa góðs af veltiárum. Hins vegar hafa þessum vexti fylgt verulegir vaxtaverkir, ekki síst sem tengjast stroki á laxi úr kvíum. Þetta lá fyrir þegar ríkisstjórnin var mynduð en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að mótuð verði heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku lagareldis.

Þegar ég tók við embætti matvælaráðherra hófst ég handa við að undirbúa það verkefni. Ég óskaði eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirliti með sjókvíaeldi og skýrslu var skilað í janúar á síðasta ári. Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group var fengið til að leggja mat á framtíðarmöguleika Íslands á sviði lagareldis og skilaði vandaðri skýrslu um möguleika landsins. Þar kemur m.a. fram að möguleikar til verðmætasköpunar og þannig aukinnar velsældar eru miklir, ef okkur heppnast að móta skynsamlegan ramma og regluverk um greinina. Takist það gæti lagareldi orðið burðarás í íslensku atvinnulífi. Í október 2023 lagði ég fram drög að nýrri stefnumótun lagareldis fram til ársins 2040, sem tekur, líkt og lagafrumvarpið um lagareldi, mið af þessari vinnu.

Lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu er ætlað að skapa greininni ramma sem byggist á skýrum viðmiðum sjálfbærrar nýtingar, vistkerfisnálgunar og varúðar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekið verði á stroki af mikilli festu og skapaðir hagrænir hvatar til þess að fjárfest verði í besta búnaði til að koma í veg fyrir umhverfisslys af því tagi. Það er grundvallaratriði, enda hlýst af stroki mikið tjón fyrir samfélagið allt, bæði þá hópa sem verja hagsmuni villtra laxastofna en ekki síður fyrir þau sem stunda fiskeldi. Áhersla er lögð á að eftirlit, vöktun og rannsóknir með framleiðslunni standist ýtrustu kröfur til að koma megi í veg fyrir að greinin hafi neikvæð áhrif á umhverfið í framtíðinni. Auk þess er í frumvarpinu að finna umbætur á ýmsum sviðum. Gjaldtaka mun taka mið af afkomu í greininni, skapaðir verða hvatar til þess að fjárfesta í öruggari búnaði og sveitarfélögum verður tryggður aukinn fyrirsjáanleiki um tekjur af starfseminni, svo dæmi séu nefnd.

Það er ekki bara þjóðhagslega mikilvægt að ljúka umbótum á lagaumhverfinu heldur er það einnig áskilið í lögum um fiskeldi að þau verði endurskoðuð á þessu ári. Með markvissri og vandaðri stefnumótun, og með því að nýta lærdóminn af reynslu okkar og annarra í greininni, erum við komin á allt annan og betri stað en í upphafi kjörtímabilsins og ég hlakka til næstu skrefa.

Höfundur er matvælaráðherra.

Höf.: Svandís Svavarsdóttir