Sigríður Kristín Andrésdóttir fæddist á Þórshöfn 5. maí 1939. Hún lést á dvalarheimilinu Nausti 25. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Gunnar Jónsson, f. 24. september 1879, d. 25. febrúar 1940, og Jónína Steinunn Sigurðardóttir, f. 25. mars 1908, d. 3. mars 1995.

Systur Sigríðar voru í aldursröð: Kristín Hallgerður, f. 24. maí 1929, d. 11. júlí 2020; Hrefna, f. 21. ágúst 1933, d. 30. janúar 2001; Guðrún Sigþrúður, f. 16. maí 1933, d. 4. febrúar 2020. Sammæðra: Guðný María Finnsdóttir, f. 23. mars 1944, d. 26. júní 2011.

Sigríður Kristín giftist Aðalbirni Arnari Aðalbjörnssyni, f. 14. apríl 1935, d. 8. nóvember 2020, á jóladag 1961. Börn þeirra eru: 1) Gunnur Andrea Jóhannsdóttir, f. 7. janúar 1960. 2) Arna Ragnhildur Arnarsdóttir, f. 13. júní 1961. 3) Aðalbjörn Arnarsson, f. 15. nóvember 1962. 4) Ölver Hjaltalín Arnarsson, f. 9. maí 1973. Arna á börnin a) Bjarna, b) Írisi Sigríði, hún býr með Svavari Dór Ragnarssyni og þau eiga saman tvö börn, og c) Nínu Rut, hún á tvær dætur. Aðalbjörn er kvæntur Jóhönnu Sigríði. Saman eiga þau a) Hildi Kristínu sem á tvær dætur og b) Jóhönnu Regínu sem er gift Jóni Hafliðasyni sem á einn son, og saman eiga þau þrjár dætur. Yngstur er c) Arnar og hann býr með Lovísu Margréti Kristjánsdóttur. Ölver Hjaltalín er kvæntur Önnu Maríu, saman eiga þau börnin a) Gísla, b) Andreu og c) Maríu. Unnusta Gísla heitir Hekla Gunnarsdóttir.

Útför Sigríðar Kristínar fer fram frá Þórshafnarkirkju í dag, 6. apríl 2024, klukkan 14.

Elsku mamma, okkur dætrum þínum langar að þakka þér fyrir öll yndislegu árin sem við áttum saman. Æskuárin okkar í Hvammi voru góð og eigum við dýrmætar minningar þaðan. Þér þótti afar vænt um garðinn þinn sem ómældur tími fór í, enda bar hann þess glöggt merki. Fríin okkar til Þórshafnar voru alltaf tilhlökkunarefni og fannst okkur svo notalegt að vera hjá þér og pabba. Mikil eftirvænting var fyrir komu ykkar í árlegu suðurferðina svo við gætum eytt meiri dýrmætum tíma með ykkur. Þegar við komum í heimsókn á sumrin vorum við undantekningalaust komnar í garðinn að aðstoða þig að gera hann eins og þú vildir hafa hann. Allt sem þú tókst þér fyrir hendur var til mikillar fyrirmyndar og erum við þakklátar að hafa fengið svona mörg og góð ár með þér. Þú hafðir einstaklega gaman af handavinnu og gerðir þú það með mikilli prýði. Þú varst mikil félagsvera og í minningu okkar var alltaf mikill gestagangur og alltaf var veitt vel. Þú hafðir einnig gaman af því að fara í heimsóknir og á rúntinn að kíkja á umhverfið, hvort eitthvað væri að gerast og tókst virkan þátt í kvenfélaginu Hvöt á Þórshöfn.

Ein besta ákvörðun sem við systur tókum var að eyða síðustu jólahátíðinni á Sunnuvegi með ykkur pabba áður en þið fluttuð á Naust. Við áttum dásamlegar stundir og munum halda fast í þær minningar. Þið pabbi voruð svo einstakar manneskjur við okkur, barnabörnin og barnabarnabörnin, klettur okkar allra. Við elskum þig og munum sakna þín sárt, elsku mamma okkar. Sérstakar þakkir fá Aðalbjörn og Sigga fyrir að annast mömmu vel þegar við vorum ekki til staðar.

Þínar dætur,

Arna og Gunnur.

Mamma lifði systur sínar allar. Hennar staður var Þórshöfn, vildi hvergi annars staðar vera. Vann hjá Pósti og síma, hjá Kaupfélaginu og í HÞ.

Mamma var ekki borin í gullstól alla sína ævi. Hún missti pabba sinn ársgömul og þá var ekki neitt félagsmálabatterí svo hún var gefin til vandalausra. Kristín Jóseps og Andrés Oddsson frá Felli tóku hana að sér eftir að heimili mömmu leystist upp. Þau voru alveg einstaklega góð við hana. Amma flutti til Akureyrar með eldri dæturnar. Kristín fósturmóðir hennar lést svo þegar mamma var 12 ára gömul. Þá flutti mamma til mömmu sinnar á Akureyri og var þar í barnaskóla einn vetur en leiddist alltaf og líkaði ekki að búa á Akureyri. Hún fór þá í vist til Sigga og Iðunnar, einstaks heiðursfólks á Þórshöfn, til að passa Þórhöllu dóttur þeirra. Hjá þeim átti hún öruggt athvarf fram á fullorðinsár. Andrés Oddsson fósturfaðir hennar lifði til ársins 1971, var þá kominn á elliheimili í Hafnarfirði og bað mömmu þess að ef hún eignaðist barn eftir það, sem var harla ólíklegt, þá yrði það barn skírt eftir sér, þ.e. barnið hefði nafnið Hjaltalín að millinafni. Mamma auðvitað stóð við það og skírði mig þessu millinafni. Mamma gekk í skóla á Þórshöfn og fór að því loknu í Laugaskóla í Reykjadal.

Það var að mörgu leyti sérstakt fyrir mömmu að flytja úr þorpi í sveit. Hún sagði mér að hún hefði mörg kvöldin staðið við gluggann sem sneri út að þorpinu, horft á ljósin þar og óskað sér að hún væri komin í þorpið sitt, sem varð að veruleika 1976, en þá hættu þau búskap í Hvammi og fluttu út á Þórshöfn í glænýtt hús á Sunnuvegi sem varð mitt æskuheimili og kjölfesta í árafjöld. Mamma vann á símanum og frystihúsinu eftir að hún flutti á Þórshöfn. Veiktist af krabbameini árið 1991. Fékk í tvígang krabbamein eftir það. Hún sýndi alltaf mikið æðruleysi í þessum veikindum og styrk sem ég vissi ekki að hún byggi yfir.

Mamma var ekki hagfræðingur en tafsaði endalaust á því við mig, eftir að ég var byrjaður á sjó og farinn að hafa góðar tekjur, að það væri gott að eiga varasjóð fyrir ókomnum áföllum. Það voru góð heilræði, og fylgi ég þeim enn.

Mamma var mikil barnagæla og blómakona, öll barnabörnin voru gullin hennar. Börnin mín eiga óskaplega góðar og fallegar minningar um ömmu sína. Hún átti fallegasta garðinn á Þórshöfn og gat haldið lífi í öllum blómum.

Það lék allt í höndunum á henni.

Ég skrapp til hennar núna viku áður en hún dó. Það síðasta sem hún sagði við mig þegar ég var að kveðja hana hinsta sinni var: Bless elsku gullið mitt. Ég verð að viðurkenna að mér vöknaði um augun við þessa kveðju, vitandi að ég myndi ekki sjá hana aftur á lífi.

Góða ferð elsku mamma mín yfir í sumarlandið. Reikna með að pabbi hafi beðið brosandi eftir þér þar.

Ölver.

Elskuleg tengdamóðir mín, Sigga Stína, hefur kvatt okkur.

Ég hitti Siggu Stínu fyrir að verða 30 árum, ég hef áður sagt og segi enn að ég vann stóra pottinn í tengdaforeldralottóinu. Hún kenndi mér mikið, hún var af gamla skólanum, vildi alls ekki láta hafa fyrir sér en alltaf tilbúin að aðstoða aðra.
Það er margs að minnast, hún gerði besta nestið, bestu pönnukökurnar og besta ávaxtagraut sem ég hef nokkurn tíman smakkað. Hjá Siggu Stínu var fólkið hennar númer 1, 2 og 3 og svo Þórshöfn. Þeir eru ófáir kaffibollarnir og súkkulaðimolarnir sem voru teknir við eldhúsgluggann á Sunnuveginum og horft niður í þorpið, þar fann hún ró. Hún var blómakona mikil og garðurinn hennar á Þórshöfn bar af, fullur af blómum og trjám sem hún hugsaði um af natni. Hún gat haldið lífi í þessu öllu þótt það sé alveg ómögulegt að vera með blóm og tré á þessum slóðum.

Hún var mikil handavinnukona og það liggja ófá verkin eftir hana hjá börnum hennar og fleirum. Veggteppi, rúmföt með hekluðu milliverki, vettlingar, þvottapokar og tuskur ofl., allt gert með ást og mikilli umhyggju.

Hún var einstaklega barngóð og eiga barnabörnin og langömmubörnin margar góðar og fallegar minningar um ömmu sem átti alltaf eitthvað nýbakað og opinn faðm sem umlukti þau hlýju og ást. Hún var afar stolt af þeim öllum.

Djúp og varanleg vinátta

er dýrmætari

en veraldlegar viðurkenningar,

og allt heimsins gull og silfur.

Henni þarf ekki endilega alltaf

að fylgja svo mörg orð

heldur gagnkvæmt traust

og raunveruleg umhyggja.

Kærleikur,

sem ekki yfirgefur.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Elsku tengdamamma, góða ferð í sumarlandið, það veit ég að Arnar þinn tekur brosandi á móti þér.

Þín tengdadóttir

Anna María.

Elsku amma okkar, mikið eigum við eftir að sakna þín og þeirra góðu stunda sem við áttum með þér. Að ferðast frá Kópavogi til Þórshafnar leið eins og heil eilífð en við vissum að ferðin væri ávallt þess virði. Við komum oftast seint að kvöldi og þegar við komum í innkeyrsluna stóðuð þið afi þar og tókuð á móti okkur með bros á vör og tilbúið kvöldkaffi. Að labba inn í Sunnuveg var eins og að koma heim. Við gátum ekki beðið eftir að fara inn, leggjast upp í rúm og finna ömmu- og afalykt. Búrið var fullt af góðgæti sem þú varst búin að baka með áherslu á ömmusnúð með súkkulaði því þú vissir að þeir stæðu alltaf mest upp úr.

Fallegi garðurinn þinn sem þú eyddir mestöllum tíma þínum í og beiðst þar eftir lóunni, verða alltaf hluti af minningum okkar þegar við hugsum til baka. Það er erfitt að hugsa um að þessi stóri partur af lífi okkar, að fara öll sumur að hitta ömmu og afa, sé liðinn en eftir situr hafsjór af góðum minningum. Við systkinin eigum okkar einstöku minningar með þér sem við erum afar þakklát fyrir. Þær minningar sem við eigum sameiginlegar sem standa mest upp úr eru ferðirnar í Miklavatn, fara í berjamó, spjallið við eldhúsborðið sem endaði oftar en ekki með hlátursköstum og áhugi þinn á veðurfarinu sem við fengum daglega að vita um. Það er skrítið að hugsa til þess að heimasíminn muni ekki hringja reglulega í hverri viku til þess að fá fregnir af öllum.

Við fundum svo sterkt hvað þú elskaðir mikið, gafst mikla ást og umhyggju og vildir allt það besta fyrir okkur barnabörnin. Þú sýndir okkur alltaf áhuga, hvað við værum að gera og hvernig okkur gengi í þeim verkefnum sem við vorum í. Kveðjustundin eftir sumarheimsókn var alltaf mjög erfið. Horfandi á eftir ykkur veifa, vitandi að það yrði alltof langt í næstu heimsókn. Með tárin í augunum í hvert skipti sem við fórum frá Sunnuvegi. Sú hugsun yljar okkur að nú sértu komin í sumarlandið til afa.

Við sitjum eftir með sáran söknuð en þakklæti fyrir tímann okkar saman, minningar um þig sem munu lifa að eilífu. Takk fyrir allt. Við elskum þig.

Bjarni, Íris og Nína.

Fyrrverandi tengdamóðir mín, Sigga Stína. Hún var einstaklega hlý og umhyggjusöm. Hún hafði áhuga á öllu sem lífið hafði upp á að bjóða og tók fólki opnum örmum, sýndi auðmýkt og virðingu. Hún geislaði af ást og hlýju og var til staðar fyrir alla. Þrátt fyrir að fjarlægðin væri mikil var hún eins og lím sem hélt okkur saman og sýndi okkur ómetanlegan stuðning, fyrir það er ég ævinlega þakklátur.

Heimilið hennar Siggu Stínu var til fyrirmyndar, hún sá til þess að allt væri í röð og reglu og var með gott auga fyrir smáatriðum. Hún lifði fyrir fjölskylduna og vildi að öllum vegnaði vel. Hún var vinmörg og voru allir alltaf velkomnir til hennar. Hún hafði alltaf sögur að segja og var hver heimsókn minnisstæð. Það var alveg ótrúlegt að hún var alltaf tilbúin með kökur ef óvæntir gestir myndu kíkja við. Hlátur hennar var einlægur og hreif alla með. Sigga Stína var góður vinur og hægt að treysta á hana. Ég gat verið einlægur og opinskár við hana og hún sýndi skilning, gaf huggun og visku.

Mamma mín, Sigríður Bjarnadóttir, og Sigga Stína voru góðar vinkonur og veit ég að hún er afskaplega þakklát fyrir að hafa verið hluti af lífi hennar. Án hennar stuðnings og ástar hefði lífið verið mun erfiðara. Við erum ævinlega þakklát fyrir að hafa haft Siggu Stínu í lífi okkar. Fráfall hennar skilur eftir tómarúm sem ekki verður hægt að fylla. Hennar verður sárt saknað, ekki bara af fjölskyldu heldur öllum þeim sem voru svo heppnir að hafa þekkt hana. Minning hennar mun lifa í hjörtum okkar sem þekktum hana.

Már Másson.