Þórarinn Snorrason fæddist í Vogsósum I 8. ágúst 1931. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 25. desember 2023.

Útför Þórarins fór fram 6. janúar 2024.

Í haust eru liðin 50 ár síðan ég kom fyrst í Selvog, þá í Selvogsrétt við Hlíðarvatn. Athygli mína vakti m.a. sérlega fallegt fé í Vogsósadilkunum og eru mér í minni ýmsir sem voru við hefðbundin réttarstörf, þeirra á meðal Þórarinn Snorrason og Snorri Þórarinsson faðir hans. Í Búnaðarritinu 1964 hafði ég lesið þá umsögn um Neskoll Þórarins að hann væri fádæma kynfastur og mesti hrútafaðir sem fram kom á hrútasýningum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar haustið 1963, þá orðinn átta vetra gamall. Síðla hausts 1965 eignaðist ég fallegan, kollóttan, hvítan lambhrút frá Þórarni, sonarson Neskolls. Hann skírði ég Svan og um aldamótin fékk ég aftur kollóttan, hvítan lambhrút frá Þórarni sem hlaut nafnið Vinur. Báðir þessir hrútar eru mér minnisstæðir og reyndust þeir vel hjá mér og fleirum í Reykjavík og Kópavogi.

En Þórarinn var ekki aðeins hygginn og góður bóndi og afburða fjárræktarmaður, lengi vel eingöngu með kollótt fé en náði ekki síður prýðilegum árangri við ræktun hyrnds holdafjár síðustu áratugina. Hann var alla tíð þekktur sem sannur félagshyggjumaður og gegndi flestum þeim trúnaðarstörfum sem vinna þarf í sveitum landsins. Viðtöl við Þórarin í fjölmiðlum og ritum báru m.a. vitni um yfirgripsmikla þekkingu og unun var að heyra hann segja frá mönnum og málefnum sem hann kynntist á langri ævi. Mér fannst hann alltaf leggja gott til málanna og koma skoðunum sínum á framfæri með skýrum hætti, bæði í persónulegum viðtölum og á fundum. Þessu kynntist ég fyrst skömmu eftir að ég hóf störf hjá Búnaðarfélagi Íslands 1977. Þá átti Þóarinn, sem oddviti og forðagæslumaður Selvogshrepps, afgerandi þátt í því, í samvinnu við okkur í Búnaðarfélaginu, að finna varanlega lausn á vandamáli sem varðaði velferð sauðfjár á eyðijörð í sveitinni. Síðar áttum við gott og gefandi samstarf í ýmsum málum, svo sem við endurskoðun fjallskilasamþykktar og umfjöllun um girðingamál er snerti bæði beitarnýtingu og umferðaröryggi á vegsvæðum.

Þórarins í Vogsósum minnist ég með virðingu og þökk.

Börnum hans og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína.

Ólafur R.
Dýrmundsson.