Nikótín Þeim hefur fjölgað til muna sem nota rafsígarettur hérlendis. Mest er fjölgunin á meðal ungs fólks, sem margt upplifir þetta sem skaðlaust.
Nikótín Þeim hefur fjölgað til muna sem nota rafsígarettur hérlendis. Mest er fjölgunin á meðal ungs fólks, sem margt upplifir þetta sem skaðlaust. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Það skýtur skökku við að á sama tíma og sífellt færri ungmenni sem og aðrir reykja sígarettur, þá séu rafsígarrettur og nikótínpúðar í mikilli sókn á markaðnum. Samkvæmt gögnum frá landlækni fyrir árin 2020-2022 hafa reykingar og tóbaksnotkun í vör minnkað þessi þrjú ár, en reykingar eru algengastar í aldurshópnum 55 ára og eldri. En á sama tíma eykst notkun milli allra áranna á rafsígarettum og einnig nikótínpúðanotkun og þar er aukningin mest hjá hópnum 18-34 ára.

Rafsígarettur og sjúkdómar

Í nýrri rannsókn á rafsígarettum, sem hefur vakið mikla athygli í vikunni, kemur í ljós að mikil líkindi eru á tengslum notkunar rafsígarettna og hjartasjúkdóma. Áður hafa kannanir sýnt tengsl milli notkunar rafsígarettna og lungnasjúkdóma og í september 2019 greindist ungmenni hérlendis með lungnasjúkdóm sem talið var hægt að rekja til reykingar rafsígarettna.

„Það er gríðarlegur lobbíismi í kringum nikótínvörur,“ segir Lára G. Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. „Þegar sígarettur komu á sjónarsviðið voru þær markaðssettar sem heilsubætandi, en vandamálið með svona vörur er að það tekur áratugi fyrir neikvæð heilsufarsáhrif að koma í ljós, eins og sagan sýnir.“

„Búa til nýja nikótínfíkla“

Lára segir að þegar tóbaksframleiðendur sáu hríðminnkandi sölu á sígarettum hafi þeir fjárfest í framleiðslu rafsígarettna og nikótínpúða. „Þessar vörur voru markaðssettar sem heilsusamlegar í samanburði við sígarettur, þrátt fyrir að engar rannsóknir lægju að baki. Nikótín er skordýraeitur sem hefur skaðleg áhrif á líkamann, sérstaklega hjá börnum og ungmennum sem eru að þroskast. Því miður hefur söluaðilum tekist að aftengja hættuna á bæði fíkn og heilsutapi af völdum nikótíns. Þeir markaðssetja það sem hættulaust, sem sælgæti í augum barna.“

Lára segir að markaðsöfl vestanhafs séu gífurlega öflug og mikið sé auglýst á samfélagsmiðlum, m.a. með áhrifavöldum, og þar séu upphæðirnar stjarnfræðilegar sem tryggja að markhópurinn fái örugglega skilaboðin. „Þegar bragðefni eru tengd við nikótín, þá upplifa börn það sem sælgæti frekar en hættulega vöru. Með þessu tryggja söluaðilar sér nýja nikótínfíkla og kúnna fyrir lífstíð á kostnað heilsu barna okkar.“

Rafsígarettur eins og tóbak

Þótt ekki megi selja börnum undir 18 ára aldri rafsígarettur, segir Lára að það sé nokkurn veginn óheftur aðgangur að vörunni á netinu og þar geti börn keypt vöruna þótt þau séu yngri. „Markaðssetningin er mun lúmskari í dag en hún var. Ég hef hitt foreldra 8-10 ára gamalla barna sem segja mér að krakkarnir séu orðin spennt fyrir þessum „Sven“-gaur.“

Lára nefnir að rætt hafi verið við heilbrigðisráðherra um málið, en ljóst sé að fræðsla ein og sér hafi ekkert í markaðsöfl tóbaksfyrirtækjanna. „Það þarf að setja rafsígarettur og nikótínpúða undir sömu lög og tóbak. Við erum með góð tóbaksvarnarlög, en nikótínlögin eru til þess fallin að auka skaða af völdum nikótíns. Það er ákvæði í lögum sem heilbrigðisráðherra getur nýtt sér, sem er að banna bragðefni. Það myndi strax bera árangur.“

Málaferli vestanhafs

Markaðssett fyrir börn

Í aprílmánuði í ár eru rúmlega fimm þúsund mál í gangi, sem hafa verið lögð fram víðs vegar um Bandaríkin gegn rafsígarettuframleiðandanum Juul Labs, bæði hóplögsóknir og mál einstaklinga. Fyrirtækið þykir ganga hart fram gegn markhópi sínum, börnum og unglingum, en vestanhafs er talað um rafrettufaraldur hjá ungmennum.

Í desember 2022 samdi Juul Labs í fimm þúsund málum. Ekki var gefið upp hversu mikið fé fyrirtækið borgaði, en samkvæmt heimildum Bloomberg-fréttaveitunnar nam upphæðin um 1,2 milljörðum dala. Í janúar í fyrra gekk fyrirtækið aftur til samninga í málaferlum í Kaliforníu upp á 255 milljónir dala í hópmálsókn þar sem fyrirtækið var sakað um óheiðarlega markaðssetningu.

Í mars sama ár greiddi Juul Labs Chicago-borg 23,8 milljónir bandaríkjadala fyrir að markaðssetja rafsígarettur sérstaklega fyrir börn.