Sigurinn gegn Pólverjum er gríðarlega dýrmætur fyrir íslenska liðið og hann var í raun algjörlega nauðsynlegur fyrir framhaldið í undankeppninni. Þegar aðeins er um sex leiki að ræða gegn þremur sterkum andstæðingum, eins og keppnin er í núverandi…

Sigurinn gegn Pólverjum er gríðarlega dýrmætur fyrir íslenska liðið og hann var í raun algjörlega nauðsynlegur fyrir framhaldið í undankeppninni.

Þegar aðeins er um sex leiki að ræða gegn þremur sterkum andstæðingum, eins og keppnin er í núverandi mynd þar sem leikið er í A-, B- og C-deildum í undankeppninni, skiptir hvert stig geysilega miklu máli, og sérstaklega að vinna heimaleik gegn liði sem ætti að vera í harðri baráttu við Ísland um að komast í lokakeppni EM.

Þýskaland vann nauman sigur í Linz í Austurríki í gærkvöld, 3:2, eftir að hafa lent tveimur mörkum undir snemma leiks. Ísland og Þýskaland eru því efst í riðlinum eftir fyrstu umferðina af sex og mætast á þriðjudagskvöldið í Aachen í Þýskalandi.

Tvö efstu liðin komast beint í lokakeppni EM og það er ljóst að leikirnir tveir gegn Austurríki, á útivelli 31. maí og heimavelli 4. júní, verða afgerandi hvað varðar möguleika Íslands á að komast beint á EM. Þýska liðið er afar sigurstranglegt í riðlinum og eftir leiki gærkvöldsins blasir við að Ísland og Austurríki muni berjast um annað sætið. En það verður afar fróðlegt að sjá hvað gerist í leik Póllands og Austurríkis á þriðjudaginn.

Liðin sem enda í þriðja og fjórða sæti riðilsins þurfa að fara í umspil um keppnisrétt á EM í haust og mæta þar liðum úr B- og C-deildum undankeppninnar.