Stórfjölskyldan Samankomin á afmæli Þórunnar, konu Ólafs, 28. mars sl. Á myndina vantar Söru Guðlaugsdóttur.
Stórfjölskyldan Samankomin á afmæli Þórunnar, konu Ólafs, 28. mars sl. Á myndina vantar Söru Guðlaugsdóttur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Þór Jóhannsson er fæddur 6. apríl 1954 í Reykjavík, ólst upp í Grindavík og hefur alið allan aldur þar fyrir utan tvö ár í Þýskalandi. „Ég fór í sveit til ömmu minnar á Stóru-Þverá í Fljótum í Skagafirði frá 6-10 ára aldurs við fábrotnar aðstæður

Ólafur Þór Jóhannsson er fæddur 6. apríl 1954 í Reykjavík, ólst upp í Grindavík og hefur alið allan aldur þar fyrir utan tvö ár í Þýskalandi.

„Ég fór í sveit til ömmu minnar á Stóru-Þverá í Fljótum í Skagafirði frá 6-10 ára aldurs við fábrotnar aðstæður. Þar voru engar vélar, aðeins handafl og hestar. Notast var við útikamar og eina upphitun hússins var kolaeldavél og engir ofnar í öðrum rýmum. Ég var síðan eftir það eitt sumar í Garði í Hegranesi.“

Ólafur lauk skólagöngu í Grindavík 13 ára. Hann fór þá, ófermdur, í Héraðsskólann á Laugarvatni og lauk landsprófi þar 1970. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1974. Hann tók þá frí frá námi í tvö ár og fór á sjóinn, en fór eftir það í KHÍ og lauk B.ed.-prófi þaðan 1979. Hann lauk 1. stigs námi í Stýrimannaskólanum 1978 sem hann tók með námi á öðru ári í KHÍ.

Á námsárunum vann Ólafur í byggingarvinnu og múrverki m.a. við byggingu Festis og fleiri mannvirkja í Grindavík. Hann fór til sjós 18 ára, fyrst á síldveiðar í Norðursjó á Grindvíkingi GK og var lengst af á þeim báti á sumrin og eftir stúdentspróf. Hann var kennari við Grunnskóla Grindavíkur frá 1979-1986 en fór þá aftur á Grindvíking og varð 2. stýrimaður.

Ólafur var ráðinn framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja 1987 sem var einn af fyrstu fiskmörkuðum á Íslandi. Hann var í fararbroddi við þróun þess kerfis sem fiskmarkaðir starfa eftir í dag. „Það var byltingarkennd aðferð sem byggðist á fjarskiptauppboðum og aldrei hafði verið notuð áður og margir spáðu algjöru skipbroti. Okkur var sagt að við ættum að fara eftir erlendum fyrirmyndum, safna fiskinum saman á einn stað og bjóða þar upp. En tilraunin tókst það vel að í dag nota nánast allir fiskmarkaðir í Evrópu fjarskiptauppboð byggð á sömu hugmyndum og við vorum með í byrjun. Enda hefur tækninni fleygt fram og gert það auðveldara, en árið 1987 var ekkert internet til.“

Árið 2001 flutti Ólafur til Bremerhaven í Þýskalandi og starfaði þar við fiskmarkað í tvö ár. Hann flutti eftir það heim aftur og stofnaði fyrirtækið Spes ehf. ásamt Stakkavík og hóf útflutning á fiski, aðallega ferskum. „Rekstur þess gekk mjög vel þar til árið 2021 að dró úr starfseminni m.a. vegna covid. Síðla árs 2022 fór ég með Spes í samstarf við hollenskt fyrirtæki um kaup og vinnslu á fiski á Íslandi til sölu og framhaldsvinnslu í Hollandi. Starfsemi þess er í Sandgerði.“

Ólafur keppti í tveimur efstu deildum körfuboltans frá 1971-1990. Fyrst með HSK, síðan lengstum með Grindavík með árs viðkomu í Fram. Hann var í liði Ungmennafélagsins Hvatar í Grímsnesi sem varð Íslandsmeistari í blaki 1973 og var eingöngu skipað nemendum Menntaskólans að Laugarvatni. Ólafur spilaði tvo fyrstu landsleiki Íslands í blaki.

Eftir körfuboltaferilinn hófust stjórnunarstörf í körfunni í Grindavík. Árið 1995 var hann kjörinn í stjórn KKÍ og var varaformaður sambandsins til 2001. Ólafur var sæmdur gullmerki KKÍ og Ungmennafélags Grindavíkur.

Ólafur var kjörinn formaður stjórnar nýstofnaðs félags um rekstur Fisktækniskóla Íslands árið 2009 og gegndi því starfi til 2023.

„Áhugamál mín eru fjölskylda og vinir, ferðalög, stang- og skotveiði og íþróttir. Ég stunda golf og fylgist náið með keppnisliðum Grindavíkur í körfubolta, allt frá ungviðinu upp á afreksstig.“

Fjölskylda

Eiginkona Ólafs er Þórunn Sigurlaug Jóhannsdóttir, f. 28.3. 1957, stuðningsfulltrúi. Heimili þeirra er á Glæsivöllum 11 í Grindavík, en þau eru búsett núna í Sunnusmára 5, Kópavogi.

Foreldrar Þórunnar voru Jóhann Pétur Runólfsson, f. 13.1. 1931, d. 26.9. 1988, leigubílstjóri, og Sigríður Guðbjartsdóttir, f. 26.7. 1939, d. 7.1. 2002, verkakona. Þau bjuggu í Reykjavík, voru gift en skildu 1986.

Börn Ólafs og Þórunnar eru 1) Sigríður Anna Ólafsdóttir, f. 23.7. 1981, framhaldsskólakennari, Lækjasmára 102, Kópavogi. Maki: Ingvar Árnason, f. 15.7. 1986, verkefnastjóri. Börn: Saga Guðlaugsdóttir, f. 25.8. 2004; Brynja Guðlaugsdóttir, f. 3.1. 2009; Egill Gauti Ingvarsson, f. 20.3. 2018; Hlynur Þór Ingvarsson, f. 5.11. 2019. 2) Jóhann Þór Ólafsson, f. 10.7. 1983, körfuboltaþjálfari og þjónustufulltrúi, Víkurhópi 28, Grindavík / Stefnisvogi 6, Reykjavík. Maki: Sif Rós Ragnarsdóttir, f. 11.4. 1981, verkefnastjóri. Börn: Tara Sól Hilmarsdóttir, f. 19.12. 1999, og Ragnar Darri Daðason, f. 24.9. 2004. 3) Þorleifur Ólafsson, f. 16.11. 1984, körfuboltaþjálfari og framkvæmdastjóri, Efstahrauni 34, Grindavík / Sunnusmára 11, Kópavogi. Maki: Þórkatla Sif Albertsdóttir, f. 15.11. 1986, ljósmyndari. Börn: Þórey Tea Þorleifsdóttir, f. 9.9. 2008; Albert Þorleifsson, f. 22.5. 2011; Jóhann Daði Þorleifsson, f. 12.2. 2015; Sif Þorleifsdóttir, f. 22.11. 2016. 4) Ólafur Ólafsson, f. 28.11. 1990, körfuboltamaður og gæðastjóri, Mánagötu 29, 240 Grindavík / Áshamri 52, Hafnarfirði. Maki: Katrín Ösp Eyberg Rúnarsdóttir, f. 14.1. 1994, mannauðssérfræðingur. Börn: Írena Eyberg Ólafsdóttir, f. 22.2. 2019, og Ölver Óli Ólafsson, f. 24.5. 2021.

Systkini Ólafs eru Ingvar Páll Jóhannsson, f. 1.12. 1960, starfsmaður íþróttamiðstöðvar, Dalvík, og Hulda Jóhannsdóttir, f. 19.1. 1963, leikskólastjóri, Grindavík.

Foreldrar Ólafs voru Jóhann Ólafsson, f. 30.8. 1931, d. 9.6. 2011, múrarameistari í Grindavík, og Ólöf Ólafsdóttir, f. 23.7. 1934, matráðs- og verslunarkona í Grindavík. Þau voru gift en skildu 1999, bjuggu lengst af í Grindavík, nema 10 ár í Kópavogi.