Sérfræðingur Dr. Benjamin Hoffman, bandarískur barnalæknir og forseti bandarísku barnalæknasamtakanna (American Academy of Pediatrics).
Sérfræðingur Dr. Benjamin Hoffman, bandarískur barnalæknir og forseti bandarísku barnalæknasamtakanna (American Academy of Pediatrics). — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ólafur Pálsson olafur@mbl.is Foreldra og þá sem koma að umönnun ungbarna hryllir við tilhugsuninni um skyndilegt fráfall þeirra. Fólki hættir til að hugsa að ekkert slæmt geti hent eða að líkurnar á því séu hverfandi.

Viðtal

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Foreldra og þá sem koma að umönnun ungbarna hryllir við tilhugsuninni um skyndilegt fráfall þeirra. Fólki hættir til að hugsa að ekkert slæmt geti hent eða að líkurnar á því séu hverfandi.

Undanfarinn áratug hafa í Bandaríkjunum um 3.600 ungbörn á fyrsta aldursári látist í svefni á ári hverju eða um tugur ungbarna á degi hverjum að meðaltali. Um 95% þessara dauðsfalla verða á fyrstu sex mánuðum ævi þeirra og um 85% á fyrstu fjórum mánuðunum. Talið er að um tvö ungbörn á ári hljóti sömu örlög hér á landi þótt engar opinberar tölur séu fyrir hendi. Gögnin úr vestri gefa þó tilefni til að staldra við.

Dauðsföllum ekki að fækka

Fyrir 1990 var ekki mikið vitað um svefn ungbarna en á seinni hluta níunda áratugarins varð mikilvægi svefnstöðu þeirra alþjóðlega viðurkennt, meðal annars í kjölfar stórra átaksverkefna. Dr. Benjamin Hoffman er bandarískur barnalæknir og forseti bandarísku barnalæknasamtakanna (American Academy of Pediatrics). Hefur hann sérhæft sig í öruggu svefnumhverfi ungbarna og unnið að forvörnum gegn meiðslum barna í að verða þrjá áratugi.

Hoffman segir, í samtali við Morgunblaðið, að í kjölfar þessara átaksverkefna hafi tíðni skyndidauða ungbarna í svefni u.þ.b. helmingast til aldamóta en undanfarin 15-20 ár hafi tíðnin ekki lækkað að neinu marki. Stór hluti skyndidauða barna í svefni á fyrsta ári sé tengdur þáttum sem hægt sé að breyta. „Ungbörn eiga ekki að deila rúmi með öðrum. Þau eiga að sofa á bakinu en ekki á maganum. Þau eiga ekki að vera bundin í svefni nema þau séu í bílstól. Koddar og teppi eiga ekki að vera nærri sofandi ungbarni eða annað mjúkt sem getur flækst fyrir og valdið köfnunar- eða kyrkingarhættu,“ segir hann.

Málþing helgað málefninu

Félag íslenskra barnalækna stendur fyrir málþingi um þetta mikilvæga málefni á Barnaspítala Hringsins í dag þar sem bandaríski sérfræðingurinn mun meðal annars ræða við kollega sína hér á landi um hvað vitað sé um öruggan svefn ungbarna og hvert hlutverk heilbrigðisstarfsfólks geti verið í að koma í veg fyrir dauðsföll sem honum tengjast.

Barnalæknirinn segir mikilvægt að vöggur og önnur ungbarnarúm uppfylli alla viðunandi öryggisstaðla, undirlagið skuli vera stíft og flatt. Hann segir að vörur séu á markaði sem sérstaklega eru ætlaðar sofandi ungbörnum en hafa ekki verið öryggisprófaðar – vörur sem vitað er að séu mjög hættulegar. „Því miður er eftirlitskerfið ekki nægilega skilvirkt og þá njóta framleiðendur vafans. Við munum ræða sumar þessara vara í dag, hvernig þær komust á markað og hvers vegna foreldrar og umönnunaraðilar kjósa gjarnan að nota þær. Þá munum við reyna að útskýra fyrir barnalæknum og öðrum sem sinna heilbrigðisþjónustu barna hvers vegna við ættum að vara við notkun þeirra.“

Ísland í kjörstöðu

Hoffman segir að í Bandaríkjunum sé í hvert sinn sem barn deyr sett af stað staðlað matsferli til að kanna orsökina. Það sé ótrúlega dýrmætt tól sem hjálpi við að skilja verndun barna.

„Ég held að slíkt fyrirkomulag væri mjög gagnlegt fyrir land eins og Ísland, þar sem íbúar eru færri og mikil þekking á samsetningu þjóðarinnar. Að geta rannsakað hvað veldur dauðsföllum barna færi langt með að koma í veg fyrir þau því mögulegt er að afstýra þeim flestum.“ Hann segir Ísland í kjörstöðu til að taka betur utan um málefnið, safna upplýsingum og gera rannsóknir og vísar þar til smæðar þjóðarinnar. Þá sé hér á landi til staðar sterkt félagslegt öryggisnet með ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum sem sækja foreldra heim. Segir hann barnalækna og aðra sem koma nærri lýðheilsu og heilbrigðisþjónustu barna standa frammi fyrir gríðarlegu tækifæri til að vinna með fjölskyldum og samfélögum. Til að skilja þarfir og stemma stigu við hryllilegum dauðsföllum. „Dauðsföllum sem virkilega er hægt að afstýra.“

Málþing í dag

Svefnöryggi ungbarna

Félag íslenskra barnalækna stendur fyrir málþingi á Barnaspítala Hringsins í dag sem helgað er svefnöryggi ungbarna.

Herdís Storgaard, hjá Miðstöð slysavarna barna, flytur erindi um slysavarnir barna fyrr og nú.

Óli Andri Hermannsson barnalæknir fjallar um öndun og dr. Benjamin Hoffman, forseti bandarísku barnalæknasamtakanna (AAP), flytur erindi um svefnöryggi ungbarna og þjálfun barnalækna svo þeir verði skilvirkir málsvarar barna.

Herdís hefur í samstarfi við Heilsugæsluna skrifað fræðsluefni um öryggi í svefnumhverfi ungbarna sem aðgengilegt er á Heilsuveru og mun hún halda námskeið fyrir ljósmæður og hjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd í maí.