Fyrirmynd Vilhjálmur Árnason segir Hvalfjarðargöng gott fordæmi.
Fyrirmynd Vilhjálmur Árnason segir Hvalfjarðargöng gott fordæmi. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sérfræðingahópur á vegum Sjálfstæðisflokksins metur nú kosti þess að greiða fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu með jarðgöngum.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sérfræðingahópur á vegum Sjálfstæðisflokksins metur nú kosti þess að greiða fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu með jarðgöngum.

Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins er formaður hópsins og talsmaður.

Hann segir hópinn vera að meta hvernig megi fjármagna slíka uppbyggingu á sjálfbæran og hagkvæman hátt með innheimtu veggjalda. Með því yrði gangagerðin utan samgönguáætlunar, líkt og gerð Hvalfjarðarganga var á sínum tíma.

Fengu góðan hljómgrunn

Vilhjálmur segir athuganir hópsins lofa góðu en ljóst sé að slík gangagerð geti stytt ferðatíma á höfuðborgarsvæðinu og þar með aukið lífsgæði íbúa.

„Við erum í grunninn að tala um að færa umferð á stofnbrautum niður í göng til að skapa betra umhverfi ofanjarðar,“ segir Vilhjálmur.

Aðdragandi málsins er sá að Holberg Másson kynnti þessar hugmyndir í byrjun síðasta árs og voru þær svo kynntar í stjórn Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Hugmyndirnar fengu góðan hljómgrunn og var því ákveðið að stofna starfshóp í lok síðasta árs. Hópurinn er enn að störfum en vinna hans var kynnt á Reykjavíkurþingi 9.-10. mars síðastliðinn.

Kynntar í Valhöll í dag

Hugmyndirnar verða jafnframt kynntar á opnum fundi í Valhöll klukkan 10.30 til 12 í dag, laugardag.

„Með mér í hópnum eru meðal annars sérfræðingar í gangagerð, verkfræðingar, hagfræðingar og umhverfisfræðingar sem geta farið yfir þetta frá öllum sjónarhornum,“ segir Vilhjálmur.

„Við erum að meta hversu raunhæfar slíkar hugmyndir eru og erum að vinna að tillögu um hvernig best væri að hrinda þeim í framkvæmd. Við erum langt komin í þessari vinnu og þetta lítur mjög vel út,“ segir Vilhjálmur sem telur góða reynslu af Hvalfjarðargöngum benda til að gangagerðin verði arðbær. Jafnframt megi styðjast við góða reynslu Færeyinga og Norðmanna af slíkum göngum.

Eldri hugmyndir um göng

Vilhjálmur rifjar svo upp eldri hugmyndir um jarðgöng. Meðal annars hafi nokkrum sinnum verið getið um Öskjuhlíðargöng í aðalskipulagi Reykjavíkur. Þá hafi fulltrúar Betri samgangna rætt um Miklubrautargöng og Vegagerðin og Betri samgöngur skoðað Setbergsgöng. Einnig megi nefna að Fossvogsgöng hafi verið forsenda þess að nýr Landspítali yrði byggður við Hringbraut.

„Þannig að slíkar hugmyndir eru ekki nýjar af nálinni. Við erum að reyna að setja þessar hugmyndir í raunhæft samhengi og koma málinu af stað.“

Þyrfti að forgangsraða

Hvaða göng sjáið þið fyrir ykkur?

„Við sjáum mörg göng fyrir okkur. Það þyrfti hins vegar að forgangsraða göngunum og stofna þyrfti félag eins og Spöl til þess að meta hvar hagkvæmast væri að byrja og hver raunhæfasta forgangsröðin væri. Ég tel að það sé mikilvægt að það verði gert á faglegum og hagfræðilegum forsendum en ekki pólitískum.“

Þetta yrðu miklar vegalengdir?

„Já. Því yrði þetta gert í áföngum. Það má sjá fyrir sér að hægt verði að aka í göngum alveg frá Vesturlandi og út á Reykjanes, eða alveg frá Suðurlandi og út á Vesturland eða Reykjanes, án þess að lenda í borgarumferðinni. Þegar búið er að færa meginstrauma umferðarinnar niður í göng erum við komin með miklu minni umferð ofanjarðar. Og þá er miklu auðveldara að gera allar þessar hjólaleiðir og strætóleiðir og hafa léttara borgarumhverfi ofanjarðar,“ segir Vilhjálmur að lokum.

Höf.: Baldur Arnarson