Óbyggðanefnd Hvítserkur verður líklega ekki að þjóðlendu ríkisins.
Óbyggðanefnd Hvítserkur verður líklega ekki að þjóðlendu ríkisins. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur óskað eftir því að málsmeðferð vegna þjóðlendna á svæði 12, sem nær yfir allar eyjar og sker við landið, verði frestað svo unnt sé að endurskoða kröfur ríkisins með hliðsjón af betri gögnum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur óskað eftir því að málsmeðferð vegna þjóðlendna á svæði 12, sem nær yfir allar eyjar og sker við landið, verði frestað svo unnt sé að endurskoða kröfur ríkisins með hliðsjón af betri gögnum.

Leiðarljós við þá vinnu verði m.a. að draga úr ágreiningi og skapa grundvöll fyrir betri sátt.

Þann 2. febrúar sl. voru settar fram kröfur fyrir hönd ríkisins um þjóðlendur á svæði 12.

Nefndin hafnaði ráðherra

Skömmu síðar sendi svo ráðherra óbyggðanefnd bréf þar sem óskað var eftir því að hún endurskoðaði fyrri afstöðu sína til þess að nýta ákvæði í þjóðlendulögum um að gefa þeim sem kalla til eignarréttinda á svæðinu kost á að lýsa kröfum sínum áður en fjármála- og efnahagsráðherra lýsti kröfum fyrir hönd ríkisins.

Með bréfi í sama mánuði hafnaði nefndin beiðni ráðherra, að því er fram kemur í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins.

Þá kemur fram, að fyrri kröfugerð ríkisins vegna svæðisins hafi verið til nokkurrar umræðu undanfarið og nýlega hafi komið fram kortaupplýsingar og önnur gögn sem gefi tilefni til gagngerrar endurskoðunar á henni. Gert sé ráð fyrir að við endurskoðun sé unnt að draga stórlega úr fyrri kröfum ríkisins á svæðinu og jafnframt að endurskoðaðar kröfur verði í betra samræmi við meðalhóf og gögn. Til þess þurfi lengri tíma til að vinna málið.