Gunnar Einarsson
Gunnar Einarsson
Hulduskattarnir setjast á vöru og þjónustu, lag ofan á lag.

Gunnar Einarsson

Hulduefnið er hvorki sjáanlegt né áþreifanlegt, en það er þarna.

Það er eins með hulduskattinn, hann er þarna alltumlykjandi. Það er ekki hægt að fá vitrænar niðurstöður um skattbyrði nema taka hann með í reikninginn.

Öll útgjöld sem ríkið ákveður fyrir okkur, útgjöld sem ríkið en ekki við ákveður að verði að borga, hljóta að teljast skattar. Ef við tökum saman skatta og hulduskattana fer nærri að ríkið ráðstafi 80% af því sem margir þéna.

Stýrivextirnir eru hluti af hulduskattinum. Reiknuð skattbyrði, án þess að hafa hann inni, er röng. Um þessar mundir eru stýrivextir nærri 5% hærri hér en í flestum ríkjum í nágrenninu. Tölur fljóta upp og niður, en það heyrast tölur um að eitt prósent stýrivextir auki útgjöld fyrirtækja í landinu um litla 30-45 milljarða. Fyrirtækin eru bara milliliður, það er fólkið í landinu sem borgar. Við skulum ekki vera að ýkja og reiknum með 33 milljarða útgjaldaaukningu á hvert prósent. Hvert prósentustig í virðisaukaskattinum gefur ca 16,5 milljarða. Það þýðir að eitt prósent í stýrivöxtum hækkar útgjöld sem svarar til 2% hækkunar á virðisaukaskatti. 5% er þá 10% hækkun. Nú um tíma er því virðisaukaskattur + stýrivaxtaskatturinn ígildi 34% virðisaukaskatts.

En fjölskyldurnar í landinu þurfa ekki bara að borga þessa hækkun. Margar fjölskyldur hafa lán. Viðmiðunarfjölskylda skuldar 60 milljónir. Hækkun vaxta um 5% þýðir gróft reiknað 250.000 krónum hærri afborganir á mánuði. Tekjurnar eru 1.400.000 á mánuði. Álagðir skattar eru 346 þúsund. Hulduskatturinn, 250 þúsund, er ígildi til þess að tekjuskatturinn hækkaði um 72%.

Hulduskattarnir geta verið meinlúmskir. Ein mynd þeirra er að borgarkerfið passar upp á að það sé stöðugur skortur á lóðum í Reykjavík. Þetta er ekki nýtt, en hefur farið versnandi. Það er stóri draumur margra kapítalista að ná tökum á „markaðnum“ þannig að þeir geti skammtað og þannig ráðið verðinu. Með þessari skömmtun getur Reykjavík fengið hátt verð fyrir lóðirnar. Það neyðir líka verktaka til að þétta byggðina. Þeir kaupa dýrar lóðir, með byggingum sem síðan þarf að rífa áður en byggt er. Þarna verða rándýrar íbúðir, hærra fasteignaverð, hærri gjöld, hærri leiga, enn hærri vísitala, hærri stýrivextir og svo koll af kolli. Þessir hulduskattar Reykjavíkurborgar leggjast ekki bara á Reykvíkinga heldur koma þeir að hluta á landsbyggðina líka. Hulduskattarnir setjast á vöru og þjónustu, lag ofan á lag.

Verðlag er yfirleitt alltaf hærra hér en í flestum öðrum löndum. Vörur sem enginn tollur er lagður á og eru seldar í samheitaverslunum eru oft miklu dýrari hér. Skattar og hulduskattar eru sjaldan nefndir, en þeir eiga stóran þátt í þessu.

Það er tími til kominn að skera víða og mikið, en miðað við öll framtíðarplönin er ég ekki bjartsýnn. Í fyrsta lagi er 50-60 milljarða halli á fjárlögum. Það þarf tugi milljarða fyrir Grindavík. Kjarasamningar aðrir tugmilljarðar. Pípurnar eru hlaðnar. Landspítalinn væri ef til vill nægur biti að klára, en hann er bara smáréttur miðað við alla hina réttina á hlaðborði framkvæmdanna. Það þarf brýr, vegi, göng og eina þjóðarhöll í snatri, nýjar hafnir og svo stórátak í húsbyggingum, bara til að nefna dæmi. Landsvirkjun ætlar að bjóða út fyrir 200 milljarða. Einkaaðilar ætla líka að taka til hendinni. Hvert sem litið er á að framkvæma. Til dæmis á að byggja stór hótel hér og þar. Í framhaldinu þarf að flytja inn mikið af fólki. Vegna þessa innflutnings á fólki þarf að flytja inn enn fleira fólk … Ríkið á svo að byggja innviðina og allir græða, eða þannig. Það koma stjórnmálamenn í fjölmiðla sem beinlínis mæra þensluna og erfitt að skilja þá öðruvísi en að það eigi að þenja efnahaginn og kaffæra verðbólguna með þenslu.

Ein af réttlætingum fyrir hækkun stýrivaxta er að kæla hagkerfið, fæla einstaklinga og fyrirtæki frá að framkvæma. Stjórnmálamenn virðast ónæmir fyrir bæði aðstæðum í þjóðfélaginu og háum vöxtum. Landsvirkjun er óháð innlendum vöxtum. Mikið af framkvæmdum stórra einkafyrirtækja er án efa fjármagnað með erlendum lánum.

Annars staðar hefur hið opinbera oft fjárfestingarstefnu sem tekur mið af aðstæðum í þjóðfélaginu. Hið opinbera dregur úr framkvæmdum og lagðir eru fjárfestingarskattar á einkaaðila. Það þyrfti til dæmis að leggja minnst 20% skatt á nýjar hótelbyggingar.

Með þeim hugsunarhætti sem er allsráðandi hér á landi virðist ólíklegt að litli maðurinn fái sambærilega vexti og tíðkast í öðrum löndum. Hulduskatturinn verður áfram hár.

Höfundur er fyrrverandi bóndi.