Meistarar Aron Pálmarsson fyrirliði FH lyftir bikarnum sem félagið tók við eftir leikinn við KA í gærkvöld sem deildarmeistari karla árið 2024.
Meistarar Aron Pálmarsson fyrirliði FH lyftir bikarnum sem félagið tók við eftir leikinn við KA í gærkvöld sem deildarmeistari karla árið 2024. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Afturelding náði öðru sætinu í úrvalsdeild karla í handknattleik úr höndum Valsmanna með því að vinna viðureign liðanna á Hlíðarenda í gærkvöld í lokaumferð deildarinnar, 35:34. FH-ingar tóku við deildarmeistarabikarnum eftir afar sannfærandi sigur…

Handboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Afturelding náði öðru sætinu í úrvalsdeild karla í handknattleik úr höndum Valsmanna með því að vinna viðureign liðanna á Hlíðarenda í gærkvöld í lokaumferð deildarinnar, 35:34.

FH-ingar tóku við deildarmeistarabikarnum eftir afar sannfærandi sigur á KA í Kaplakrika, 32:22, og enduðu fjórum stigum fyrir ofan Aftureldingu og fimm stigum fyrir ofan Valsmenn.

Eyjamenn tryggðu sér fjórða sætið í deildinni með því að vinna HK í Kópavogi, 37:33, en Haukar, sem unnu Fram í Úlfarsárdal, 24:20, hefðu náð því af ÍBV ef meistararnir hefðu tapað fyrir HK.

ÍBV með heimaleikjarétt

Þar með verður ÍBV með heimaleikjaréttinn í einvíginu við Hauka í átta liða úrslitunum sem hefjast á miðvikudaginn en fyrir leikina í gærkvöld lá fyrir að þessir fjendur sem oft hafa mæst í lykilleikjum í úrslitakeppni Íslandsmótsins myndu eigast við í fyrstu umferðinni.

Stjarnan vann fallna Víkinga, 30:28, í Safamýri og fór með því upp fyrir KA-menn og í sjöunda sætið. Þar með lá endanlega fyrir að eftirtalin lið myndu eigast við í átta liða úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn:

FH – KA

Afturelding – Stjarnan

Valur – Fram

ÍBV – Haukar

Leikirnir fjórir eru allir settir á næsta miðvikudagskvöld, 10. apríl, á heimasíðu HSÍ.

Grótta og HK hafa lokið keppni í níunda og tíunda sæti, sem og Víkingur og Selfoss sem voru fallin fyrir lokaumferðina.

Aron skoraði níu mörk

 Aron Pálmarsson lét mikið að sér kveða með FH í leiknum við KA og skoraði níu mörk en Ásbjörn Friðriksson skoraði sex. Skarphéðinn Ívar Einarsson var markahæstur KA-manna með sex mörk.

 Gabríel Martinez Róbertsson, Kári Kristján Kristjánsson og Elmar Erlingsson skoruðu 7 mörk hver fyrir ÍBV gegn HK en Hjörtur Ingi Halldórsson og Kristófer Ísak Bárðarson skoruðu 5 mörk hvor fyrir HK.

Blær skoraði tólf mörk

 Blær Hinriksson átti stórleik með Aftureldingu gegn Val og skoraði 12 mörk, 9 þeirra í fyrri hálfleik, og Birgir Steinn Jónsson skoraði sex. Ísak Gústafsson og Benedikt Gunnar Óskarsson skoruðu átta mörk hvor fyrir Val.

 Geir Guðmundsson var markahæstur hjá Haukum gegn Fram með 5 mörk en Bjartur Már Guðmundsson og Ívar Logi Styrmisson skoruðu meira en tvo þriðju hluta af mörkum Framara, sjö hvor.

 Hergeir Grímsson skoraði níu mörk fyrir Stjörnuna í sigrinum á Víkingi og Benedikt Marinó Herdísarson fimm en Jóhann Reynir Gunnlaugsson skoraði sex mörk fyrir Víking.

 Grótta vann fallna Selfyssinga, 33:32, fyrir austan fjall. Ágúst Ingi Óskarsson, Kári Kvaran og Jón Ómar Gíslason skoruðu fimm mörk hver fyrir Gróttu en Einar Sverrisson skoraði tólf mörk fyrir Selfyssinga.

Höf.: Víðir Sigurðsson