Framboð Katrín Jakobsdóttir ræddi við blaðamenn í Hörpu í kjölfar þess að hún greindi frá forsetaframboði sínu í ávarpi á samfélagsmiðlum í gær.
Framboð Katrín Jakobsdóttir ræddi við blaðamenn í Hörpu í kjölfar þess að hún greindi frá forsetaframboði sínu í ávarpi á samfélagsmiðlum í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gefur kost á sér í embætti forseta Íslands. Hún hyggst biðjast lausnar frá ráðherraembætti sínu og segja af sér formennsku í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gefur kost á sér í embætti forseta Íslands. Hún hyggst biðjast lausnar frá ráðherraembætti sínu og segja af sér formennsku í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Framboðsyfirlýsing ráðherrans hefur legið í loftinu um hríð, en Katrín varðist fimlega spurningum blaðamanna fyrir og eftir síðasta ríkisstjórnarfund sinn í gærmorgun.

Í ávarpi Katrínar sem birtist skömmu síðar á félagsmiðlum greindi hún frá framboðinu og kvaðst hafa ákveðið fyrir allnokkru að gefa ekki kost á sér í næstu þingkosningum. Hún brynni þó enn fyrir því að gera samfélaginu gagn.

„Þetta er mikilvægt embætti. Forsetinn þarf að skilja gangverk stjórnmála og samfélags. Þarf að geta sýnt forystu og auðmýkt. Að gæta hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi. Hann þarf að geta tekið erfiðar ákvarðanir óháð stundarvinsældum,“ sagði Katrín í ávarpinu. Hyggst hún fara um landið á næstu dögum og ræða við landsmenn.

Ekki ómissandi

Óvissa er uppi um framtíð ríkisstjórnarinnar vegna framboðsins og óljóst hver taki við embætti hennar eða hvort stjórnarflokkarnir haldi samstarfi sínu áfram. Tvö og hálft ár er liðið af kjörtímabilinu og verkefni ríkisstjórnarinnar drjúg.

„Ég er ekki ómissandi úr íslenskum stjórnmálum, það er nú eitt sem ég er algjörlega með á hreinu,“ sagði Katrín, sem kveðst viss um að arftaki sinn muni sinna embætti forsætisráðherra af sóma þó hún hafi ekki gert sér í hugarlund hver sá verði.

Miklar viðræður hafa staðið milli oddvita stjórnarflokkanna, en þeir vilja engu svara um hvernig miði. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sækjast eftir forsætisráðherrastólnum, en við blasir að frekari uppstokkunar er þörf haldi stjórnarsamstarfið áfram.

Heimildir Morgunblaðsins í Sjálfstæðisflokki segja tímabært að hann leiði stjórnina, enda hafi hann lengi fellt sig við málamiðlun um það. Hins vegar eru uppi ríkar efasemdir um að óbreytt ríkisstjórn geti styrki sig í aðdraganda kosninga, staða hennar kunni þvert á móti að versna áfram jafnt og þétt. Því sé rétt að líta til fleiri átta, þó ekki sé búið að slíta samtali um óbreytt stjórnarmynstur.