Við viljum hafa fjölbreytileika í skólanum, segir Kristín.
Við viljum hafa fjölbreytileika í skólanum, segir Kristín. — Ljósmynd/Saga Sig
Allt varðandi háskólanám í listum er mitt hjartans mál, slíkt nám á að vera aðgengilegt, hreyfiafl í samfélaginu sem einkennist af miklum gæðum og framsækni.

Segja má að Listaháskóli Íslands standi á ákveðnum tímamótum en frá og með næsta hausti greiða nemendur skólans ekki skólagjöld, einungis skráningargjald sem er um 75.000. Í staðinn fær skólinn framlag frá ríkinu. Fyrir þessa breytingu voru skólagjöld á bilinu 350-650 þúsund á önn, sem í þriggja ára háskólanámi er yfir þrjár milljónir.

„Það skiptir mjög miklu máli að þessi skólagjöld séu felld niður. Þetta hefur frá upphafi verið stærsta hagsmunamál nemenda Listaháskólans,“ segir Kristín Eysteinsdóttir rektor Listaháskólans. „Við erum eini listaháskóli landsins og það er mikilvægt að jafnrétti til náms sé þar tryggt, óháð námsgreinum og efnahag. Það skiptir ekki síst máli út frá fjölbreytileika nemenda og við viljum auðvitað að þeir nemendur sem stunda nám við skólann endurspegli þverskurð samfélagsins.

Listaháskóli Íslands er áfram sjálfseignarstofnun og einkarekinn skóli en þetta er leið sem háskólaráðherra býður núna einkareknum skólum upp á. Þetta er svipuð leið og verið er að fara í Svíþjóð, Finnlandi og á fleiri stöðum þar sem einkareknu skólunum er boðið að fella niður skólagjöldin og þiggja í stað þess hundrað prósent framlag frá ríkinu. Við í Listaháskólanum vorum í samtali við stjórnvöld í dágóðan tíma áður en stjórn skólans tók ákvörðun um að þiggja þetta boð.“

Kristín segir þessa breytingu ekki koma niður á skólanum. „Heildartekjur sem við erum að fá af skólagjöldum eru í samræmi við framlag ríkisins. Þannig að þjónusta okkar verður sú sama. Það skiptir okkur máli að gæði námsins séu ekki skert, þau munu haldast þau sömu en skólagjöldin hverfa, sem er frábært.“

Gæði ekki skert

Umsóknarfrestur um nám í skólanum er til 12. apríl í allar deildir nema listkennslu en þar er umsóknarfrestur til 13. maí. Spurð hvort ekki megi búast við stóraukinni aðsókn í skólann eftir þessa breytingu segir Kristín: „Við gerum ráð fyrir því en ég held að það muni fyrst skila sér að fullu næsta haust. Fólk er oft, eins og til dæmis í mastersnámi hjá okkur, að plana námið langt fram í tímann, sérstaklega fólk sem er komið með fjölskyldu.

Við fáum alltaf mikið af umsóknum og getum tekið mun færri í skólann en þá sem sækja um. Sem dæmi má nefna að í leikaranáminu eru næstum þrjú hundruð sem sækja um en tíu til tólf komast inn.

Námið í skólanum er mjög einstaklingsmiðað og við viljum ekki skerða þau gæði. Í sumum brautum getum við hins vegar fjölgað nemendum.“

Í skólanum eru sjö deildir og 26 námsleiðir innan þeirra deilda. Þetta eru arkitektúr, hönnun, listkennsludeild, myndlistardeild, sviðslistadeild og tónlistardeild og kvikmyndalistadeild, sem var stofnuð fyrir tveimur árum, og Kristín segir hafa markað ákveðin tímamót.

Hjartans mál

Unnið hefur verið að nýrri stefnumótun skólans sem kynnt verður á vormánuðum. „Við höfum verið að vinna í þessari stefnumótun í allan vetur, bæði í mjög breiðu samráði og í minni vinnuhópum. Vinnan er mjög langt komin. Ég vil ekki ræða hana mikið fyrr en hún verður kynnt en get allavega sagt að þar er lögð mikil áhersla á fjölbreytileika og inngildingu í samræmi við það samtal sem hefur verið í gangi í samfélaginu öllu. Það er til dæmis mjög mikilvægt að við könnum leiðir til að ná betur til innflytjenda, að sá hópur viti af náminu og sæki um í skólann.

Við viljum hafa fjölbreytileika í skólanum og höfum haldið því sjónarmiði á lofti og munum halda því áfram, bæði varðandi nemendur sjálfa og það hvað við erum að kenna og hverjir eru að kenna.“

Kristín varð rektor Listaháskólans í ágúst á síðasta ári en hafði áður gegnt starfi starfi leikhússtjóra Borgarleikhússins. „Það var mikil áskorun að taka við þessu starfi en líka gríðarlega gefandi. Listaháskólinn er vaggan þar sem framtíð menningarinnar mótast. Hjarta mitt slær í listunum og ég finn líka hvað reynslan af leikhússtjórastarfinu er að nýtast mér vel.

Allt varðandi háskólanám í listum er mitt hjartans mál, slíkt nám á að vera aðgengilegt, hreyfiafl í samfélaginu sem einkennist af miklum gæðum og framsækni. Fyrir mig er það gríðarlega spennandi vinnuumhverfi að vera í samskiptum við nemendur og starfsmenn skólans.“