[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kosið verður á milli þriggja biskupsefna dagana 11. til 16. apríl og hefst rafræn kosning kl. 12.00 á fimmtudaginn í næstu viku og lýkur næsta þriðjudag á eftir. Í kjöri eru prestarnir Elínborg Sturludóttir, Guðmundur Karl Brynjarsson og Guðrún Karls Helgudóttir

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Kosið verður á milli þriggja biskupsefna dagana 11. til 16. apríl og hefst rafræn kosning kl. 12.00 á fimmtudaginn í næstu viku og lýkur næsta þriðjudag á eftir. Í kjöri eru prestarnir Elínborg Sturludóttir, Guðmundur Karl Brynjarsson og Guðrún Karls Helgudóttir. Fái enginn hinna þriggja framjóðenda hreinan meirihluta atkvæða verður kosið á ný á milli hinna tveggja efstu.

Á kjörskrá vegna biskupskjörs eru alls 2.282 og er mikill meirihluti atkvæðisbærra manna leikmenn, en þeir eru 2.115 talsins. Fjöldi presta og djákna á kjörskránni er 167, þar af eru prestar 150 en djáknar 17. Kynjahlutfall í hópi presta er nánast jafnt, en ekki liggja fyrir upplýsingar um kynjahlutfall í hópi leikmanna.

Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn þjóðkirkjunnar er hugsanlegt að eitthvað fjölgi á kjörskránni frá því sem nú er, en þar yrði þó um örfáa að ræða. Verið er að skoða a.m.k. eina beiðni um leiðréttingu þar á.

Kosningarétt í biskupskosningu eiga biskup Íslands og vígslubiskupar ásamt þeim sem vígðir hafa verið. Þetta eru þjónandi prestar eða djáknar þjóðkirkjunnar eða hjá íslenskum söfnuðum kirkjunnar erlendis og eru í föstu launuðu starfi sem slíkir. Einnig þjónandi prestar og djáknar sem lúta tilsjón biskups og eru í föstu launuðu starfi á vegum stofnunar og eða félagasamtaka hér á landi. Þá hafa prestar og djáknar í allt að tveggja ára tímabundnu leyfi kosningarétt.

Prestur sem settur er til þjónustu tímabundið nýtur ekki kosningaréttar nema í þeim tilfellum þar sem ekki er skipaður prestur fyrir. Djákni skal vera ráðinn til a.m.k. eins árs til að njóta kosningaréttar. Þá eiga kosningarétt vígðir starfsmenn á þjónustumiðstöð kirkjunnar sem eru í föstu starfi.

Þegar kemur að leikmönnum hafa aðal- og varamenn í sóknarnefndum kosningarétt sem og allt að sjö fulltrúar úr hverju prestakalli sem valdir eru af sóknarnefnd. Þá eiga þeir kirkjuþingsmenn kosningarétt sem ekki eru í fyrrgreindum hópi.

Samkvæmt reglum sem um biskupskjör gilda skal talning atkvæða hefjast innan sólarhrings frá lokum kosningar. Úrslit ættu því að liggja fyrir ekki síðar en á miðvikudaginn í þarnæstu viku. Hljóti ekkert
biskupsefnið hreinan meirihluta
atkvæða verður kosið á nýjan leik á milli tveggja efstu, eins og fyrr segir. Leiða má líkur að því að sú kosning fari fram fyrstu dagana í maí, ef til kemur.