Magnús Viðar Skúlason
Magnús Viðar Skúlason
Sr. Guðmundur Karl er það sameiningartákn sem þjóðkirkjan þarf inn í framtíðina.

Magnús Viðar Skúlason

Undanfarin ár hefur þjóðkirkjan gengið í gegnum miklar breytingar, í takt við þá samfélagsgerð sem við búum við hér á landi. Við þær aðstæður sem við búum í okkar samfélagi, þar sem hraðinn er mikill, kröfurnar aukast á okkur daglega og álag, streita og kvíði er því miður of oft daglegt brauð, hefur mér fundist gott að geta leitað til kirkjunnar minnar, í það fjölbreytta starf sem þar er í boði.

Fram undan er biskupskjör innan þjóðkirkjunnar. Hér gefst okkur sem meðal annars sitjum í sóknarnefndum tækifæri til þess að nýta þann atkvæðisrétt sem við höfum til að velja biskup þjóðkirkjunnar. Að velja góðan biskup skiptir miklu máli því að í þessu embætti er mikilvægt að sé aðili sem hefur leiðtogahæfileika, er skýr í boðskap sínum og leggur línuna um hver helstu gildi þjóðkirkjunnar eru og hvert erindi hennar er í samfélagi okkar í dag. Einn af þeim prestum sem eru nú í framboði til biskups er sr. Guðmundur Karl Brynjarsson.

Ég kynntist Gumma Kalla, eins og hann oft er kallaður, þegar ég var 13 ára gamall og var í dvalarflokki í Vatnaskógi sumarið 1992. Þetta sumar er um margt eftirminnilegt. Dvölin var skömmu eftir að Ólympíuleikarnir í Barcelona höfðu runnið sitt skeið og eftirminnileg frammistaða draumaliðs Bandaríkjanna í körfubolta hafði vakið heimsathygli. Minna fór fyrir slíkum körfuboltahæfileikum í þessum dvalarflokki en þó voru margir eftirminnilegir borðforingjar sem héldu utan um starfið og sáu um dagskrá flokksins. Að öðrum ólöstuðum þá bar Guðmundur Karl höfuð og herðar yfir aðra í störfum sínum og var samkeppnin þó talsverð hvað varðar hæfileika borðforingja. Boðun hans í verki og tali var augljós. Hann náði athygli allra sem í flokknum voru, hvort sem það var með hugleiðingum sínum eða skemmtiatriðum, og ljóst að sköpunargáfa hans var einstök.

Seinna meir nutum við þess í Kristilegu skólasamtökunum að hafa sr. Guðmund Karl sem skólaprest á vegum Kristilegu skólahreyfingarinnar. Þar fór ekki á milli mála að þar gekk maður á Guðs vegum, valinn í þetta starf og náði eyrum allra sem á hann hlýddu. Það er ekki oft sem maður upplifir það að sjá heilagleika prestsstarfsins og þá alþýðu sem manngæskan sýnir af sér í holdgervingi eins manns.

Það eru þessi einkenni sem ég hef séð í störfum hans sem sóknarprestur í Lindakirkju og hvernig safnaðarstarfið þar hefur vaxið og dafnað og mætt þörfum og væntingum sóknarbarna í hvívetna. Honum hefur tekist að nútímavæða þá þjónustu sem kirkjan stendur fyrir og látið verkin tala í þeim efnum sem og í boðun sinni. Almennt geta margir í kringum okkur sagt ýmislegt og sannfært aðra um ágæti sitt en sjaldnar er að slíkt fólk geti sýnt það í verki fyrir hvað það stendur. Sr. Guðmundur Karl er einn af þeim hafa sannarlega látið verkin tala og það er ekki ögn af efa í mínum huga að hann myndi ná að lyfta starfi þjóðkirkjunnar með sama hætti í embætti biskups.

Í framvarðarsveit þjóðkirkjunnar þurfum við fólk sem er tilbúið að leiða það frábæra starf sem fer fram í kirkjusóknum víða um land. Sr. Guðmundur Karl hefur það sem til þarf og ég er sannfærður um að vegsemd og virðing kirkjunnar muni aukast með þeirri reynslu sem hann hefur fram að færa. Með öflugri forystu sem setur gott fordæmi eru allar líkur á því að vegsemd þjóðkirkjunnar muni eflast og dafna.

Inntak boðskapar þjóðkirkjunnar er kærleikur, umhyggja fyrir þeim sem í kringum okkur eru og að styðja við þá vegferð með þjónandi hætti. Sá boðskapur á fullt erindi í nútímasamfélagi. Það er full þörf á að minna okkur, sem viljum veg þjóðkirkjunnar sem mestan, á að vera ekki hrædd við að minna þau sem í kringum okkur eru á hvert hlutverk kirkjunnar er. Með sr. Guðmund Karl sem biskup veit ég fyrir mitt leyti að ég get óhikað talað fyrir því frábæra starfi sem þjóðkirkjan og söfnuðir hennar standa fyrir.

Starf þjóðkirkjunnar hefur sjaldan verið eins mikilvægt sem ein af grunnstoðunum í okkar samfélagi. Þjóðkirkjan hefur einstakt tækifæri til þess að vera griðastaður í nærumhverfi þar sem við upplifum þá ró og jarðtengingu sem okkur er nauðsynleg. Ég treysti sr. Guðmundi Karli til þess að leiða okkur áfram á þeirri vegferð. Við þurfum öflugan biskup sem sameinar í sér þá reynslu að sinna safnaðarstarfi gagnvart ólíkum aldurshópum, hvort sem það er í þéttbýlinu eða dreifbýlinu. Sameinumst um öflugan valkost – kjósum sr. Guðmund Karl sem næsta biskup.

Höfundur er vörustjóri í upplýsingatækni.