[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á álagspunkti í lífi mínu fyrir nokkrum árum fór ég að mæla stress hjá mér með hjálp tækninnar. Þá kom í ljós að það eru einungis tvær festur í lífi mínu þar sem ég upplifi ávallt fullkomna ró yfir venjulegan dag

Á álagspunkti í lífi mínu fyrir nokkrum árum fór ég að mæla stress hjá mér með hjálp tækninnar. Þá kom í ljós að það eru einungis tvær festur í lífi mínu þar sem ég upplifi ávallt fullkomna ró yfir venjulegan dag. Þegar ég tala við Guðnýju mína og þegar ég les bók. Eftirfarandi bækur hafa allar skilið mig eftir auðmjúkari gagnvart því hversu ótrúlega falleg, djúp og merkileg tilveran getur verið.

When breath becomes air eftir Paul Kalanithi er skrifuð af heilaskurðlækni sem er að segja merkilega sögu um hvernig nútímaheilaskurðlækningar eru að þróast. Við skrif bókarinnar fær Paul sjálfur ólæknandi krabbamein. Bókin breytist því í sögu sjúklings sem þarf að klára lífsferðalag sitt. Konan hans lýkur bókinni eftir andlát hans og bókin er gullfallegt ferðalag sem leyfir lesandanum að snerta dauðann, upplifa vanmátt, styrk og von ásamt því að læra magnaða hluti um heilann.

Hyperion-fjórleikurinn eftir Dan Simmons er merkilegasta safn af skáldsögum sem ég hef lesið. Mörg þúsund blaðsíður um sögu mannkyns í framtíðinni og hvernig gervigreind hefur í raun umbylt allri mannlegri tilveru með því að brjóta niður takmarkanir rúms. Það er verk fyrir betri penna en mig að lýsa þessu stórvirki vísindaskáldsagnanna en í grunninn er þetta ein besta rannsókn sem ég hef fundið á því hvað ást er og mikilvægi hennar í heimi þar sem mannkynið nálgast gnægð af ytri lífsgæðum.

Biblían hefur verið prentuð í yfir fimm milljörðum eintaka og hefur verið mest lesna bók mannkyns á hverri einustu öld í meira en þúsund ár. Það er verðmætur hluti af hinu mannlega ferðalagi að fá að lesa og leita skilnings á aðstæðum okkar í gegnum linsu Biblíunnar eins og milljarðar hafa gert á undan okkur. Fyrir mig er Fjallræða Krists sem er að finna í fimmta til sjöunda kafla Mattheusarguðspjalls merkilegasta ræða allra tíma. Hún hefur haft ómælanleg áhrif á líf mitt.

Imaginary Friend eftir Stephen Chbosky er 700 blaðsíðna hryllingssaga. Bókin hefur meiri dýpt en oft finnst í hryllingssögum og ég stoppaði oft við lestur hennar og sagði upphátt: „Vá, hvað þetta er spennandi.“