[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það geta allir orðið töframenn, þetta er einungis spurning um að vera duglegur að æfa sig,“ segir Gunnar Kr. Sigurjónsson, forseti Hins íslenska töframannagildis, HÍT, en félagið stendur um þessar mundir fyrir sérstöku kynningarátaki í því skyni að fjölga töframönnum hér á landi

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Það geta allir orðið töframenn, þetta er einungis spurning um að vera duglegur að æfa sig,“ segir Gunnar Kr. Sigurjónsson, forseti Hins íslenska töframannagildis, HÍT, en félagið stendur um þessar mundir fyrir sérstöku kynningarátaki í því skyni að fjölga töframönnum hér á landi.

Félagar í HÍT eru um 20 talsins. Þeir sem skrá sig í félagið verða sjálfkrafa meðlimir í stærstu alþjóðasamtökum töframanna, er kallast International Brotherhood of Magicians, IBM. Íslandsdeildin nefnist IBM-hringur 371 og þar er Gunnar jafnframt forseti.

Stofndagur HÍT er skráður 29. febrúar árið 2007. „Sá dagur er í rauninni ekki til, en undirstrikar dulúðina og leyndardóminn sem félagsskapurinn býr yfir,“ segir Gunnar og kímir.

„Þetta er gríðarlega skemmtilegt áhugamál og það er ekki síður gaman að taka þátt í alþjóðastarfinu, því það er á svo stórum skala. Ég var til dæmis á stærstu töfraráðstefnu heims í Blackpool á Englandi nú í febrúar. Þar voru samankomnir vel á fimmta þúsund töframenn frá öllum heimsins hornum,“ segir Gunnar og bætir við:

„Svo er haldin ráðstefna á þriggja ára fresti, þar sem þeir allra bestu keppa í ýmsum flokkum töfrabragðanna, svo sem töfrabrögðum í nálægð, sviðstöfrum, spilatöfrum, hugartöfrum og svona má lengi telja. Hún verður næst í Tórínó á Ítalíu sumarið 2025.“

Fundir í hverjum mánuði

Gunnar segir HÍT vera félagsskap fyrir alla þá landsmenn sem hafa áhuga á töfrabrögðum, ekki aðeins fyrir starfandi töframenn.

„Reyndar er einn töframaður í Færeyjum meðlimur og svo hefur verið rætt um að stofna unglingadeild fyrir krakka frá 12 ára aldri, en gildið er fyrir 18 ára og eldri og fundar mánaðarlega,“ segir hann en næsti fundur HÍT er miðvikudaginn 24. apríl nk. Gunnar segir að um sérstakan kynningarfund sé að ræða, allir séu velkomnir sem áhuga hafa á töfrabrögðum. Hafa þarf samband í gegnum heimasíðu félagsins, toframenn.is, og skrá sig til leiks. Þar er jafnframt hægt að fræðast nánar um HÍT og félagsmenn.

Galdramessur hjá Pétri óháða

Tveir heiðursfélagar eru í HÍT, þeir Baldur Brjánsson og Jón Aðalbjörn Bjarnason, sem ruddu brautina á árum áður. Meðal annarra félagsmanna má nefna séra Pétur Þorsteinsson, prest Óháða safnaðarins. Hann er sérlegur áhugamaður um töfrabrögð og heldur svonefndar galdramessur í kirkjunni tvisvar á ári, við mikla aðsókn.

Að sögn Gunnars heldur HÍT einnig sýningar fyrir almenning og hefur staðið fyrir heimsóknum erlendra töframanna, sem margir eru á heimsmælikvarða. Hafa þeir um leið haldið fyrirlestra hér og tekið þátt í sýningum gildisins, auk þess að hafa mætt á fjarfundi.