Lárus Jón Hér á heimavelli við smábátahöfnina í Hafnarfirði. Hann fór í meistaranám í ritlist á gamalsaldri.
Lárus Jón Hér á heimavelli við smábátahöfnina í Hafnarfirði. Hann fór í meistaranám í ritlist á gamalsaldri. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Þetta kom mjög á óvart, ég átti ekki von á að ég myndi vinna Orkídeuna,“ segir Lárus Jón Guðmundsson rithöfundur, en hann sigraði í samkeppni sem bókaútgáfan Hringaná hleypti af stokkunum á síðasta ári, um Orkídeuna, bestu erótísku skáldsöguna

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þetta kom mjög á óvart, ég átti ekki von á að ég myndi vinna Orkídeuna,“ segir Lárus Jón Guðmundsson rithöfundur, en hann sigraði í samkeppni sem bókaútgáfan Hringaná hleypti af stokkunum á síðasta ári, um Orkídeuna, bestu erótísku skáldsöguna. Saga Lárusar Jóns heitir Júlí, og er lýst sem hispurslausri og skemmtilegri erótískri nóvellu sem fjallar um ungan mann sem einsetur sér að læra til fullnustu listina að gera konur hamingjusamar. Bókin er knöpp, ekki nema um 60 blaðsíður, og útgefendur segja að á sinn hátt sé hún lofsöngur til konunnar.

„Ég tek þátt í öllum keppnum sem eru í boði er varða skriftir, hvort sem það eru ljóð, sögur eða annað og þegar ég sá auglýsinguna í lok maí ákvað ég að slá til, þó skilafresturinn hafi verið fyrsti júlí. Ég hugsaði sem svo, hvers vegna ætti ég ekki að prófa að skrifa erótíska sögu, sem var vissulega svolítið út fyrir þægindarammann. Niðurstaðan var að ég ákvað að takast á við þessa ögrun og það var virkilega gaman. Að verki loknu sendi ég handritið inn og ekki aðeins varð ég hissa þegar ég reyndist hafa sigrað, heldur hafði líka farið fram hjá mér að peningaverðlaun væru í boði. Það var ánægjulegur bónus, ég hélt ég fengi bara orkídeu í verðlaun,“ segir Lárus Jón og hlær. „Þetta var því bara tóm gleði og virkilega gaman að taka þátt.“

Frjálslynd amma áhrifavaldur

Lárus Jón segist ekki hafa skipulagt söguna frá upphafi til enda áður en hann lagði af stað að skrifa hana, hann hafi hvorki ákveðið persónur fyrirfram, bakgrunn þeirra eða neglt niður söguboga.

„Ég byrjaði með því að skrifa fyrstu línuna um þennan tvítuga strák hann Sigurjón, sem sagan hverfist um og leyfði svo því að gerast jafnóðum sem vildi gerast. Ég hafði til dæmis ekki ákveðið í upphafi að í sögunni yrði þessi magnaða amma hans Sigurjóns, sem er frjálslynd kona og framsækin, en opinskáar bækur hennar um kynlíf og samskipti kynjanna eiga stóran þátt í hugmyndum Sigurjóns sem tengjast þeim málum. Þessi skrif mín voru svolítið fríhendis og smám saman urðu til í sögunni ýmsir angar, vinklar og horn, en eftir því sem leið á þá var ég búinn að forma í huganum hvað ætti að gerast, hvernig og til hvers. Reyndar ætlaði ég að hafa söguna lengri, en ég var bundinn af skilafrestinum, og svo fannst mér hún í raun ekki þurfa að vera lengri.“

Forðaðist klisjur og klám

Þegar Lárus Jón er spurður að því hvort hann hafi haft einhverjar fyrirmyndir í huga úr öðrum erótískum bókmenntum, segist hann hafa lifað einhverju lífi á sinni ævi.

„Ég er ekki að segja að þetta sé alfarið byggt á eigin reynslu, en ég veit að það sem ég skrifa um í þessari bók getur alveg gerst. Ég geri strákinn Sigurjón að hálfgerðum ungæðislegum kjána, hann er bara graður strákur og stýrist af því, en konurnar í sögunni eru kannski meiri prímus mótorar en hann. Hann lætur bara berast með straumnum. Í grunninn var ég fyrst og fremst að ögra sjálfum mér með því að takast á við þetta og ég velti vissulega fyrir mér hvort ég gæti skrifað erótíska sögu án þess að fara út í algerar klisjur og klám. Ég held mér hafi tekist að forðast helstu pyttina. Svo fór ég að hafa gaman af þessu og vonandi skilar það sér í léttleika sögunnar, mér fannst gaman að búa til fjölskrúðugt líkingamál í berorðum kynlífslýsingunum. Það var líka gaman fyrir mig, gamla karlinn, að rifja upp hvernig var að vera ungur strákur með kynlíf á heilanum öllum stundum, en málið er að karlar breytast lítið þó þeir eldist. Fátt annað kemst að hjá unglingsstrákum en það sem er á milli lappanna á þeim, svo verða þeir aðeins eldri og seinna enn eldri, en þeir hætta ekkert að hugsa um þetta. Ég verð því miður að játa það, maður er alltaf strákur inni í sér,“ segir Lárus Jón og hlær.

Aðalpersónan Sigurjón vinnur í upphafi sögunnar við að taka upp kartöflur og Jónas yfirmaður hans er svakalega orðljótur, hreytir stanslausum ónotum í piltinn og unga fólkið sem vinnur hjá honum. Þegar Lárus Jón er spurður að því hvort hann þekki af eigin reynslu slíka yfirmenn unglinga, játar hann því.

„Af einhverjum ástæðum er nafnið Jónas í mínum huga erkitýpa fyrir þessa manngerð, en ég var í gamla daga í bæjarvinnu og líka í fiskvinnslu og þar voru allskonar karakterar sem gátu verið mjög orðljótir, en kannski er ég aðeins að ýkja þetta í sögunni. Ég bið alla Jónasa landsins afsökunar á þessu,“ segir Lárus Jón og glottir.

Gaman að fara aftur í skóla

Endir sögunnar er þó nokkuð opinn, þar sem Sigurjón er kominn á nýjar slóðir og býður upp á framhald, ætlar Lárus Jón að skrifa meira um Sigurjón?

„Maður á aldrei að segja aldrei, svo það getur vel verið. Þessi bók heitir Júlí af því hún á sér stað í þeim mánuði, næsta bók gæti kannski heitið Ágúst. Júlí mun koma út hjá Storytel, bæði sem hljóðbók og rafbók, og ef menn koma að máli við mig, eins og er lenska að segja núna, þá er aldrei að vita nema ég skrifi bæði Ágúst og September,“ segir Lárus Jón sem segist hafa farið í meistaranám í ritlist á gamalsaldri.

„Ég hef alltaf haft áhuga á því að skrifa, ég skrifaði ljóð og samdi vísur sem unglingur, en svo fór ég út í praktískt nám, lærði sjúkraþjálfun og vann líka í 23 ár hjá Íslenskri erfðagreiningu. Meðan ég var þar fór ég í ritlistarnámið og gerði það meðfram vinnu. Ég útskrifaðist 2018, en það er mjög gaman að fara aftur í skóla og mennta sig meira, alveg sama á hvaða aldri maður er,“ segir Lárus Jón, en fyrsta skáldsaga hans, Höfuðlausn, kom út sl. haust. Áður hafði hann gefið út fjórar bækur, Fröken Kúla könguló og fleiri kvæði, sem er kvæðabók fyrir börn, og ljóðabækurnar Í Lárusarhúsi, Ljúflingsljóð og Flekaskil.