Sameinar Viveca Sten sameinar hið góða og illa á skemmtilegan hátt.
Sameinar Viveca Sten sameinar hið góða og illa á skemmtilegan hátt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spennusaga Yfirbót ★★★★· Eftir Vivecu Sten. Elín Guðmundsdóttir þýddi. Kilja. 458 bls. Ugla 2024.

Bækur

Steinþór Guðbjartsson

Glæpasagnahöfundurinn Viveca Sten var tilnefnd til sænsku glæpasagnaverðlaunanna fyrir Yfirbót, sem er þriðja bókin í ritröðinni Morðin í Åre. Sagan gerist um páska 2021, er spennandi og tikkar í mörg box frá kærleika niður í afkima viðbjóðslegustu glæpa og haturs.

Bækurnar í flokknum gerast á þekktu skíða- og útivistarsvæði, þar sem fegurðin blasir við hvert sem litið er og lífið er slétt og fínt, en ekki er allt sem sýnist. Vandamálin eru mörg og ekki bætir úr skák að lögreglumennirnir Hanna og Daníel eru í tilfinningalegum rússíbana, sem truflar þau í vinnunni og hefur áhrif á heimilislífið.

Charlotte Wretlind áformar að rífa hótel sitt, sem er í niðurníðslu í Storlien í Svíþjóð, og reisa nýtt og stærra á sama stað fyrir fræga og fína fólkið. Sveitarstjórnin er því andsnúin og á netinu er síðan „Verndum Storlien“, þar sem hatursfullur hópur berst gegn hugmyndinni og lætur Charlotte heyra það. Hún er myrt áður en taka á ákvörðun um framhaldið og þá kemur til kasta fyrrnefndra lögreglumanna.

Sagan hverfist meðal annars um margvíslega misbeitingu á konum og afleiðingar misgjörðanna. Ungri konu er nauðgað og henni kennt um. Öllum er sama. Meira en hálfri öld síðar tekur erlend kona aukavakt vegna þess að hún þorir ekki að segja nei og sér ekki sólina framar. Hún freistar gæfunnar í ókunnugu landi, þar sem hún trúir að hlutirnir séu betri en í heimalandinu en annað kemur á daginn.

Skapferli karla er einnig umhugsunarefni, hvernig sumir missa stjórn á skapi sínu og hvaða afleiðingar það hefur. Daníel er sá eini sem vill vinna í sínum málum en meðferðinni er ekki lokið.

Mjúku málin vega upp á móti ofbeldinu og fá sitt rými. Hanna gerir endalaust hosur sínar grænar fyrir Daníel en hefur stjórn á sér og vill ekki ganga of langt. Sömu sögu er að segja af Antoni, sem sér ekki sólina fyrir Carl, en er broslega klaufskur í samskiptum.

Þegar allt kemur til alls virðist skjólið vera best og öruggast hjá heimilisdýrunum. Þau sýna ekkert nema blíðu og vilja vera hjá sínum, hvað sem tautar og raular. Viveca Sten sameinar hið góða og illa á skemmtilegan hátt.