Fyrsti þingfundur eftir páskafrí hófst klukkan 15 í gær og var ekki tíðindalítill. Katrín Jakobsdóttir sagði af sér þingmennsku, lögð var fram vantrauststillaga og var fundi svo slitið snögglega. Fyrsta mál á dagskrá var óundirbúinn fyrirspurnatími

Fyrsti þingfundur eftir páskafrí hófst klukkan 15 í gær og var ekki tíðindalítill. Katrín Jakobsdóttir sagði af sér þingmennsku, lögð var fram vantrauststillaga og var fundi svo slitið snögglega. Fyrsta mál á dagskrá var óundirbúinn fyrirspurnatími.

Fundinum var þó slitið eftir aðeins fimm mínútur. Ástæða þess að þingfundi var slitið snemma var sú að það var mat þingforseta að það væri skynsamlegt í ljósi aðstæðna. „Það eru í gangi viðræður á milli stjórnarflokkanna akkúrat í augnablikinu sem hafa kannski ekki enn þá leitt til neinnar niðurstöðu,“ sagði Birgir Ármannsson þingforseti í samtali við Morgunblaðið í kjölfar þingfundar.

Birgir las í upphafi fundarins upp bréf frá Katrínu Jakobsdóttur þar sem hún sagði af sér þingmennsku frá og með deginum í gær.

„Með þessu bréfi segi ég af mér þingmennsku í ljósi þess að ég hef nú boðið mig fram til embættis forseta Íslands. Ég þakka forseta þingsins, þingmönnum og öllu starfsfólki þingsins gott samstarf undanfarin 17 ár og óska ykkur öllum velfarnaðar í ykkar mikilvægu störfum.“

Eva Dögg Davíðsdóttir mun taka sæti Katrínar sem fyrsti varaþingmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún er þó búsett í Þýskalandi og mun þurfa nokkra daga til að koma sér fyrir á Íslandi áður en hún tekur sæti.

Af þeim sökum mun René Biasone sem er annar varaþingmaður VG í Reykjavík norður taka sæti á þingi fyrst um sinn.

Þá lagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fram vantrauststillögu á hendur Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í annað sinn. Ekki liggur fyrir hvort Inga dregur tillöguna til baka fari Svandís í annað ráðuneyti.

Öllum nefndarfundum á Alþingi sem áttu að fara fram hefur verið frestað, að undanskildum fundi hjá framtíðarnefnd. Óljóst er hvernig dagurinn í dag spilast en þingfundur á að hefjast klukkan 13.30.

Birgir sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann stefndi á að funda með þingflokksformönnum fyrir hádegi í dag til að ræða dagskrá þingfundarins. hng@mbl.is