Smiðja Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis skoðaði listaverk Kristins utan á byggingunni í gær.
Smiðja Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis skoðaði listaverk Kristins utan á byggingunni í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Listaverkið Allt leiddi til þessarar stundar eftir Kristin E. Hrafnsson myndlistarmann sem er við anddyri Smiðju við Vonarstræti, nýrrar byggingar Alþingis, var sett upp um helgina. Allt í byggingunni er nú að verða tilbúið og listskreyting er nauðsynlegur hluti af því

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Listaverkið Allt leiddi til þessarar stundar eftir Kristin E. Hrafnsson myndlistarmann sem er við anddyri Smiðju við Vonarstræti, nýrrar byggingar Alþingis, var sett upp um helgina.

Allt í byggingunni er nú að verða tilbúið og listskreyting er nauðsynlegur hluti af því. Texti verður svo settur upp á vegg nærri listaverkinu innan tíðar og þar mun heiti verksins standa.

„Þetta listaverk er hluti af byggingunni; pendúll eða jafnvægisstöng sem situr á veltigrind sem hægt er að hreyfa, sambærileg þeim sem er í kompás á bátum. Pendúllinn sveiflast en að lokum kemst á jafnvægi. Hugsunin með verkinu mun vera sú að allt í tilverunni leiti jafnvægis sama á hverju gengur,“ segir Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis spurð um verkið góða.

„Mér sýnist listaverkið sóma sér vel þarna,“ segir Kristinn E. Hrafnsson í samtali við Morgunblaðið.

Hann tekur þó fram að þetta sé aðeins fyrsti hlutinn af stærri heild. Textaverk, hornsteinn byggingarinnar og fleira verði einnig í anddyrinu, en allt séu þetta verk sem hann komi að því að móta. „Þetta hefur verið langt ferli, sjö og hálft ár,“ segir Kristinn sem tók á sínum tíma þátt í samkeppni með arkitektum Skála, byggingar sem svo sannarlega setur svip sinn á Alþingisreitinn og í raun Kvosina alla.