Líknardeild Í umsögn hvetur landlæknir til meiri og dýpri umræðu um takmarkanir á meðferð við lok lífs og um líknarmeðferð í heild sinni.
Líknardeild Í umsögn hvetur landlæknir til meiri og dýpri umræðu um takmarkanir á meðferð við lok lífs og um líknarmeðferð í heild sinni. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Embætti landlæknis hefur haft í undirbúningi að koma á laggirnar svokallaðri lífsskrá, miðlægri skráningu, þar sem fólk getur greint frá vilja sínum og óskum um meðferð við lífslok.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Embætti landlæknis hefur haft í undirbúningi að koma á laggirnar svokallaðri lífsskrá, miðlægri skráningu, þar sem fólk getur greint frá vilja sínum og óskum um meðferð við lífslok.

Í umsögn embættisins við frumvarp fimm þingmanna Viðreisnar um að dánaraðstoð verði heimiluð, sem nú er til meðferðar á Alþingi, greinir Kjartan Hreinn Njálsson aðstoðarmaður landlæknis frá því að til þess að unnt sé að koma á fót miðlægri skráningu í lífsskrá þurfi hún að fá lagastoð, sem heilbrigðisráðherra vinni nú að. „Líklegt er að skráningin og undanfarandi samtal, muni auka til muna gæði meðferðar við lok lífs,“ segir í umsögninni.

Landlæknisembættið lýsir ekki stuðningi við að dánaraðstoð verði heimiluð á Íslandi eins og lagt er til í frumvarpinu og segir að áður en slík lagasetning sé rædd, þurfi að fara fram mun meiri og dýpri umræða í samfélaginu um málefnið og siðferðileg álitaefni því tengd. Byrja ætti á að hvetja til umræðu um dauðann, um takmarkanir á meðferð við lífslok og um líknarmeðferð í heild sinni.

„Með takmörkunum við lok lífs er átt við hvaða meðferð vilja einstaklingar þiggja eða ekki og hvaða meðferð stendur til boða, þegar lífslok nálgast. Má þar nefna gjörgæslumeðferð, meðferð í öndunarvél, stórar skurðaðgerðir, blóðskilun, endurlífgun og fleira. Slíkar ákvarðanir þarfnast vandaðs og tímanlegs samtals, milli sjúklingsins sjálfs og ástvina hans annars vegar og lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks sem kemur að meðferð, hins vegar. Til skráningar á slíku samtali og ákvörðunum þarf að koma á laggirnar miðlægri skráningu, svokallaðri lífsskrá,“ segir í umsögn landlæknisembættisins.

Landlæknir gaf fólki um árabil kost á að fylla út eyðublað á svonefndri lífsskrá með yfirlýsingu um óskir sínar varðandi meðferð í aðdraganda lífsloka við aðstæður þegar það sjálft getur ekki tekið þátt í ákvörðunum vegna andlegs eða líkamlegs ástands.

Embættið hélt sérstaka gagnaskrá vegna þessa en verkefninu var hins vegar hætt í ársbyrjun 2015. Voru ástæður þess að lífsskráin var lögð niður m.a. þær að ljóst væri að óskir einstaklinga um meðferð við lífslok gætu breyst í tímans ráð og því hefði viljayfirlýsing á einum tímapunkti ekki endilega sama vægi síðar.

Verði aðgengileg á Heilsuveru

Fyrir nokkrum árum greindi Alma D. Möller landlæknir frá því í frétt í Morgunblaðinu að uppi væru áform um að endurvekja lífsskrána með rafrænum hætti á vefnum heilsuvera.is. Með því að hafa lífsskrána rafræna gæti fólk breytt skráningu ef aðstæður og óskir breyttust.

Fram kom í fimm ára aðgerðaáætlun um líknarþjónustu sem heilbrigðisráðuneytið gaf út 2021 að stefnt væri að því að upplýsingar um vilja sjúklingar yrðu aðgengilegar viðbragðs- og umönnunaraðilum með lífsskrá í Heilsuveru og meðferðarstig yrðu skráð í Sögukerfinu.

Í umsögn landlæknis um frumvarpið um dánaraðstoð er bent á að líknarmeðferð sé orðin að sérgrein innan læknisfræðinnar sem stöðugt fleygi fram. Efla þurfi hana og kynna.

„Í langflestum tilfellum er nú hægt að veita fullnægjandi líknarmeðferð þannig að einstaklingur fái lifað og dáið með reisn. Til eru góðar leiðbeiningar um líknarmeðferð sem og skýrsla um framtíðarskipan líknarþjónustu á Íslandi þar sem fram koma tillögur sem vinna þarf að. Þetta eru brýn mál til úrlausnar áður en farið er að ræða dánaraðstoð,“ segir í umsögninni.

33 umsagnir til Alþingis

Skiptar skoðanir á frumvarpi

Alls hafa 33 umsagnir borist velferðarnefnd Alþingis um frumvarp þingmanna Viðreisnar um dánaraðstoð. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu er þar kveðið á um að heimila einstaklingum sem glíma við ólæknandi sjúkdóm og búa við ómeðhöndlanlega og óbærilega þjáningu að þiggja dánaraðstoð. Jafnframt verði læknum heimilað, að nánari skilyrðum uppfylltum, að veita slíka aðstoð.

Er frumvarpið að mestu byggt á sambærilegum ákvæðum í hollenskum lögum um dánaraðstoð og bent er á að dánaraðstoð hafi verið heimiluð í nokkrum löndum í Evrópu, Suður-Ameríku, Eyjaálfu og ýmsum ríkjum Bandaríkjanna.

Skoðanir eru mjög skiptar á því í umsögnunum hvort heimila eigi dánaraðstoð. Fjöldi einstaklinga lýsir stuðningi við það, læknar eru ekki á einu máli hvað þetta varðar og Félag ísl. hjúkrunarfræðinga segir umræðuna of stutt á veg komna til að skynsamlegt sé að lögleiða dánaraðstoð að svo stöddu.

Höf.: Ómar Friðriksson