Stórfjölskyldan Guðni og Margrét ásamt dætrum, tengdasonum og barnabörnum.
Stórfjölskyldan Guðni og Margrét ásamt dætrum, tengdasonum og barnabörnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Ágústsson fæddist 9. apríl 1949. „Ég fæddist inn í afar stóran systkinahóp – alls vorum við sextán, tólf bræður og fjórar systur. Öll vorum við fædd heima á Brúnastöðum nema yngsti bróðirinn sem fæddist á Sjúkrahúsinu á Selfossi

Guðni Ágústsson fæddist 9. apríl 1949.

„Ég fæddist inn í afar stóran systkinahóp – alls vorum við sextán, tólf bræður og fjórar systur. Öll vorum við fædd heima á Brúnastöðum nema yngsti bróðirinn sem fæddist á Sjúkrahúsinu á Selfossi. Arndís amma okkar var ljósmóðir og kom til mömmu og tók á móti okkur. Ég man ekki eftir öðru en skemmtilegu lífi sem barn og unglingur, en geri mér grein fyrir að það hlýtur að hafa reynt mikið á foreldra mína að koma sextán krökkum til manns þannig að sómi væri að. Það má segja að móðir mín hafi verið með heilan leik- og grunnskóla í eldhúsinu heima en við fæddumst á einungis tuttugu og einu ári.

Rafmagnið kom að Brúnastöðum árið 1954 og í framhaldinu vélar sem léttu foreldrum mínum handtökin. Hvernig mamma fór að öllu því sem hún afrekaði er okkur hulin ráðgáta. Jafnframt var faðir minn forystumaður í sinni sveit og mikið í félagsmálum og var m.a. kosinn á Alþingi 1956 þegar þrettán börn voru fædd. Við systkinin fórum snemma að hjálpa til við bústörfin og á okkur hvíldi ábyrgð og vinnuskylda eins og handmjaltir í fjósi og svo vorum við þátttakendur í öllum verkum og þau eldri strax fullorðin og hjálpsöm.

Mín gæfa var sú að fermingarárið mitt var ég sendur í Héraðsskólann á Laugarvatni. Það var á við herskyldu, dásamleg ár sem gerðu mann að fullgildum manni. Þarna voru góðir kennarar og strangt líf en mikil umbrot æskunnar. Óskar Ólafsson kennari minn, sem enn lifir í hárri elli, setti mig strax í hlutverk í upplestri, þá þegar talaði ég skýrum karlarómi. Svo lék ég Lykla-Pétur og Jón Hreggviðsson á árshátíðum sem var mikil frumraun. Fullnuma varð ég svo í leiklist hjá Eyvindi Erlendssyni sem setti upp Nýársnóttina í Flóanum og lék ég Svart þræl með tilþrifum og drap álfakónginn og er hvarf hans af sviðinu enn ráðgáta Árnesinga.

Ég sá byltingu æskunnar og var í hópi ungs fólks sem krafðist frelsis og fylgdi Bítlatísk-unni, við litla hamingju Benedikts skólastjóra og foreldra ungdómsins á þessum tíma. Enn heyri ég hljóma í hlustum mínum sum þessara laga þegar við gengum um götur Laugarvatns á regnvotu kvöldi og Bítlarnir og Rolling Stones bergmáluðu frá fjallinu. Svo lá leiðin að Hvanneyri í búfræðinám þar sem voru enn „fangabúðir“ með ströngum aga og rígfullorðnir menn læstir inni á nóttunni. Uppreisnin hélt áfram með uppákomum sem lifa í minningunni. Að námi loknu tók ég að vinna og taka þátt í félagsmálum ungs fólks, þar með pólitíkinni. Ég þótti bæði harðvítugur og brúkaði kjaft sem styrkti mig til frama og fyrst talaði ég á framboðsfundi 1974 og náði fyrirsögninni í Vísi. En starfið með ungum framsóknarmönnum þar sem Baldur Óskarsson og Ólafur Ragnar Grímsson fóru fyrir liði varð skóli út af fyrir sig. Með mér og Möðruvellingum urðu vinslit um sinn, ég varð þátttakandi með öflugu ungu fólki og við byggðum upp SUF-æskuna á ný.

Ekkert starf varð mér jafn gefandi eins og að verða mjólkureftirlitsmaður hjá Mjólkurbúi Flóamanna. Ég ferðaðist um allt Suðurland og varð heimagangur hjá frábæru sveitafólki sem verðlaunaði mig síðar með þingmennskunni sem hafði snemma orðið áhugamál og æfði ég ræður mínar sem barn og unglingur yfir systkinum mínum heima á Brúnastöðum. Þessi tengsl mín við sveitirnar hafa fylgt mér alla tíð og enn þann dag í dag læt ég engin tækifæri til þess að leggja orð í belg um íslenskan landbúnað fram hjá mér fara. Bændur hafa loksins náð eyrum þjóðarinnar í kröfum sínum um laun fyrir lífi – sínu eigin og íslensku sveitanna – og enginn dregur lengur í efa að þeir standi í fylkingarbrjósti hágæðaframleiðslu og fæðuöryggis í landinu.

Þegar ég var kosinn á Alþingi 1987 voru þar enn allmargir sem höfðu setið á þingi með föður mínum og erfði ég vináttu þeirra. Þetta voru skemmtileg ár og mikil reynsla sem ég öðlaðist. Svo komu landbúnaðarráðherraárin með þeim árangri að ánægjuvogin með störf mín stóð jafnan hátt og landbúnaðurinn blómstraði á þessum árum. Það hjálpaði mér mjög í pólitíkinni að þeir feðgar Árni og Magnús Bjarnfreðsson kenndu mér vel á fjölmiðla og Steingrímur Hermannsson sagði við mig: „Geymdu aldrei fréttamann yfir nótt, hafðu samband strax og gerðu þetta fólk bara að vinum þínum.“ Faðir minn sagði: „Vertu aldrei rætinn eða ódrengilegur við pólitíska andstæðinga, þeir geta orðið þér mikilvægari en þínir eigin samflokksmenn.“ Nú búum við Margrét á Selfossi, í fallegasta miðbæ á Íslandi, og eigum svo okkar sveitasetur. Ég hef ritað nokkrar bækur og er þakklátur fyrir að pólitíkin skilaði mér heilum heim.“

Fjölskylda

Eiginkona Guðna er Margrét Hauksdóttir, f. 3.4. 1955. Foreldrar hennar voru hjónin Haukur Gíslason, bóndi og hreppstjóri á Stóru-Reykjum í Flóa, f. 1920, d. 2002, og Sigurbjörg Geirsdóttir, f. 1932, d. 2018, húsfreyja.

Dætur Margrétar og Guðna eru: 1) Brynja, f. 7.3. 1973, maki: Auðunn Sólberg Valsson, f. 1964. Börn: Guðni Valur, f. 2000; Salka Margrét, f. 2002; Óliver Tumi, f. 2005; sonur Auðuns og Þórdísar Jónu Sigurðardóttir er Jökull Sólberg, f. 1986; sonur Jökuls og Magneu Einarsdóttur er Rökkvi Sólberg, f. 2010. Eiginkona Jökuls: Sunna Björg Gunnarsdóttir, f. 1992, börn: Unnar Sólberg og Adríana Björg; 2) Agnes, f. 20.11. 1976. börn: Freyja, f. 2003. Snorri, f. 2006. barnsfaðir: Guðni Vilberg Björnsson, f. 1979; 3) Sigurbjörg, f. 15.4. 1984. Maki: Arnar Þór Úlfarsson, f. 1980. Börn: Eva, f. 2012, og Eik, f. 2015.

Systkini Guðna: Ásdís, f. 1942; Þorvaldur, f. 1943; Ketill Guðlaugur, f. 1945; Gísli, f. 1946, d. 2006; Geir, f. 1947, d. 2022; Hjálmar, f. 1948; Auður, f. 1950; Valdimar, f. 1951; Bragi, f. 1952; Guðrún, f. 1954; Tryggvi, f. 1955; Þorsteinn, f. 1956, d. 2019; Hrafnhildur, f. 1957; Sverrir, f. 1959; Jóhann, f. 1963.

Foreldrar Guðna voru hjónin Ágúst Þorvaldsson, f. 1.8. 1907, d. 12.11. 1986, bóndi og alþingismaður á Brúnastöðum í Flóa, og Ingveldur Ástgeirsdóttir, f. 15.3. 1920, d. 6.8. 1989, húsfreyja.