Borgarfjörður Nýja veiðihúsið við Andakílsá verður tilbúið til að taka við veiðimönnum í sumar.
Borgarfjörður Nýja veiðihúsið við Andakílsá verður tilbúið til að taka við veiðimönnum í sumar. — Ljósmynd/Veiðifélag Andakílsár
Í vetur hefur verið unnið að byggingu nýs veiðihúss við Andakílsá í Borgarfirði, en veiðifélag árinnar stendur að byggingunni. Að sögn Ragnhildar Helgu Jónsdóttur formanns veiðifélagsins er um að ræða 168 fermetra timburhús sem hannað er af Ómari Péturssyni hjá Nýhönnun

Birna G. Konráðsdóttir

Borgarfirði

Í vetur hefur verið unnið að byggingu nýs veiðihúss við Andakílsá í Borgarfirði, en veiðifélag árinnar stendur að byggingunni.

Að sögn Ragnhildar Helgu Jónsdóttur formanns veiðifélagsins er um að ræða 168 fermetra timburhús sem hannað er af Ómari Péturssyni hjá Nýhönnun. PJ byggingar á Hvanneyri sjá um framkvæmdina og er ráðgert að húsið verði tilbúið í byrjun júní og ekki annað að sjá en svo verði.

Með nýju veiðihúsi batnar aðstaða veiðimanna til muna og verður allur umbúnaður hinn ákjósanlegasti og eins og best gerist við viðlíka ár. Gert er ráð fyrir því að þeir sem dvelja í húsinu sjái sjálfir um eldamennsku en greiði fyrir þrif. Áin er tveggja stanga en í húsinu eru fjögur svefnherbergi, sem hvert og eitt er með sérbaðherbergi.

Áin uppseld í sumar

Í stóru alrými er, að sögn Ragnhildar, lögð sérstök áhersla á gott útsýni til fjallanna í suðri; Skarðsheiðar, Brekkufjalls, Tungukolls og Hafnarfjalls, auk þess sem sjá má yfir stærstan hluta laxveiðisvæðis árinnar.

Aðspurð segir Ragnhildur að veiðileyfin hafi verið hækkuð ögn einfaldlega vegna þess að veiðimenn fái nú betri aðstöðu en fyrr. Sala veiðileyfa hefur gengið glimrandi vel, áin er uppseld fyrir komandi sumar og hefst veiðin 20. júní.