Óstöðvandi Danielle Rodríguez fór á kostum fyrir Grindavík í fyrsta leik einvígisins við Þór frá Akureyri í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í gær.
Óstöðvandi Danielle Rodríguez fór á kostum fyrir Grindavík í fyrsta leik einvígisins við Þór frá Akureyri í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Njarðvík er komin í 1:0 í einvígi sínu gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Vals í átta liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta eftir sérlega sannfærandi 96:58-sigur í fyrsta leik liðanna í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gærkvöldi

Njarðvík er komin í 1:0 í einvígi sínu gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Vals í átta liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta eftir sérlega sannfærandi 96:58-sigur í fyrsta leik liðanna í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gærkvöldi.

Stefndi í spennandi leik eftir fyrsta leikhlutann, sem Njarðvík vann 18:17. Sú varð hins vegar ekki raunin því staðan fyrir fjórða leikhlutann var 76:38, en Njarðvík komst mest 45 stigum yfir í stöðunni 76:31. Var fjórði leikhlutinn formsatriði fyrir meistarana frá því fyrir tveimur árum.

Selena Lott lék afar vel fyrir Njarðvík og skoraði 26 stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Isabella Ósk Sigurðardóttir og Emile Hessedal gerðu báðar 14 stig. Tók sú fyrrnefnda tíu fráköst og sú danska ellefu. Eydís Eva Þórisdóttir kom sterk af bekknum hjá Val og skoraði 14 stig.

Þá er Grindavík komin í 1:0 gegn Þór frá Akureyri eftir 94:87-sigur í Smáranum, þar sem Grindavík hefur komið sér vel fyrir á nýjum heimavelli sínum. Þór var með 28:24-forskot eftir fyrsta leikhlutann en Grindavík svaraði með sterkum öðrum og þriðja leikhluta. Var staðan fyrir fjórða leikhlutann 74:63 og tókst Þór ekki að jafna í lokaleikhlutanum.

Danielle Rodríguez átti stórleik fyrir Grindavík, skoraði 37 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar. Hin danska Sarah Mortensen var lítið síðri, skoraði 31 stig og tók 12 fráköst. Eva Wium Elíasdóttir skoraði 23 stig fyrir Þór og Madison Sutton 18.