Í Vísnahorni 6. febrúar var þessi staka en höfundarnafns ekki getið. Hún er eftir Pál Jónasson í Hlíð: Þótt ég virðist í speglinum ungur enn við athugun nánar verður það ekki hrakið að Elli kerling í glímu mig sigrar senn því svoleiðis kvensu leggur víst enginn á bakið

Í Vísnahorni 6. febrúar var þessi staka en höfundarnafns ekki getið. Hún er eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Þótt ég virðist í speglinum ungur enn

við athugun nánar verður það ekki hrakið

að Elli kerling í glímu mig sigrar senn

því svoleiðis kvensu leggur víst enginn á bakið.

Ég hitti karlinn á Laugaveginum og spurði hvernig liði. Hann svaraði:

Svona er þessi sannleiki

ég segi þér í einlægni

að mér er ekki ætlandi

að ætla að verða forseti.

Kristján H. Theodórsson yrkir:

Kapteinn sér frá borði brá,

er braka tók í reiða.

Nýja skútu ætlar á,

aðra fiska að veiða.

Hjörtur Benediktsson yrkir:

Líða dagar við leik og störf

líður senn að kveldi.

Hjá mér leynist lítil þörf

að liggja undir feldi.

Ég sá tvær lóur hér á Seltjarnarnesi fyrir viku, en við skulum vona að ekki fari svona fyrir þeim. Hallmundur Kristinsson orti:

Vesalings litla Lóa

laumaðist út í móa.

Eignaðist ást

sem óðara brást.

Úti er alltaf að snjóa.

Vor eftir Þórarin Eldjárn

Kraminn hanski

á gangstétt

gerir sigurtákn

nýkominn undan skafli:

V

Vor!

Steindór Tómasson yrkir:

Vorið boðar vinurinn,

vekur gleði þíða.

Tiplar fimur tjaldurinn,

á teig með sönginn stríða.

Magnús Halldórsson yrkir Við rismál:

Í lofti ómar þrasta þvarg,

þar má greina fleira.

Meira'að segja máfagarg,

mátti líka heyra.

Stefán B. Heiðarsson er í sólskinsskapi:

Lifnar yfir börn og bú

er birtist lítil dúfa.

Bjarta sólin brosir nú

með brosi sínu ljúfa.