Margrét Fanney Guðmundsdóttir
var fædd á Hóli í Bolungavík 17. júlí 1941. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 1. mars 2024.

Hún var dóttir hjónanna Guðmundar Magnússonar, f. 10. mars 1912, d. 4. mars 1984, bónda á Hóli í Bolungavík og Kristínar
Bergljótar Örnólfsdóttur húsfreyju, f. 27. ágúst 1915, d. 24. febrúar 2010. Margrét var næstelst 5 systkina á Hóli. Þau eru Helga, f. 1940, Bárður, f. 1943, Karitas Magný, f. 1945 og Örnólfur, f. 1947.

Margrét giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Karli Gústaf
Smith, þann 5. desember 1964. Þau eignuðust tvær dætur, Auði, f. 25. febrúar 1966 og Soffíu Björk, f. 11. apríl 1970. Eiginmaður Auðar er Jóhann Arnarson frá Bolungavík og börnin þeirra eru: a) Oktavía, f. 1993, maki hennar er Víðir Örn Guðmundsson. Börn þeirra eru Anika, f. 2020 og Ernir, f. 2022, b) Karólína, f. 1995, maki Michael Pearson, f. 1996. c) Arnaldur, f. 2007.

Soffía Björk á soninn Salvar Karl, f. 2007.

Margrét, eða Gréta á Hóli eins og hún var ætíð köllluð, ólst upp í Bolungavík. Eftir almenna skólagöngu var hún í Héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði og eignaðist þar ævilanga vini.

Hún fór ung til Noregs og þaðan til Englands í nám og vinnu. Eftir það fór hún til Kaupmannahafnar og útskrifaðist sem snyrtifræðingur frá Inger Dreyer-snyrtifræðiskólanum árið 1963. Eftir heimkomuna lauk hún einnig sérhæfðu námi í fótaaðgerðafræðum. Hún starfaði á ýmsum snyrtistofum og stofnaði loks sína eigin, en varð frá að hverfa sökum heilsubrests.

Þau Kalli og Gréta héldu heimili ásamt tveimur dætrum sínum, lengst af í Vesturbæ Reykjavíkur. Gréta var mikil húsmóðir og lagði mikla alúð í öll sín störf. Hún var mikil fjölskyldukona, lagði alla sína krafta í uppeldi dætranna og var ávallt til staðar fyrir þá sem á þurftu að halda.

Síðustu árin urðu Margréti erfið, þar sem heilsubrestur hennar vegna parkinsons-sjúkdómsins jókst jafnt og þétt. Hún dvaldist síðustu tvö árin á hjúkrunardeild Sunnuhlíðar í Kópavogi.

Útför hennar hefur farið fram.

Sumt fólk er svo samofið æsku manns og minningum að árin fá engu um það þokað. Kalli og Gréta eru í þeim hópi. Ég man ekki eftir mér öðruvísi en að þau væru nærri og fáa óskylda get ég nefnt sem voru betri við mig í uppvextinum en þau – og allar götur síðan. Kalla hittum við nær daglega og alltaf hafði hann stund til að tala við okkur krakkana, léttur í lund og þolinmóður, forvitinn og fræðandi, uppörvandi og hvetjandi. Og þar sem Kalli var, þar var Gréta.

Þau voru glæsilegt par, eins og kvikmyndastjörnur. Hún einstaklega falleg, dökk yfirlitum og með ljóst litarhaft; hárið svart og greitt upp, þegar ég man fyrst eftir þeim, alltaf vel til höfð og klædd samkvæmt nýjustu tísku, fötum sem hún hefur örugglega saumað sjálf. Gréta var ráðagóð og flink í sínu starfi, skemmtileg og með beittan húmor. Kalli var borgarbarn, en hún ættuð úr Bolungarvík og vestur fóru þau í reisur sem mér fundust ævintýralegar. Þegar dæturnar fæddust voru tengslin innsigluð í næstu kynslóðir, Auður á sama ári og Ólöf, og Soffía og Marta réttum fjórum árum síðar.

Gréta tók alltaf fagnandi á móti okkur þegar við birtumst í dyragættinni, hvort sem var í bænum eða í sumarbústaðnum. Vináttan og væntumþykjan sem kviknaði í æsku hefur haldist traust og hlý alla ævi og þau reyndust foreldrum mínum sannir vinir til hins síðasta. Fyrir allt þetta og miklu meira er nú þakkað.

Guðrún Nordal.

Með sorg í hjarta kveð ég Grétu, kæran herbergisfélaga frá Núpsskóla veturinn 1956-57. Við Gréta vorum í tveggja manna herbergi seinni hluta vetrarins og lásum undir landspróf. Herbergið okkar hét Draumalandið. Það var mikil lífsreynsla fyrir óharðnaðan ungling að fara á Héraðsskólann á Núpi. Á Núpi blönduðust saman unglingar af Vestfjörðum og af suðvesturhorninu. Sumir komu til þess að læra, aðrir voru sendir þangað til að mannast.

Ég fann strax að það var annar bragur yfir krökkunum að vestan. Þau þekktu harðan vetur og einangrun. Við sunnankrakkarnir vorum eins og kálfar i girðingu. Sunnankrakkarnir komu með nýjustu plöturnar og sumir reyktu. Ég fann fljótt hvað Gréta var einstaklega ljúf og traust enda komin af gegnheilu fólki frá Hóli í Bolungarvík. Á kvöldin lásum við saman og reyndum að undirbúa okkur sem best fyrir tímana. Stelpurnar þorðu þá ekki að æmta eða skræmta á herbergjunum á kvöldin því séra Eiríkur skólastjóri var kominn á kvennaloftið að passa okkur fyrir strákunum. En stundum þurfti hann að nota annan til að gæta loftsins. Stelpurnar kölluðu hann mr. Plump. Mr. Plump lá oft á hleri við herbergisdyrnar. Þegar það lá í loftinu rifu stelpurnar upp hurðina og datt þá mr. Plump gjarnan inn. Í tungumálatímum var til siðs að nemendur sem teknir voru upp voru látnir sitja við borð sem stóð við púlt skólastjórans.

Séra Eiríkur horfði þá niður á nemandann, stundum leiðrétti hann villur, stundum ekki. En þegar yfirferðinni lauk kom dómurinn.

Látum þetta draslast sagði presturinn eða látum þetta bara druslast. Nemendur gengu þá lúpulegir í sæti sitt. Nokkrir strákar sóttu í að leiða stelpur úti á kvöldin og reyna að teyma þær bak við hús. Stundum tókst það, stundum ekki. En á kvöldin voru svo strákamálin krufin á kvennaloftinu.

Sumir fengu góðar umsagnir, aðrir ekki. Svo fóru stelpurnar í andaglas til að sjá hvort þessi eða þessi passaði þeim.

Við Gréta áttum fullan trúnað hvor annarrar. Þegar við kvöddumst til heimferðar eftir prófin skrifaði hún í minningabók mína: Dröfn, mín kæra vinkona, mundu mig ævinlega. Ég man þig.

Já, við ætluðum svo sannarlega að muna hvor eftir annarri. En þegar skóla lauk og hver fór til síns heima breyttist allt. Við Gréta hittumst ekki aftur fyrr en Núpsfélagar fóru að hittast í kaffi nokkrum sinnum á vetri fyrir rúmum áratug. Þá var það eins og tíminn hefði staðið í stað. Við settumst ávallt niður hlið við hlið og það var rétt eins og við hefðum hist í gær. Strengurinn á milli okkar var svo ótrúlega sterkur.

En nú seinni árin þegar veikindi fóru að sækja á Grétu og hún var komin í Sunnuhlíð fór ég næsta reglulega að heimsækja hana, þá var ávallt gott að sitja við hlið hennar. Við þurftum ekki endilega að tala saman. Nærveran var okkur nægjanleg. Það skynjuðum við báðar.

Tveimur dögum fyrir andlát Grétu sátum við svo saman og mér fannst eins og hugir okkar upplifðu aftur Draumalandið okkar. Vináttan og strengurinn milli okkar var svo sterkur. Guð blessi Grétu mína og allt hennar fólk.

Dröfn H. Farestveit.