Svifryk Gult sandský frá Sahara hefur legið yfir frönsku borginni Nice.
Svifryk Gult sandský frá Sahara hefur legið yfir frönsku borginni Nice. — AFP/Valery Hache
Rykský frá Saharaeyðimörkinni hefur lagst yfir hluta af Evrópu með þeim afleiðingum að loftgæði eru afar lítil og ryk sest á glugga og ökutæki. Copernicus-veðureftirlitsstofnunin segir að þetta rykský, sem er það þriðja á undanförnum vikum, valdi nú …

Rykský frá Saharaeyðimörkinni hefur lagst yfir hluta af Evrópu með þeim afleiðingum að loftgæði eru afar lítil og ryk sest á glugga og ökutæki.

Copernicus-veðureftirlitsstofnunin segir að þetta rykský, sem er það þriðja á undanförnum vikum, valdi nú mistri í suðurhluta Evrópu og muni færast í norðurátt allt til Skandinavíu.

AFP-fréttastofan hefur eftir Mark Parrington, vísindamanni hjá Copernicus, að þetta síðasta rykský tengist veðurkerfi sem hefur valdið hlýindum í hluta Evrópu á síðustu dögum. Þótt ekki sé óalgengt að ryk berist frá Sahara til álfunnar hafi tíðnin farið vaxandi og einnig þykkt skýjanna sem gæti tengst breytingum í hringrás andrúmsloftsins.

Ástandið nú er verst á Spáni en einnig hefur rykmengun borist til hluta af Sviss, Frakklandi og Þýskalandi. Búist er við að rykmengunar verði vart í Svíþjóð, Finnlandi og norðvesturhluta Rússlands.

Um 60-200 milljónir tonna af fínu svifryki berast frá Sahara á hverju ári og getur það farið um langan veg með vindum. Rykmengun hefur verið viðvarandi á Kanaríeyjum í vetur.