Stjórnfesta og stöðugleiki

Allt útlit er fyrir að stjórnarflokkunum sé að takast að ná samkomulagi um að halda hópinn áfram í nýju ráðuneyti út kjörtímabilið.

Það er fagnaðarefni takist það á svo stuttum tíma eftir að Katrín Jakobsdóttir beiddist lausnar, það eyðir óvissu í landstjórninni og á sinn hátt við hvert eldhúsborð og stjórnarborð í landinu.

Engum dylst þó að það verður ekki vandalaust. Fráfarandi ríkisstjórn hefur átt í innri togstreitu um ýmis brýn og vandasöm verkefni, en stundum má líka segja að vandinn hafi persónugerst!

Haft hefur verið á orði að ríkisstjórnin hafi ekki valið sér verkefnin, hún hafi fengið hvert tröllaukið verkefnið í fangið. Úr þeim hefur hún
hins vegar flestum leyst bærilega, sem bendir til þess að stjórnarmynstur svo ólíkra flokka sé ekki jafngrábölvað og sumir vilja vera láta.

Einnig mætti draga fram þætti eins og öfundsverðan hagvöxt og sterkan kaupmátt, hverfandi atvinnuleysi eða vanskil heimila, sem benda til þess að þrátt fyrir þráláta verðbólgu og háa vexti hafi stjórnarflokkarnir eitthvað að stæra sig af.

En nú er skammur tími til stefnu og ríkisstjórnin þarf að velja sér forgangsverkefni af kostgæfni og láta gæluverkefni og hégóma lönd og leið.

Hún þarf líka að sýna í verki
að hún standi sterk og sameinuð um erindi sitt og verkefni, án hiks og fyrirvara, múðurs og muldurs. Í því felst líka að hvorki flokkar, ráðherrar né þingmenn hennar geta leyft sér einleik. Þjóðin fylgist grannt með og það styttist í kosningar.