Tímamót Karl Sigurðsson með blóm frá Slysavarnadeildinni Tindum.
Tímamót Karl Sigurðsson með blóm frá Slysavarnadeildinni Tindum. — Ljósmynd/Tindar
Slysavarnadeildin Tindar í Hnífsdal fagnaði 90 ára afmæli um helgina. Við það tækifæri færðu fulltrúar sveitarinnar eina núlifandi stofnanda deildarinnar blómvönd. Sá er Karl Sigurðsson, skipstjóri á Ísafirði, gjarnan nefndur Kalli á Mími

Slysavarnadeildin Tindar í Hnífsdal fagnaði 90 ára afmæli um helgina. Við það tækifæri færðu fulltrúar sveitarinnar eina núlifandi stofnanda deildarinnar blómvönd. Sá er Karl Sigurðsson, skipstjóri á Ísafirði, gjarnan nefndur Kalli á Mími.

Karl er langelstur núlifandi karla á Íslandi, 105 ára. Karl og Kristjana Hjartardóttir, eiginkona hans sem lést fyrir rúmum áratug, voru meðal fimmtíu stofnenda Tinda 30. mars 1934 en þá voru þau bæði 15 ára. Karl er heiðursfélagi Tinda.

Greint er frá því á vefnum Langlífi á Facebook að Karl hafi dottið illa í janúar og farið með sjúkraflugi í aðgerð á Akureyri, þar sem hann fékk nýja mjaðmakúlu en sneri fljótt heim aftur. Að sögn Sigríðar Ingibjargar dóttur Karls hefur hann náð sér „furðulega vel“ og hann „gengur um eins og hann hafi aldrei brotnað“.

Þórhildur elst allra

Á síðustu áratugum hafa aðeins þrír íslenskir karlar náð hærri aldri en Karl sem verður 106 ára 14. maí næstkomandi. Jónas Ragnarsson, umsjónarmaður Langlífis, segir að Þórhildur Magnúsdóttir á Hrafnistu á Sléttuvegi sé nú elst Íslendinga en hún varð 106 ára í desember.

„Í þriðja sæti er Þórunn Baldursdóttir, mágkona Páls Bergþórssonar, sem varð 104 ára í september. Næstelsti karlinn er nýlega orðinn 102 ára, Þórður Jörundsson framhaldsskólakennari, sonur Jörundar Brynjólfssonar alþingismanns. Kona Þórðar heitir Sigríður Jónsdóttir og er 95 ára. Þau hafa verið gift í 71 ár,“ segir Jónas.