Rústir Palestínumenn ganga fram hjá hrundum byggingum í Khan Yunis á suðurhluta Gasasvæðisins í gær. Borgin er rústir einar eftir hernað.
Rústir Palestínumenn ganga fram hjá hrundum byggingum í Khan Yunis á suðurhluta Gasasvæðisins í gær. Borgin er rústir einar eftir hernað. — AFP
Þótt bæði Ísraelsstjórn og Hamas-samtökin bæru til baka í gær fréttir í egypskum fjölmiðlum um að skriður væri kominn á viðræður um lausn gísla sem haldið er á Gasasvæðinu og vopnahlé sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Katar við breska…

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Þótt bæði Ísraelsstjórn og Hamas-samtökin bæru til baka í gær fréttir í egypskum fjölmiðlum um að skriður væri kominn á viðræður um lausn gísla sem haldið er á Gasasvæðinu og vopnahlé sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Katar við breska ríkisútvarpið BBC að ný tillaga sem kom fram um helgina gæti brúað bilið.

Viðræður hófust að nýju um helgina í Kaíró í Egyptalandi þar sem sendinefndir frá Ísrael, Katar, Hamas og Bandaríkjunum komu saman.

William Burns, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, tók þátt í viðræðunum. Segja fréttaskýrendur að það undirstriki vaxandi þrýsting bandarískra stjórnvalda á að samkomulag náist.

Reuters-fréttastofan hafði eftir háttsettum sendimanni Hamas, að engin breyting hefði orðið á afstöðu Ísraels og því væri ekkert nýtt að frétta af viðræðunum í Kaíró. Heimildarmenn innan egypsku leyniþjónustunnar sögðu hins vegar að þokast hefði í rétta átt og báðar hliðar hefðu slakað á kröfum sem gæti leitt til samkomulags um vopnahlé. Þessar tilslakanir tengdust frelsun gísla og kröfum Hamas um að íbúar fengju að snúa aftur til norðurhluta Gasasvæðisins. Samningamenn segja að arabískar eftirlitssveitir gætu fylgst með þeim fólksflutningum undir eftirliti ísraelskra öryggissveita sem síðar yrðu kallaðar heim.

Palestínskur embættismaður sagði þó við Reuters að enn strandaði á því að Ísrael neitaði að hætta hernaðaraðgerðum og draga herlið sitt frá Gasa. Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísarels hefur ítrekað sagt að Ísrael muni ekki fallast á þessar kröfur Hamas þótt ísraelskir embættismenn hafi gefið til kynna að Palestínumönnum kunni að verða leyft að snúa aftur til norðurhluta svæðisins.

Ísraelsher hefur dregið sig til baka frá íbúðahverfum í borginni Khan Yunis syðst á Gasa en þar geisuðu harðir bardagar vikum saman. Íbúar fóru margir til Khan Yunis í gær og sögðu við AFP-fréttastofuna að borgin væri óþekkjanleg. Kona sagði að hún hefði ætlað að fara í hús sitt í þeirri von að hún gæti bjargað einhverju nýtilegu. „Við fundum ekki húsið,“ sagði hún.