Guðjón Jensson
Guðjón Jensson
Því miður hafa of margir stjórnmálamenn lagt í vana sinn að afvegaleiða umræðuna með rökum sem ekki reynast alltaf byggð á því sem rétt reynist.

Guðjón Jensson

Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi ritar grein í Mbl. 21. mars sl.: „Forsetinn, málfrelsið og lífæð lýðræðisins“. Strax í fyrstu setningu segir hann skoðun sína á meintum meinbugum aðildar að Evrópusambandinu. Um það má deila hversu rétt eða röng sú afstaða er en það hlýtur að vera lýðræðisleg ákvörðun þjóðarinnar að ákveða slíkt eftir mjög ítarlegar umræður byggðar á raunhæfu mati. Kosti og galla aðildar ber að skoða mjög nákvæmlega áður en skynsamleg ákvörðun er tekin.

Mér þykir forsetaframbjóðandinn taka nokkuð djúpt í árinni og tel hann vaða reyk með þessari skoðun sinni. Forseti má aldrei taka sér stöðu með eða móti einhverju viðkvæmu álitamáli sem ekki hefur verið tekin skynsamleg ákvörðun um. Mjög skýrt dæmi var þegar Ólafur Ragnar tók vægast sagt umdeilda ákvörðun um að synja staðfestingar lögum um það samkomulag við Breta sem nefnt hefur verið Icesave. Það reyndist síðar hafa verið kolröng ákvörðun forsetans enda fengu Bretar 50 milljörðum íslenskra króna meira en samkomulagið hljóðaði upp á! Því miður voru sáralitlar umræður um það mál en fólk skiptist í fylkingar, meira með hliðsjón af huglægu mati en skynsemi. Um uppgjör Icesave hefur sáralítið verið fjallað enda feimnismál mikið meðal þeirra sem á móti samkomulaginu voru.

Þegar samkomulag er gert draga báðir deiluaðilar í land í trausti þess að samningur komist á og honum megi treysta. Allir málsmetandi lögmenn gera sér grein fyrir þessu. Jafnvel er rýrt samkomulag betra en að skilja eitthvert tiltekið mál eftir galopið þar sem hver kann að halda sínu fram í fullu ósætti. Með þessari framkomu gagnvart Bretum vegna Icesave gerðu þeir eðlilega fyllstu kröfur enda fengu þeir rúmum 50 milljörðum meira í uppgjörinu. Þessari staðreynd hefur verið haldið nánast leyndri gagnvart þjóðinni og er það miður. Útistandandi skuldir þrotabús Landsbankans reyndust umtalsvert meiri en skuldbindingarnar gagnvart Icesave, Bretar fengu allar sínar kröfur greiddar, fylgjendum þessarar gáleysislegu stefnu Ólafs Ragnars til strangrar umhugsunar.

Ég leyfi mér að líta svo á að aðild að Evrópusambandinu hafi fleiri og betri kosti í för með sér en að standa utan þess. Aðildin gegnum EES reyndist okkur ákaflega hagkvæm enda eigum við Íslendingar meira í dag undir góðu samstarfi við Evrópusambandið en t.d. við Bandaríki Norður-Ameríku eins og nú er komið. Auðvitað áttum við mjög hagstæð samskipti og viðskipti við BNA eftir stríð en margt hefur breyst á undanförnum áratugum sem okkur ber að skoða enda okkur ekki eins hagkvæmt.

Ég tel að forsetaframbjóðandinn Arnar Þór sé vel menntaður og eigi gott bakland. En ég tel skoðun hans vægast sagt undarlega og hvet hann til að skoða og meta betur þessi mál enda er ótalmargt fullyrt um Evrópusambandið sem byggist ekki alltaf á réttu máli.

Því miður hafa of margir stjórnmálamenn lagt í vana sinn að afvegaleiða umræðuna með rökum sem ekki reynast alltaf byggð á því sem rétt reynist. Ég þykist vita að innan Evrópusambandsins séu mannréttindi og lýðræði betur metin en í öllum öðrum löndum heims. Evrópusambandið byggist á mjög traustum og raunhæfum grunni þar sem kappkostað er að halda öfgum á alla vegu utan við umræðuna eins og margsinnis hefur komið fram. Því miður hafa öfgamenn komist upp með ýmislegt en grundvöllur og forsendur Evrópusambandsins eru að forða samfélaginu frá þeirri ógæfu að þessir herrar sem vilja koma á einræði nái völdum.

Höfundur er rithöfundur, leiðsögumaður og eldri borgari í Mosfellsbæ.