Kínversk kona, sem búið hefur í Svíþjóð í 20 ár og starfað þar sem sjálfstæður blaðamaður, hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í október og verður nú vísað úr landi vegna gruns um að hún hafi stundað njósnir

Kínversk kona, sem búið hefur í Svíþjóð í 20 ár og starfað þar sem sjálfstæður blaðamaður, hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í október og verður nú vísað úr landi vegna gruns um að hún hafi stundað njósnir.

Samkvæmt málsgögnum, sem sænska ríkisútvarpið, SVT, Gautaborgarpósturinn og norska ríkisútvarpið NRK hafa séð, telur sænska öryggislögreglan Säpo að athafnir konunnar hafi ógnað öryggi sænska ríkisins með alvarlegum hætti. Haft er eftir lögmanni konunnar að hún neiti sök.

Nafn konunnar er ekki birt en hún á fjölskyldu í Svíþjóð. NRK segir á vef sínum að konan hafi verið í nánum tengslum við kínverska sendiráðið í Svíþjóð og m.a. fengið greiðslur frá kínverskum flokksstofnunum til að breiða út boðskap kínverskra stjórnvalda.

NRK segir að konan hafi oft komið til Noregs og tekið þar viðtöl og hún hafi einnig verið í Danmörku, Finnlandi og á Íslandi við efnisöflun.