Ísland leikur á ný á EM kvenna í handbolta í lok þessa árs, fjórtán árum eftir að íslenska liðið lék þar í fyrsta skipti. Þetta eru ánægjuleg tíðindi og liðið fylgir þar með eftir frammistöðu sinni á HM í lok síðasta árs

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ísland leikur á ný á EM kvenna í handbolta í lok þessa árs, fjórtán árum eftir að íslenska liðið lék þar í fyrsta skipti.

Þetta eru ánægjuleg tíðindi og liðið fylgir þar með eftir frammistöðu sinni á HM í lok síðasta árs.

Þegar Ísland lék á HM 2011 og EM 2010 og 2012 var erfiðara að komast á stórmótin en í dag, sérstaklega á EM þar sem þá léku 16 lið í lokakeppninni.

Nú verða hins vegar 24 lið í lokakeppni EM 2024 og íslenska liðið nýtti sér vel tækifærið sem gafst þegar keppnin var stækkuð um átta þjóðir.

Þegar dregið var í undanriðlana sást strax að Ísland var í sannkölluðu dauðafæri, nóg var að sigra Færeyjar og Lúxemborg, og það gerði liðið á ágætlega sannfærandi hátt.

En bilið upp í bestu liðin er stórt, það sást best á leikjunum tveimur við Svía sem töpuðust með þrettán og fjórtán marka mun.

Arnar Pétursson hefur byggt liðið upp af miklum metnaði síðustu ár og sagði við RÚV þegar EM-sætið var í höfn að í framtíðinni ætti að vera jafn sjálfsagt að kvennalið Íslands væri á öllum stórmótum og okkur þykir sjálfsagt að karlaliðið sé þar.

Eftir stórmótin 2010 til 2012 kom tíu ára lægð hjá kvennalandsliðinu þar sem vantaði talsvert upp á að afrekin væru endurtekin.

Nú þarf HSÍ að sýna í verki að metnaður sambandsins sé sá sami og metnaður þjálfarans. Og ekki bara HSÍ, heldur líka félögin í landinu sem ala upp leikmennina og skapa þeim umhverfi til að þroskast og dafna. Handboltaþjóðin Ísland á að geta verið með tvö landslið í fremstu röð.