Jón G. Guðbjörnsson
Jón G. Guðbjörnsson
Sr. Elínborg er heilsteypt og fordómalaus manneskja, glaðsinna, drífandi og nær vel til fólks.

Jón G. Guðbjörnsson

Í ársbyrjun 2008 og raunar fyrr lá fyrir að það leið að starfslokum hjá þáverandi sóknarpresti í Stafholti, sr. Brynjólfi Gíslasyni, eftir fjörutíu ára dygga þjónustu í prestakallinu. Í hönd fór hefðbundið ferli til undirbúnings á vali eftirmanns hans sem hófst með auglýsingu biskups. Alls bárust þrettán umsóknir og að meirihluta frá konum. Allt kom þetta fólk vel fyrir og góðum kostum búið en með mismikla reynslu og viðhorf eins og gengur. Nokkur þeirra vöktu meiri áhuga valnefndar en önnur eftir kynningarfundi þar sem hverju fyrir sig gafst kostur á samtali við valnefndina sem skipuð var níu einstaklingum úr þremur sóknum prestakallsins auk prófasts. Í hópi umsækjenda var sr. Elínborg Sturludóttir. Ekki er ástæða til að orðlengja það að fljótt lá fyrir að einhuga samstaða væri um að mæla með sr. Elínborgu til prests í Stafholti við biskup herra Karl Sigurbjörnsson og gekk það eftir. Niðurstaðan mæltist vel fyrir í sóknum og ánægja ríkti með störf hennar þau tíu ár sem við urðum þeirra aðnjótandi. Sr. Elínborg er heilsteypt og fordómalaus manneskja, glaðsinna, drífandi og nær vel til fólks. Þótt ég sé nú utan sviðs til áhrifa á vali nýs biskups þá er mér það jafn hugleikið að vel takist til. Sr. Elínborg býr yfir fjölþættri reynslu af prestsstörfum bæði í dreifbýli og þéttbýli sem væri henni gagnleg í störfum sem biskup. Kirkjan á því miður undir högg að sækja á tímum ríkjandi sjálfbirgingsháttar í samfélaginu gagnvart guðstrú og kristindómi (nú-get-ég-heilkennið). Einingu innan kirkjunnar sem stofnunar er áfátt og brýnt að koma þar á friði og eindrægni jafnt um hennar innra og ytra starf. Án þess mun hana skorta trúverðugleika. Ég treysti sr. Elínborgu Sturludóttur til allra góðra verka í þeim efnum og öðrum.

Höfundur er fv. sóknarnefndarformaður í Norðtungusókn.

Höf.: Jón G. Guðbjörnsson